Fylgið enn á hreyfingu - það leitar "heim".

Ég held að það sé nokkuð ljóst að þó að fylgi Framsóknarflokksins í þessari könnun Fréttablaðsins/Stöðvar2, hafi lækkað verulega frá síðustu könnun sömu aðila, þá er ekkert sem bendir til annars en að flokkurinn vinni góðan sigur í komandi kosningum.

Það bendir þó ýmislegt til þess að sigurinn verði ekki jafn stór og leit út fyrir á tímabili.

Margir benda á að Framsókn sé ekki að tapa neinu fylgi, síðasta könnun Fréttablaðsins/Stöðvar2 hafi einfaldlega ekki verið rétt.  Þessi könnun sýni niðurstöður sem séu meira í takt við aðrar kannanir.

Nú verður að sjálfsögðu fróðlegt að sjá aðrar kannanir.  Það er alltaf meiri hætta á óvæntum niðurstöðum í "spotkönnunum", en könnunum sem teknar eru yfir lengra tímabil.  40% framsóknar komu þannig verulega á óvart, en Sjálfstæðisflokkurinn hafði mælst með 40% hjá sömu aðilum um miðjan janúar.

Það sem mér þykir þó benda til þess að könnunin hafi gefið nokkuð rétta mynd (auðvitað er engin ástæða til þess að útiloka einhverja skekkju), er að fylgi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er sameiginlega ekki verulega bólgið, borið saman við t.d. þessa nýjustu könnun.  Samanlagt fylgi þeirra er 57.9% í þessari könnun, en var 58.5% í könnuninni 5. apríl.

En hvers vegna er þá fylgið að færa sig svona á milli?  Hvers vegna leitar fylgið aftur til Sjálfstæðisflokksins?

Það eru að sjálfsögðu margar samhangandi ástæður.  Vissulega skiptir frábær frammistaða Bjarna Benediktssonar á RUV miklu máli, en auðvitar spilar fleira inn í.  Hugmyndir Framsóknarflokksins í skuldamálum heimilanna hefur fengið vaxandi gagnrýni úr öllum áttum, það er einna helst innan Samfylkingarinnar sem greina hefur mátt viðleitni í að taka undir með Framsókn.  Samhliða þessu hefur Framsóknarflokkurinn sýnt vinstri vangan í æ ríkari mæli.

Mér er það stórlega til efs að þeir kjósendur sem hafa verið að færa sig frá Sjálfstæðisflokki til Framsóknarflokks, hafi verið að gera það í þeirri von um að Framsóknarflokkurinn tryggði Íslendingum vinstri stjórn í 4. ár í viðbót.  Því sterkara sem Framsóknarflokkurinn sýnir vinstri vangann, því meiri líkur eru á því að þeir yfirgefi flokkinn þegar í kjörklefann er komið.

Það er sama tilhneygingin er að skila fylgi til Samfylkingar.  Þeir sem höfðu hug á því að kjósa Bjarta framtíð til þess að refsa Samfylkingunni, sjá að ef til vill er hún að fá harðari refsingu en þeir telja hana skilið. 

Þannig eru líkur á því að fylgi leiti "heim" á síðustu metrunum í kosningabaráttunni.  Margir sem hafa hugsanlega ætla að kjósa eitthvert af nýju framboðunum, sjá að þau eiga enga möguleika og ákveða frekar að nota atkvæði sitt þar sem þeir telja það hafa áhrif.

Allt vinnur þetta með "stabílíseruðu" flokkunum.

En enn eiga 6. flokkar góða möguleika á þingsætum.

Það er engin ástæða til annars en að ætla að Björt framtíð og Píratar nái mönnum á þing.  En ef stemmingin hjá þeim dettur niður þá daga sem eru fram að kosningum, gæti það brugðið til beggja vona.

Skoðanakannanir sem sýna fylgið stöðugt á niðurleið, blása fáum baráttuanda í brjóst.

En nú bíða allir spenntir eftir næstu könnun.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband