Frelsi í 22 ár

Í dag eru liðin 22 ár síðan hernámi Sovétríkjanna lauk í Eistlandi.  Heil kynslóð Eistlendinga hefur náð að vaxa úr grasi laus við ok sósíalismans.

Það eru 95 ár síðan Eistland lýsti yfir sjálfstæði sínu, en enn hefur þjóðin ekki náð því marki að hafa verið frjáls í meira en helming þess tímabils.  Hernám kommúnismans varði í yfir 50 ár.

Tvisvar þurftu Eistlendingar að sækja frelsi sitt í hendur Sovétsins.  Í hvorugt skiptið án fórna, en í það síðara þó án blóðsúthellinga.

En hernámið var ekki án þjáninga, ekki án þess að blóði væri úthellt.  Tugum ef ekki hundruða þúsunda var fórnað á altari kommúnismans.  Lestarferðir án endurkomu var hlutskipti sem í "alræði öreiganna"  var það eina sem var í boði fyrir tugþúsundir Eistlendinga.

Sovétríkin, bæði sem bandamenn Nazista og sigurvegarar þeirra notuðu tækifærin sem buðust til að brjóta niður og myrða Eistlendinga sem og aðra íbúa Eystrasaltslandanna.

En 20. ágúst 1991 lýstu Eistlendingar því yfir að þeir hefðu endurheimt sjálfstæði sitt, að frelsið væri þeirra á ný.

Þann 21 ágúst., daginn eftir, viðurkenndu Íslendingar, fyrstir ríkja sjálfstæði Eistlendinga, sem og Lettlands og Litháen.

Mér er það til efs að utanríkisstefna Íslendinga hafi risið hærra en þann dag.  

Íslendingar stóðu með lítilmagnanum, þorðu að standa með sjálfsákvörðunarréttinum og frelsinu.

Ég óska Eistlendingum hvar sem þeir eru staddir til hamingju með daginn.

P.S.  Ég naut þess að labba á meðal Eistlendinga í dag, þar sem þeir fögnuðu deginum.  Herinn var áberandi og það var einnig eftirtektarvert hve hátt hlutfall talaði Rússnesku.  En dagurinn var ánægjulegur.  Set ef til vill inn myndir hér fljótlega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

En hvað finnst þér um göngur SS-liða og nýnasista sem eru leyfðar og hommahatur Res-Publica/Pro Patria, eða hvernig stjórnvöld gera vísvitandi lítið úr gyðingamorðum í landinu? Eiga Íslendingar að hylla land í ESB sem stundar slíkt óeðli?

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.8.2013 kl. 22:25

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Ég veit ekki hvar heimurinn væri staddur ef Sovétið hefði aldrei verið til. En ég hugsa að í þeim heimi væri Rússland meira afl.

Ásgrímur Hartmannsson, 21.8.2013 kl. 09:08

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þó að sem betur fer stefni flest fram á við, bæði í Eistlandi og Eystrasaltslöndunum sem heild, þýðir það ekki að það sé ekki margt sem betur megi fara.  Mannréttindamál eru t.d. þar á meðal.

Ég er ekki einn af þeim sem er yfir mig hrifnn, eða ákáfur talsmaður þess að banna allt sem menn eru á móti.  Væri t.d. rétt að banna kommúnistaflokka?  Það er engu líkara en margir vilji endurskapa "Sovétið", bara eftir eigin hugmyndum.  Persónulega hef ég ekki mikla trú á slíkum lausnum.

En uppgjör Eystrasaltsríkjanna við fortíðina er annar og margslunginn handleggur. Ekkert virkilegt slíkt uppgjör hefur farið fram.  Það litast ef til vill að hluta til af þeirri staðreynd að slíkt er erfitt og gæti tætt íbúanna í sundur.

Er hægt að gera upp stríðsárin án þess að gera upp hvernig innlimunin í Sovétríkin átti sér stað?  Voðaverk voru unnin í "fyrra hernámi" Sovétsins, í hernámi Þjóðverja, og svo í "seinna hernámi" Sovétsins, sem stóð í yfir 50 ár.

Eðlilegast væri að mörgu leyti að líta á þetta í samhengi.

En þjóðirnar búa við þá staðreynd að í ríflega 50 ár urðu þær að líta á böðla sína sem frelsara.  Staðan er enn flóknari vegna þess að stór hluti þeirra sem hernámsliðið flutti inn í löndin búa þar enn.

Hvernig er best að "taka á" stöðunni?  Það getur ekki talist hugrakkasta leiðin að gera lítið, en margir líta á það sem þá friðvænlegustu.

Ef Sovétið hefði aldrei verið til, er erfitt að segja til um hvernig heimurinn væri. En hann væri án efa verulega öðruvísi.

G. Tómas Gunnarsson, 22.8.2013 kl. 07:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband