27.2.2014 | 14:03
Getraun dagsins. Hvað eru algengir vextir á húsnæðislánum í Hollandi?
Það hefur mikið verið rætt um vexti og hvað þeir myndu lækka á Íslandi ef Ísland gengi í "Sambandið og tæki upp euro.
En það eru ekki til neinir "Sambandsvextir".
Vextir eru mismunandi í löndum "Sambandsins" sem og á Eurosvæðinu. Hér er blekkjandi að miða við meðaltal, eða reyna að halda því fram að vextir á Íslandi yrðu eins og í Þýskalandi svo dæmi sé tekið.
Þar með er ekki sagt, að ekki sé líklegt að vextir myndu lækka á Íslandi ef tekinn yrði upp annar gjaldmiðill. En það er einnig líklegt að sú lækkun yrði ekki eins mikil og oft er látið í veðri vaka.
Spurning dagsins er því þessi í tveimur liðum:
A) Hver er vaxtaprósenta á húsnæðisláni hjá Hollenska ríkisbankanum ABNAmro. Svar taki mið af því að lánið sé til 30 ára og lánshlutfall sé á milli 75 og 100%. Vilji menn frekar miða við lán undir 75% veðhlutfalli, verður það svar tekið gilt, en taka verður fram við hvort er miðað.
B) Hver er verðbólga í Hollandi.
Leyfilegt er að nota internetið til að afla sér upplýsinga og skal sérstaklega bent á síðurnar:
https://www.abnamro.nl/en/personal/mortgages/interest-rates/index.html
og
http://epp.eurostat.ec.europa.eu/cache/ITY_PUBLIC/2-24022014-AP/EN/2-24022014-AP-EN.PDF
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 15:17 | Facebook
Athugasemdir
Langar að benda þér á villu: Það er sama slóð á bakvið báða hlekkina í færslunni. Þú getur svo eytt þessari athugasemd ef það hefur verið leiðrétt. :-)
Erlingur Alfreð Jónsson, 27.2.2014 kl. 14:32
Bestu þakkir fyrir þessa ábendingu Erlingur. Þetta ætti að vera komið í lag núna, ég biðst forláts á þessum mistökum.
G. Tómas Gunnarsson, 27.2.2014 kl. 15:18
Holland: verðbólga 0.8% og vextir á 75% 20 ára óvertryggðu láni eru 4,75%
Ísland: Verðbólga er 2.5% og vextir á 70% 20ára verðtryggt láni er 4,45% þannig að vextir á Íslenska verðtryggða láninu eru í raun verðbólga + vextir =6,95%
Ps: Vextir á Íslenska láninu eru með þeim fyrirvara að verðbólga haldist lág í alla veganna eina viku en ekki þarf að hafa áhyggjur af slíku með Hollenska lánið þar sem Evran og evrópskt efnahagskerfi er stöðugt.
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 27.2.2014 kl. 16:03
"...þar sem Evran og evrópskt efnahagskerfi er stöðugt." Frábært að heyra þetta Helgi. Ert þú búinn að búa neðanjarðar s.l. ár?
Jón Steinar Ragnarsson, 27.2.2014 kl. 16:23
Vissulega eru vextir í Hollandi lægri en á Íslandi, ég held að því neiti enginn. En það er engin trygging fyrir því að vextir á Íslandi verði eins og í Hollandi. Ekki frekar en þeir eru eins í Hollandi og öllum öðrum eurolöndum.
Það er líka rétt að hafa í huga að vegna hinna gríðarlegu efnahagsörðugleika sem Eurosvæðið hefur glímt við, eru vextir þar í sögulegu lágmarki. Seðlabanki Eurosvæðisins reynir enda hvað hann getur til að styrkja hagvöxt og sporna á móti því að komi til verðhjöðnunar.
Á meðan efnahagsörðugleikarnir eru viðvarandi verða vextir lágir, það má telja nokkuð öruggt, að ef svæðið hjarnar við, hækki vextir.
G. Tómas Gunnarsson, 27.2.2014 kl. 16:41
Því má svo bæta við, að þó að vissulega sé ekki fyrir því nein trygging, þá eru líkur á því að fasteignaverð haldi í við verðbólgu og oft vel það.
En það er vissulega ekki alltaf raunin. Fasteignaverð í Hollandi hefur t.d. fallið um u.þ.b. 30% að raunvirði síðan að efnahagsörðugleikarnir hófust á Eurosvæðinu. Í mörgum löndum Eurosvæðisins hefur verðfallið jafnvel verið meira.
Það er nefnilega svo, að ef að verðgildi gjaldmiðilsins er nokkuð stöðugt, verða aðrir fastar að taka á sig höggið sem verður þegar efnahagskerfið hikstar.
Fasteignaverð og laun lækka þá gjarna, samfara vaxandi atvinnuleysi.
G. Tómas Gunnarsson, 27.2.2014 kl. 16:59
Sé ekki betur en Arion bjóði 3.5% að 70% veði og 4,5 af því sem er umfram. Lífeyrissjóður Verslunarmanna býður 3,5 - 3,9 en aðeins að 65% veðhlutfalli. (miðast við verðtryggt enda vextir af verðtryggðu yfirleitt lægri)
Á báðum stöðum virðist vera hægt að velja milli jafnra afborgana og jafnra greiðslna.
ls.
ls (IP-tala skráð) 27.2.2014 kl. 18:29
Jón Steinar málefnalegur að venju...
Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 28.2.2014 kl. 08:08
Vextirni sem ls er að benda eru á verðtryggðum lánum og eru þess vegna ekki sambærilegir við vexti á óverðtryggðum lánum sem eru efni færslunnar.
Hægt er að finna upplýsingar um vexti hjá Seðlabanka Íslands. Samkvæmt nýjustu tilkynningu eru þeir nú lægstir 6,75% á óverðtryggðum lánum með breytilega vexti. Það er hjá Landsbankanum og miðast við allt að 70% veðsetningu. Einnig er hægt að taka viðbótarlán upp að 85% veðsetningu á 7,75% vöxtum.
En þar sem verið er að bera saman kjör á milli mismunandi landa í pistlinum hér að ofan, er kannski vert að benda á að á EES-svæðinu er í gildi samræmd aðferð til þess að meta lánskostnað óháð lánsformum eða greiðsluhögun (sem á íslensku verðtryggðum lánunum felur til dæmis sér mikla seinkun á raunverulegri greiðslubyrði). Þessari aðferð er lýst í lögum um neytendalán og felur hún í sér að veita skuli upplýsingar um heildarlánskostnað miðað við forsendur á hverjum tíma, auk árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Yfirlýstur tilgangur þessara reglna er einmitt að gera mismunandi lán samanburðarhæf með samræmdri aðferð.
Guðmundur Ásgeirsson, 28.2.2014 kl. 18:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.