1.4.2013 | 11:41
Menntið unga fólkið ykkar og sendið það til Þýskalands
Þjóðir Suður Evrópu sjá nú fram á að tapa best menntuðu kynslóðunum sem þær hafa nokkurn tíma eignast, til annara heimsálfa og til Norður Evrópu, sérstaklega þó Þýskalands.
Þannig fer fyrir þjóðum sem hafa tapað samkeppnishæfni sinni og lifa við fjárhagsleg vandræði og slikt fjöldaatvinnuleysi að leita verður aftur til "kreppunnar miklu" til samanburðar.
Oft er talað um "týndu kynslóðina", ungt fólk sem sér enga leið til að fá vinnu í heimalandinu og stjórnvöld bjóða aðeins upp á brostnar vonir og drauma.
Á eurotímabilinu hafa þessi lönd hægt og rólega glatað samkeppnishæfi sínu, samhliða því að bólur sem euroið kynnti undir hafa brostið. Vextir voru undir verðbólgu og lánsfé virtist vera endalaust. Kaupmáttur, sérstaklega á innfluttu góssi var sterkur, en innlend framleiðsla lét undan síga.
Þegar bólurnar bresta og við blasir atvinnuleys, sem nær um 60% þar sem það er hvað verst á meðal ungs fólks, er ekki óeðlilegt að verulegur landflótti bresti á.
Síðan eurorkrísan skall á hefur brottflutningur ungs fólks frá suður Evrópu aukist verulega, það þarf engan að undra. Unga fólkið flytur til Ástralíu, S-Ameríku og einnig í verulegum mæli til N-Evrópulanda. Reyndar er Þýskaland eina landið sem ég hef heyrt um sem hefur verið með skipulagðar herferðir í þeim tilgangi.
En er ekki gott að unga fólkið flytjist á brott og eigi möguleika á því að fá vinnu?
Jú, það er sannarlega gott, því annars hefði býsna margt af því enga möguleika til þess að fá starf við hæfi og nýta sér menntun sína.
En við verðum líka að horfa á aðrar hliðar.
Þetta breytir uppbyggingu þeirra þjóða sem þau yfirgefa. Flestar þjóðir Evrópu þurfa að horfast í augu við breytta aldurssamsetningu. Hlutfall þeirra eldri vex, en þeirra yngri minnkar. Þetta ójafnvægi eykst enn frekar þegar yngra fólkið flytur á brott. Nema auðvitað í þeim löndum þangað sem unga fólkið flytur, þar er þróunin jákvæð.
Þetta hefur svo aftur áhrif í möguleika til þess að halda uppi góðir heilbrigðisþjónustu og skerðir sömuleiðis tekjumöguleika þeirra ríkja sem þar sem, brottflutningur er mikill. Sérstaklega getur þetta haft alvarleg áhrif í þeim mörgu löndum, þar sem lífeyrissjóðakerfið byggist á gegnumstreymi.
Það sem síðan bætist svo við, er að "sáttin" í samfélögunum rofnar. Til dæmis heyri ég æ meira talað, í suður og austur Evrópu, um að menntun ætti ekki að vera kostuð af ríkinu, nema þá að sá sem nýtur menntunarinnar, gangist undir þá kvöð að vinna í heimalandinu ákveðin árafjölda (hvernig það gengi upp, við núverandi atvinnustig, er þó önnur saga.).
Rökin eru þá sú að ríki eins og t.d. Eistland, hafi engan hag af því að kosta menntun t.d. lækna og hjúkrunarfræðinga, ef þeir fara fljótlega eftir útskrift til starfa í Finnlandi, Noregi eða Þýskalandi.
Svipaðar atugasemdir eru farnar að heyrast frá S-Evrópu og ekki ólíklegt að þær eigi eftir að vera háværari.
Það er ekki til nein ein lausn við þessum vandamálum sem eru til staðar, það er ekki heldur hægt að taka neitt eitt út úr og benda á það sem einu orsök vandamálanna.
En fyrir lönd S-Evrópu er ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að þar hefur euroið spilað stórt hlutverk í því að þau hafa tapað samkeppnishæfni sinni.
Nú tala ýmsir um að ef hagkerfi landa eurosins séu reiknuð eftir eigin styrk, væri gjaldmiðill Þýskalands virði u.þ.b. 1.7 Bandaríkja dollara. Ríki S-Evrópu, s.s. Grikkland, Portúgal og Spánn (þó ef til vill sé ekki ástæða til að setja þau undir nákvæmlega sama hatt) væru með gjaldmiðil sem væri u.þ.b. virði u.þ.b. 90centa af þeim sama dollar.
Bílaframleiðendur í Frakklandi tala um að kostnaður þeirra sé í það minnsta 15% hærri en hinum megin við landamærin í Þýskalandi.
Þetta er ein af meginástæðum þess að Þýskaland telur sig þurfa 200 þúsund erlenda starfsmenn á ári, á meðan atvinnuleysi ungs fólks er í kringum 60% í löndum s.s. Grikklandi og Spáni.
Þetta er ein af meginástæðum að Þýskaland telur sig þurfa aðstoð "Sambandsins" til að hamla á móti "neikvæðum bylgjum" sem komi frá öðrum aðildarlöndum "Sambandsins"
Vilja erlenda lækna og verkfræðinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 13:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.