Þessi skoðanakönnun sýnir að niðurstöður kosninganna eru langt í frá augljósar eða ráðnar. Enn geta orðið á breytingar.
Stóru drættirnir liggja fyrir, en enn er svigrúm fyrir "varnarsigra", eða til að sækja fram úr "erfiðri stöðu".
Stærstu tíðindin í könnunni eru að mínu mati hve samanlagt fylgi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks minnkar. Ef ég man rétt er þetta fyrsta könnunin um all langt skeið sem sýnir fylgi þeirra samanlagt undir 50%.
Styrking Vinstri grænna er einnig athyglisverð. Það hafa ekki verið margar kannanir sem ég man eftir sem hafa sýnt VG stærri en Bjarta framtíð.
Persónulega tel ég að yrði þetta niðurstaðan hafi líkurnar á vinstri stjórn undir forystu Framsóknarflokks aukist verulega. B og D og svo aftur B, V og S, hafa því sem næst sama fylgi í prósentum og sama þingmannafjölda, þ.e.a.s 36.
Það gæti því verið verulega freistandi fyrir Framsóknarflokkinn að vera ótvíræður forystuflokkur í ríkisstjórn, þá líklega með 4. ráðherra gegn 2. hjá hinum flokkunum. Ég held að Framsókn muni lítast mun betur á að mynda stjórn til vinstri með VG, heldur en t.d. Bjartri framtíð. Þess vegna skiptir fylgisaukning VG miklu máli.
Bæði er það að Framsóknarflokki myndi líklega ekki hugnast að starfa í ríkisstjórn með 2. hreinum "Sambandsflokkum" og ég hygg að flokkurinn hafi sömuleiðis minni áhuga á því að leiða BF til áhrifa. Svo má ekki gleyma því að á milli ákveðinna hluta Framsóknarflokks og VG hefur alltaf legið "leyniþráður".
En það eru vissulega hlutir sem mæla með stjórn með Sjálfstæðisflokki fyrir Framsóknarflokkinn. 2ja flokka stjórn er traustari kostur og minni hætta á "undanhlaupum".
En það er ekkert sem sjáanlegt er sem getur komið í veg fyrir kosningasigur Framsóknarflokks. Það er eingöngu spurning um hvað stór hann verður. Það er heldur ekkert sjáanlegt sem getur komið í veg fyrir afhroð stjórnarflokkana, Samfylkingar og Vinstri grænna. En sama spurningin er þar, hvað verður það mikið?
Sjálfstæðisflokkurinn er langt í frá að ná þeim árangri sem hann vænti og vænst var af honum. Þó að hann hugsanlega vinni eitthvað á frá siðustu kosningum, er erfitt að líta framhjá því að ef úrslit verða eins og þessi könnun, jafngildir það tapi fyrir hann og að vera undir 25% jafngilcir afhroði.
Svo er það Björt framtíð og Píratar. Það verður að teljast góður árangur fyrir nýja flokka að koma mönnum á þing. Til þess er leikurinn gerður. Þó að BF hafi tapað miklu frá því að gengi þeirra var best í skoðanakönnunum, er árangur þeirra góður. Píratar hafa sömuleiðis allt að vinna.
Það verður svo fróðlegt að sjá fleiri kannanir sem vonandi koma á næstu dögum. Einhverra hluta vegna virðist gjarna vera meiri og stærri sveiflur í könnunum Fréttablaðsins/Stöðva2 en annara aðila. Það verður því fróðlegt að sjá hvort að aðrar kannanir sýni öðruvísi hreyfingar.
Fylgi stóru flokkanna minnkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Svona fara skoðanakannanir Vísis og Stöðvar 2 fram. http://neiesb.is/2013/04/spurningarnar-i-skodanakonnun-frettabladsins-og-stodvar2/
Jón Steinar Ragnarsson, 24.4.2013 kl. 15:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.