3.4.2013 | 17:37
Hvers vegna flytur fylgið sig? Borgar samheldnin sig? 2. hluti
Skoðanakannanir hafa sýnt að fylgi stjórnarflokkanna er í frjálsu falli. Slíku falli að helst minnir á afrek Baumgartners á síðasta ári.
Samfylkingin mælist nú með fylgi í kringum 13%. Það er langt fall frá þeim rétt tæpu 30% sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Yfir 60% af kjósendum flokksins hafa ákveðið að yfirgefa hann samkvæmt skoðanakönnunum.
Fyrir því eru auðvitað fjölmargar ástæður. Þær 3. sem ég tel skipta miklu máli eru óvinsæl ríkisstjórn, óvinsæll forsætisráðherra og Björt framtíð.
Það er sjaldnast vænlegt til vinsælda að sitja í ríkisstjórn (þó að það gefi vissulega tækifæri til skrifa kosningavixla), væntingar og kröfur kjósenda nútímans til hins opinbera eru svo stórar, margvíslegar og miklar að erfitt er að standa undir þeim.
Núverandi ríkisstjórn tók vissulega ekki við stjórnartaumum við ákjósanlegustu aðstæður, en það er í sjálfu sér aldrei afsökun fyrir því að valda vonbrigðum. Það þarf að lofa minna, ráðast í minna, en standa við og koma því í gegn sem lofað og ráðist er í. Í þessu fær Samfylkingin, sem forystuflokkur ríkisstjórnarinnar falleinkunn.
Fáir ef nokkrir Íslenskri stjórnmálamenn hafa glatað vinsældum og trausti jafnt hratt og Jóhanna Sigurðardóttir gerði á því kjörtímabili sem er að ljúka. Ef til vill má orða það svo að þegar tími "heilagrar" Jóhönnu loksins kom, varð henni ekkert heilagt.
Þegar hún varð forsætisráðherra þurfti ekki að fara eftir jafnréttislögum, hún talaði jafnvel um að það þyrfti að breyta þeim. Sem forsætisráðherra fannst henni ekki ástæða til þess að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó hafði hún oft talað um að auka veg þjóðaratkvæðagreiðsla.
Síðan má nefna mál eins og IceSave, stjórnarkrá, fiskveiðistjórnun, heilbrigðismál og Evrópusambandsaðild, þar sem ríkisstjórninni og Samfylkingu tókst að ergja bæði andstæðinga og stuðningsmenn og skilja málin að mörgu leyti í verra horfi en áður og hálfgerðu uppnámi. Skjaldborg er eitthað sem stuðningsmenn Samfylkingarinnar reyna að forðast að minnast á.
Jóhanna komst að því eins og fleiri í núverandi ríkisstjórn að það er auðveldara að vera sá sem gagnrýnir, en sá sem stjórnar.
Ekki er síðan hægt að líta fram hjá því að Björt framtíð er af flestum álitin nokkur konar klofningsframboð út úr Samfylkingu og þaðan virðiast flestir álíta að BF sæki mest af fylgi sínu. Það er nokkuð merkileg staðreynd, að flestir sem ég heyri í, líta mun frekar á Guðmdund Steingrímsson sem fyrrverandi félaga í Samfylkingunni, en Framsóknarflokknum.
Þannig fór því að Jóhanna skilaði Samfylkingunni af sér í á 12 og 13% þegar hún hætti sem formaður. Ástandið hefur lítið sem ekkert skánað eftir að Árni Páll Árnason tók við. Gallup sýnir flokkinn nú í 15%. Frekar má segja að það hafi versnað, því til viðbótar fylgistapinu hefur úlfúð og syndurlyndi einkennt flokkinn eftir að hann tók við.
Á meðan það ástand ríkir, held ég að það sé borin von að Samfylkingin nái að auka fylgið verulega.
Hugum þá að Vinstri grænum. Þau hafa misst nálægt 60% af sínum kjósendum. Flokkurinn hefur logað stafna á milli næstum því frá upphafi kjörtímabílsins. 4. af þingmönnum flokksins hafa yfirgefið hann.
Ef til vill eru samræður þeirra fyrrum félaga, Steingríms J. Sigfússonar og Atla Gíslasonar, í ræðustól Alþingis nú nýverið, táknræn og viðeigandi eftirmæli fyrir kjörtímabílið sem er að líða hvað varðar Vinstri græn.
Rétt eins og Jóhanna, komst Steingrímur og Vinstri græn að því að prinsippinn halda ekki þegar tekið er við valdataumunum. Steingrím mætti líklega kalla "plakatdreng" fyrir þær breytingar sem verða á stjórnmálamönnum á leiðinni úr stjórnarandstöðu, í stjórnarráðið.
Margir kjósendur upplifa eins og hann hafi breyst úr mælskum, prinsipföstum og heiðarlegum stjórnmálamanni í sjálfhælinn, tækifærissinnaðan hlaupadreng alþjóða auðvaldsins.
Til viðbótar þeim málum sem ég nefndi sem hefði ergt stuðningsmenn Samfylkingarinnar, s.s. IceSave, stjónarskrá, fiskveiðistjórnunm heilbrigðismál og Evrópusambandsaðild, má nefna mál eins og olíuleit, uppbygging stóriðju á Bakka, Lybíustríðið og samstarf við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, þegar skrifað er um mál sem hafa ergt stuðningsmenn Vinstri grænna. Eins og Samfylkingafólk, talar stuðningsfólk Vinstri grænna ekki um Skjaldborgina að fyrra bragði.
Þannig hafa ótalmörg mál tálgað fylgi af ríkistjórnarflokkunum og þó að vissulega megi færa rök fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir hafi staðið sig ágætlega í öðrum málum, þá einfaldlega skipta þau mál ekki eins miklu máli í hugum fólks, eða hitt að ríkisstjórnin hafi ekki náð að koma þeim málum nægilega á framfæri.
En það er ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki í hávegum hafðir á meðal kjósenda, og formannsskipti hafa ekki megnað að snúa þróuninni þeim í hag. Fyrrverandi formenn, Steingrímur J. og Jóhanna Sigurðardóttir höfðu einflaldlega komið fylgi flokkanna það langt niður, að erfitt er að snúa þeirri þróun við.
Núverandi ríkisstjórn er einfaldlega eins og myllusteinn um háls Samfylkingar og Vinstri grænna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.