26.2.2007 | 00:18
"Æjatolla" Steingrímur og gullið í Silfrinu
Eins og áður var sagt hér á blogginu, horfði ég á Silfur Egils í dag. Þar kom meðal annara Steingrímur J. Sigfússon. Mælskur var Steingrímur eins og endranær, en eins og oft áður var ýmislegt í málflutningi hans sem mér féll ekki í geð.
Meðal annars talaði Steingrímur um að það yrði að hækka fjármagnstekjuskattinn. Hann talaði um að VG væri þeirrar skoðunar að rétt væri að skattleggja fjármagnstekjur jafn hátt og tekjuskatt fyrirtækja eða 18% (hér er rétt að hafa í huga að hann virðist þó ekki vera þeirrar skoðunar að skattleggja eigi fjármagnstekjur eins og aðrar tekjur almennings, eða að hækka þurfi tekjuskatt fyrirtækja og ber að fagna því).
Steingrímur sagðist þó vilja taka þetta í áföngum og hækka í 14-15% til að byrja með. Hann bætti því við að "almennur sparnaður" yrði undanþeginn fjármagnsskatti ef VG fengi að ráða, svona eins og 120.000 sem yrðu skattfrjálsar vaxtatekjur.
Það má sem sé eiga eins og eina milljón á bankabók, án þess að Steingrímur og félagar vilji fara að taka af viðkomandi fjármagnstekjuskatta. Það er allt og sumt.
En í sama þætti sagði Steingrímur að hann væri fylgjandi hátekjusköttum sem byrjuðu í um það bil 1.200.000 fyrir hjón, ef ég skyldi rétt.
Það er sem sé allt í lagi að hafa ágætis tekjur, en það er sjálfsagt að refsa þeim sem spara, mér fannst alla vegna ekki hægt að skilja þetta öðruvísi.
Ef einhver á til dæmis að safna sér fyrir útborgun í íbúð, þá þykir Steingrími og félögum sjálfsagt að hækka á hann skattana.
Er ekki réttara að hafa einfalda á lága álagningu á fjármagnstekjur og hvetja til sparnaðar?
Sömuleiðis þykir Steingrími ekkert tiltökumál að taka það vald af eigendum hlutabréfa að kjósa þann sem þeir treysta best til að sitja í stjórnum fyrirtækja. Þar vill hann að hið opinbera setji lög, sem leyfi þeim sem atkvæðisrétt hafa í fyrirtækjum aðeins að kjósa þann sem þeir vilja, ef vilji þeirra fer saman við vilja Steingríms og skoðanbræðra um að helmingur sem kosinn sé af hvoru kyni.
Sömuleiðis virðist Steingrímur vilja skerða lýðræðisréttinn að sama marki í almennum kosningum.
Svo vill Steingrímur, rétt eins og "æjatollarnir" koma á fót internetlögreglu.
Ég segi bara púff, og ætla rétt að vona að Íslendingar hafi í stórum hópum snúið baki við VG í dag.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Viðskipti | Breytt s.d. kl. 00:40 | Facebook
Athugasemdir
Ég segi nú bar úff líka. Ég horði á þáttinn og var alveg gáttaður. Eru menn ekki búnir að sjá hvernig 10% fjármagnstekjuskattur er búinn að mala gull í ríkissjóð?? Þvílík og önnur eins steipa sem Steingrímur lét útúr sér varðandi þessi skattamál og þetta með internetlögguna, nei við skulum biðja fyri okkur að þessi flokkur komist ekki til valda.
klakinn (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 01:09
Alveg undrandi. Þeir sem greiða fjármagnstekjuskatt(10% í dag) er fólk sem í flestum tilvika virðast hafa úr nógu að spila. Jafnvel greiða þessir aðilar ekkert útsvar. Til samanburðar vinnur kona mín í frystihúsi fær 150.þús. kr á mánuði og má greiða rúmlega 35 % . Því spyr ég Tómas og klakann er einhver sanngirni í því?
Þorkell Sigurjónsson. (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 09:02
Svo rétt sé rétt borgar kona Þorkels 35% af mismuni 150 þús og frítekjumarka.
Enn og aftur sanna Steingrímur og frænkur hans að þessu fólki er ekki treystandi fyrir minnstu aðkomu að efnahagsmálum, einfaldlega vegna þess að þau skilja hvorki upp né niður í þeim. Guð forði okkur frá því að þau komist í að hækka hér skatta og taka upp lögbundna kynjamismunun.
Anton (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 10:51
Það er hryllingur að enn skuli vera til fasistar í íslenskum stjórnmálum sem
lifa á innantómu lýðskrumi sem gengur útá að allir hafi það jafn skítt,
því þá sé hægt að stjórna með boðum og bönnum.
Leifur Þorsteinsson, 26.2.2007 kl. 12:06
Ja ef 10% fjármagnstekjuskattur er búinn að mala gull í ríkissjóð þá ætti 15% að mala helmingi meira í sama sjóð. Annars sýnist mér vera kominn tími á vinstri stjórn.
Ekki skil ég hvað menn óttast að sett verði upp internetlögga. Í ljósi frétta um barnaníðinga sem tæla börn á netinu þá sýnist mér ekki veita af netlöggu. Erlendis eru sérstakar deildir sem fylgjast með hvort ólöglegt efni eins og barnaklám sé að finna á vefsíðum svo segja má að fyrirbærið netlögga sé þegar til staðar. Netlöggur verða að virða friðhelgi einkalífsins eins og aðrar löggur svo ég sé enga ástæðu til að óttast.
Kristján (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 18:14
Svona netlögreglu eins og í Kína? Eða eins og Saddam var með í Írak?
Streingrímur J. er ekkert annað en hardcore kommúnisti. Ég vona innilega að hann komist ekki til valda.
Geiri (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 18:19
Þegar t.d. gjafakvótaeigendur sem hafa selt lítilræðið fyrir svona 20 milljarða eða svo þurfa hugsanlega að borga meira en 10 % af arðinum kallast það refsing!
Hvað hefur hún unnið sér til refsingar konan sem þiggur 150 þús. í laun í frystihúsi?
Árni Gunnarsson (IP-tala skráð) 26.2.2007 kl. 22:26
Staðreyndin er auðvitað sú að langmest af því fé sem einstaklingar hafa í ávöxtun er fé sem búið er að greiða skatt af. Það er sparifé.
Ef menn telja hins vegar þjóðina hafa einhverra sérstkra harma að hefna gegn fyrrverandi kvótaeigendum er affarasælla að leita annara ráða til þess en að hegna almennum sparifjáreigendum. Það er þörf á því að hvetja til sparnaðar á Íslandi.
Það verður líka að hafa í huga að fjármagnstekjuskattur er greiddur af öllu fjármagnstekjum, en eins og staðan er í dag er þarf um það bil helming af vöxtum góðrar sparisjóðsbókar til þess að dekka verðbólgu.
Hvað varðar ávöxtun með hlutabréf, er rétt að hafa í huga að það er áhættusöm fjárfesting, og auðveldlega er hægt að tapa stórfé á slíkum viðskiptum. Ég minnist þess ekki að hafa séð tillögur um að þeim sem tapa sem komið til aðstoðar af hálfu hins opinbera, en er það þá ekki jafn sjálfsagt og að hið opinbera taki stóran part af ávöxtuninni?
Hvað varðar þá sem eingöngu telja fram fjármagnstekjur, þá kom það fram í fréttum að flestir þeirra eru afar tekjulágir. Ég er til dæmis einn af þeim, tel eingöngu fram fjármagnstekjur á Íslandi, enda bý ég annars staðar. Ég bloggaði um það fyrir nokkru og má lesa það hér.
G. Tómas Gunnarsson, 27.2.2007 kl. 04:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.