Sigurvegari með og án forgjafar

Það hefur víða um netið mátt sjá misjafnar skoðanir á þvi hverjir eru sigurvegarar kosninganna. Sumir vilja fyrst og fremst miða við að sá sem hlýtur flest atkvæði sé sigurvegari.

Það er fullgilt sjónarmið.

Þannig er það í mörgum keppnisíþróttum.  Ef KR sigrar til dæmis Val 2 - 1 í ár, en sigraði Val 5 - 1 í fyrra, þýðir það ekki að Valur sé sigurvegari í ár.

Í þessum skilningi er auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn sigurvegari kosninganna.  Hann hlaut flest atkvæði, um það verður ekki deilt.

En svo er það golfið.  Þar er keppendum úthlutað forgjöf eftir settum reglum og oft keppt með og án forgjafar.

Ekki ætla ég að fara að úthluta pólítískri forgjöf, en sé reiknað út frá stöðu flokka fyrir kosningar og í sögulegu samhengi, fæst auðvitað önnur niðurstaða.

Það er líka fullgilt sjónarmið.

Það er því ekki hægt að segja að það sé neitt óeðlilegt við að Sigmundur hljóti umboð til stórnarmyndunar, en það er þó langt í frá sjálfgefið.

Svo er auðvitað umboðið til stjórnarmyndunar ofmetið.  Allir stjórnmálaforingjar (og fleiri) hafa auðvitað fullt frelsi til að tala sín á milli, án sérstaks umboðs.

Það er síðan þingstyrkur sem  í raun ræður. 


mbl.is Sigmundur boðaður til Bessastaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ólafur hefur tekið viturlega ákvörðun, þar eð Sigmundur Davíð nýtur mikið meira trausts hjá þjóðinni en Bjarni Ben. Þótt þeir tveir hafi talað saman og Sjálfstæðisflokkurinn hafi fengið örlítið hærri atkvæðaprósentu, er ólíklegt að Bjarni fari að mæla gegn því umboði sem Ólafur færir Sigmundi.

Ég er alla vega ánægður með að Sigmundur verður forsætisráðherra í stað Bjarna, sem þá væntanlega verður fjármálaráðherra.

Pétur D. (IP-tala skráð) 30.4.2013 kl. 11:25

2 Smámynd: Skúli Víkingsson

Það leikur ekki vafi á því að Sigmundur hefur meira traust meðal álitsgjafa, en það er líka líklegt að Samfylking hefði fengið nálægt meirihluta atkvæða ef álitsgjafarnir hefðu einir kosningarétt.

Skúli Víkingsson, 30.4.2013 kl. 11:49

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er er afstætt eins og maðurinn sagði.  Stærsti einstaki hópur kjósenda treystir Sjálfstæðisflokknum best til forystu.

En ég held að fæstir séu verulega ósáttir við að Sigmundur hafi fengið stjórnarmyndunarumboð.

Ég hugsa að fleiri séu ósáttir við hvernig dæmið er sett upp á Bessastöðum.  Það er vissulega fínt að forseti og formenn ræði málin.  En þetta er farið að snúast upp í óþarft "show".

Auðvitað vita allir að umboð skiptir engu raunverulegu máli.  Allir geta rætt við alla, út um allt, um hvað sem er.

Ég hugsa að kjósendur hafi meiri áhuga á góðu innihaldi, en að verið sé að splæsa í meiri umbúðir.

G. Tómas Gunnarsson, 30.4.2013 kl. 16:32

4 Smámynd: Skúli Víkingsson

Hættan við svona "show" og formlegheit er að tími fari forgörðum, eða amk. að svo líti út frá almenningi séð. Ný ríkisstjórn, hver sem hún verður, hefur mjög fáa hveitibrauðsdaga og eins gott að nýta þá vel. Almenningur hefur varla þolinmæði fyrir fleiri svona formlegheitaleikrit.

Skúli Víkingsson, 30.4.2013 kl. 16:37

5 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Ef það á að líkja úrslitunum við knattleik, þá fór leikurinn milli B og D 10:3 fyrir Framsókn. Gildir einu þó D sé feitara liðið.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 30.4.2013 kl. 17:13

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þessi forseti er alltaf með "show". Sýniþörf á háu stigi.

Nú er spurning hvort Bjarni eða Sigmundur er með meiri stjórnunarþörf.

Annars er þetta hálfgerð pattstaða milli flokkanna því þeir eru svo jafnir, eiginlega. Verður sennilega að höggva á hnútinn með því að skiptast á um að vera forsætisráðherra, sem er frekar hallærislegt.

Sé ekki alveg að annarhvor þeirra geti verið bara besti vinur aðal.

Kristján G. Arngrímsson, 30.4.2013 kl. 18:00

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Axel.  Ég hef vanist því að það séu mörkin (atkvæðin) sem telja, man aldrei eftir því að líkamsástand skipti máli, eða dæmt sé út frá því, nema þá í vaxtarækt.

En ég man eftir því þegar ég var yngri og fótboltaleikirnir voru stundum "upp í" 10.  Þá var það stundum ef að þótti halla á annað líðið að það fékk t.d. 3. mörk í forgjöf.

@Kristján.  "Show" getur verið gagnlegt og skemmtilegt.  En það verður pínlegt þegar flestir sjá í gegnum það.

Hvað það að vera forsætisráðherra þá er staðan líklega sú að Bjarni "þarfnast" þess meira en Sigmundur.  En það má líka líta á það að í tíð Jóhönnu, hefur forsætisráðuneytið verið gert veikara, en "prestigið" er vissulega enn til staðar.  Spurningin hvort verði farið í það aftur að stokka upp ráðuneyti og verkskiptingu á milli þeirra.

Ég er sammála því að skipta forsætisráðuneyti á milli flokkanna, t.d. 2 ár og 2. ár, er undarlegt fyrirkomulag.

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að það hafi átt sinn þátt í því hve illa fór fyrir Framsókn og Halldóri Ásgrímssyni.  Kjósendur sáu að þess tíma Framsóknarflokkurinn var eingöngu "in it for the plunder".  Gengu á milli og fengu tilboð.  Fengu betri "feng" en þeir áttu skilið.

En eins og uppröðun ráðuneyta er nú er Fjármálaráðuneytið að flestu ef ekki öllu leyti valdameira embætti en Forsætisráðuneytið.  Steingrímu J. Stóð enda ekki í neinum skugga af Jóhönnu Sigurðardóttur, það var frekar á hinn veginn.

Gallinn er hins vegar sá að Fjármálaráðherra, er auðvitað lykilmaður í því að efna kosningaloforð Framsóknarflokksins, sem flækir stöðuna.

Framsóknarflokkurinn getur ekki farið fram á bæði Forsætis og Fjármálaráðuneyti, nema þá í stjórn með Samfylkingu og Vinstri grænum.

Þá kemur yfirlýsing Árna Páls, strax til með að hanga yfir þeirri ríkisstjórn, þvi hún hefur ekki meirilhuta atkvæða.  (Hann er gersamlega búinn að spila rassinn úr buxunum á undanförnum dögum).

En ég tek undir með þér að þetta er nokkuð snúin staða, en samt sem áður lang rökréttasta ríkisstjórnin.

Það er erfitt fyrir bæði Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn að dúkka upp í ríkisstjórn með fyrrverandi ríkisstjórnarflokkunum, sem settu Evrópumet í fylgistapi ríkisstjórnar.

G. Tómas Gunnarsson, 1.5.2013 kl. 03:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband