22.3.2013 | 11:59
Athygliverðar hugmyndir um sæstreng, en ....
Það er ekki hægt að neita því að hugmyndir um að leggja sæstreng fyrir raforkusölu frá Íslandi til meginlands Evrópu, eða þá Bretlands eru athygliverðar.
Það væri vissulega góð búbót fyrir Íslenskan efnahag ef hægt væri að selja umtalsvert magn raforku á háu verði til útlanda.
En auðvitað hlýtur kostnaðurinn við að leggja slíkan streng að vera mikill. Tekjurnar þurfa því að vera háar og það sem meira er, nokkuð öruggar.
Það skiptir því verulega miklu máli hvernig hægt er að sjá orkumarkaðinn í Evrópu þróast.
Nú ætla ég mér ekki að spá fyrir um hvernig orkuverð kemur til með að þróast í Evrópu næstu áratugina. En orkuverð hefur verið mikið til umræðu á undanförnum misserum, ekki hvað síst hvað mikill munur sé að verða á orkuverði í N-Ameríku og Evrópu og Asíu.
Talað er um að gasverð í N-Ameríku sé u.þ.b. 30 til 40% af gasverði í Evrópu. Þetta hefur veikt samkeppnisstöðu margra Evrópskra fyrirtækja gagnvart keppinautum í N-Ameríku, og hefur einnig spilað stórt hlutverk í ákvörðun ýmissa Bandarískra fyrirtækja í að flytja hluta eða alla framleiðsu sína á heimaslóðir.
En getur ákvörðun um lagningu sæstrengs byggt á þeirri sýn að stjórnvöld í Evrópu muni ekki eða geti ekki gert neitt til þess að lækka orkukostnað Evrópskra fyrirtækja og heimila til jafns, eða í námunda við það sem gerist í N-Ameríku?
Hvað mætti orkuverð í Evrópu lækka mikið án þess að sala á Íslensku rafmagni yrði óhagstæð?
Síðan má líka ræða um hvort ekki sé hagstæðara til lengri tíma að leita frekar að leiðum til að nýta orkuna innanland, eða jafnvel umbreyta henni í hentugra geymsluform, en það er önnur saga.
En þó að sjálfsagt sé að skoða möguleika á raforkusölu um sæstreng, þá held ég að rétt sé að fyllast ekki of mikilli bjartsýni yfir þeim möguleikum. Ég held í það minnsta að það sé það áhættusamt að Íslendingar þurfi að velta því vel fyrir sér, áður en slík áhætta yrði tekin af opinberum aðilum.
Aukið orkuöryggi með sæstreng | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.