29.4.2013 | 03:57
Hið lýðræðislega umboð til að breyta þjóðfélaginu
Það er auðvitað ekki rétt að ganga út frá því sem orðnum hlut að Sjálfstæðiflokkur og Framsóknarflokkur myndi saman næstu ríkisstjórn.
En ef við tökum umræðu, út frá þeim punkti hefur slík ríkisstjórn fullt umboð til að breyta þjóðfélaginu.
Fyrsta "tæra vinstri stjórnin" sem Árni Páll Árnason, núverandi formaður Samfylkingar var um tíma ráherra í, var studd af Samfylkingu og Vinstri grænum.
Saman hlutu þessir tveir flokkar 51.6% greiddra atkvæða í síðustu kosningum.
Ekki man ég eftir því að Árni Páll, eða nokkur annar stuðningsmaður stjórnarinnar talaði um að hún hefði ekki lýðræðislegt umboð til að breyta þjóðfélaginu.
Þvert á móti varð vart við það sjónarmið að hún hefði umboð til að umbylta þjóðfélaginu.
Jafnvel eftir að þingmenn fóru að yfirgefa ríkisstjórnarflokkana og meirihluti hennar á Alþingi varð æ tæpari taldi ríkisstjórnin sig hafa fullt umboð til að "keyra" í gegn umdeild mál.
Jafnvel eftir að Íslenskir kjósendur höfðu tvisvar neitað ríkisstjórninni um að koma IceSave máliinu í gegn, eins og ríkisstjórnin vildi afgreiða það, taldi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sig hafa fullt umboð til að halda áfram að gera breytingar á þjóðfélaginu.
Vegna þess hve veikburða og rúin trausti ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var á seinnipart kjörtímabilsins, breyttist Alþingi í undarlegan skrípaleik. Ekki síst vegna þess að ríkisstjórnin neitaði að leita til kjósenda, en taldi sig hafa fullt umboð til áframhaldandi breytinga á þjóðfélaginu.
Ef mynduð verður ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur hún 51.1% atkvæða á bak við sig. Hálfu prósentustigi minna en "tæra vinstri stjórnin" hafði.
Það hálfa prósentustig, ræður varla hvort ríkisstjórn hefur umboð til að breyta þjóðfélaginu eður ei.
En ég vona, og líklega flestir Íslenskir kjósendur, að komandi ríkisstjórn, hvernig sem hún verður skipuð, takist að skapa meiri sátt og festu, bæði á Alþingi og í þjóðfélaginu.
Því kjósendur kalla á breytingar í þjóðfélaginu.
Það sýna kosningaúrslitin.
Það sýnir Evrópumetið í tapi sem vinstri stjórnin setti.
Það sýnir útreiðin sem Samfylkingin fær. Íslandsmet í tapi stjórnmálaflokks er hennar.
Ekkert umboð til að breyta þjóðfélaginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:45 | Facebook
Athugasemdir
Samfylgking og VG fengu umboð síðast til að breyta íslensku þjóðfélagi
en Jóhanna og Steingrímur reyndust algjörlega föst í gömlu hjólförunum
Grímur (IP-tala skráð) 29.4.2013 kl. 06:07
Það eru ekki klókir stjórnmálamenn sem telja sig hafa umboð til þess að gjörbreyta eða umbylta þjóðfélaginu með rétt ríflega 51% af atkvæðamagni.
En í þann "pytt" féllu Jóhanna og Steingrímur, Samfylkingin og vinstri græn. Því fór sem fór, og kjósendur felldu síðan dóm yfir fyrirætlunum þeirra á nýliðnum laugardegi.
En þau höfðu vissulega umboð til að breyta því.
En ég vona að næsta ríkisstjórn verði hófstilltari og byggi um meiri samstöðu.
Það er mörgu sem þarf að breyta og næsta ríkisstjórn mun hafa umboð til þess. En það gefst oft best að hafa minna undir en gera það vel.
Það er líka lexía sem allir stjórnmálamenn ættu að draga af fráfarandi ríkisstjórn.
G. Tómas Gunnarsson, 29.4.2013 kl. 06:29
Sæll Tómas góð greining hjá þér, en við kjósendur erum orðnir frekar þreyttir á kjánaskap Árna Páls.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 29.4.2013 kl. 07:45
Árni, formaður hins deyjandi landráðaflokks telur sig geta bullað hvað sem er í erlenda fréttamiðla, því að ráðherrar fráfarandi ríkisstjórnar hafa verið að gera það sl. 4 ár með góðum árangri. Svo virðist sem þeir erlendu fréttamenn, sem eru algerlega úr tengslum við raunveruleikann, séu undrandi á því að íslenzkir kjósendur kolfelldu þessa dásamlegu ríkisstjórn. Þeir gera sér ekki grein fyrir, að stjórnin hefur lítið gert annað en að raða rýtingunum í bakið á þjóðinni sl. 4 ár.
Árni ætti frekar að byrja á því að biðja þjóðina afsökunar.
Pétur D. (IP-tala skráð) 29.4.2013 kl. 10:14
Ánri Páll er í miklum vanda. Tilvistarvandi hans er mikill þessa dagana. Hans málflutningur virðist oft á tíðum frekar einangra hann, rétt eins og hann hafi engan áhuga á því að starfa í ríkisstjórn.
Ef til vill hefur þingflokkur Samfylkingarinnar gert honum grein fyrir þvi að til þess hafi hann ekki umboð þeirra. Ef til vill er þingflokkurinn nú þegar farinn að bollaleggja um hver á að taka við af Árna. Það hefur verið ljóst lengi, að þingflokkurinn studdi ekki Árna.
Ef til vill þætti þeim besta að Katrín Júl. tæki við.
En nú er þegar byrjað að tala um að sameina þurfi Íslenska vinstrimenn. Fyrsta skrefið á þeirri vegferð verður þá líklega tilraun til þess að sameina Samfylkinguna.
G. Tómas Gunnarsson, 29.4.2013 kl. 14:47
rétt - þessir 2 geta gert það sem þeir vilja - ætti að vera óumdeilt
Rafn Guðmundsson, 29.4.2013 kl. 16:17
@Rafn. Engin ríkisstjórn hefur rétt til þess að "gera það sem þeir vilja", ég lít alla vegna svo á persónulega.
Ríkisstjórn þarf að gæta "meðalhófs" til þess að verða farsæl. Ég held að það megi segja um fráfarandi ríkisstjórn að hún hafi að hluta til hundsað það. Þess vegna var hún jafn rúin trausti og raun bar vitni í kosningunum.
Það sem stjórnmálamenn ættu að læra af þeirri ríkisstjórn sem nú víkur, er að hafa minna undir, gera það vel og horfa fram á veginn. Fráfarandi ríkisstjórn gerði akkúrat öfugt.
En meirihluti Alþingis veitir lýðræðislegt umboð. Við höfum oft deilt um EBS. Alþingi samþykkti umsókn með fully lýðræðislegu umboði. Alþingi getur líka samþykkt að draga hana til baka, með fullu lýðræðislegu umboði. Í mínum huga verður ekki um það deilt.
Hvaða meirilhluti Alþingis sem er hefur lýðræðislegt umboð, jafnvel þó að minnihluti atkvæða standi að baki honum. Meirihlutinn hefur sterkara umboð en minnihlutinn. Það segir sig sjálft.
G. Tómas Gunnarsson, 30.4.2013 kl. 02:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.