18.3.2013 | 12:40
Óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin falli í vor
Ég held að það sé óhjákvæmilegt að núverandi ríkisstjórn falli í vor. Tæknilega séð er auðvitað allt hægt, en kraftaverk eins það sem þyrfti til að vinstristjórnin haldi velli gerast ekki nema með einhverra alda millibili.
Ein af mörgum ástæðum þess að ríkisstjórnin mun falla, og það jafn rækilega og líklegast er, er áherslan ríkisstjórnar Samfyllkingar og Vinsri grænna á að gana í "Sambandið".
Töfralausnin sem Samfylkingin boðaði með "Sambandsumsókn" og boðar enn hefur ekki trúverðugleika og nýtur aðild að "Sambandinu" einungis fylgis 25% kjósenda, samkvæmt nýlegum skoðanakönnunum.
Auðvitað er það langt í frá óhjákvæmilegt að Ísland gangi í "Sambandið", eins og staðan er í dag er það reyndar frekar ólíklegt.
Staðan sést ef til vill ekki síst á þeirri staðreynd að viðræðurnar hafa nú staðið yfir á fjórða ár, og ekkert verulega fréttnæmt gerst. Í raun hefur málinu miðað lítið áfram. Hvorki ríkisstjórnin eða ESB, hafa enda áhuga á því að leggja samning fyrir þjóðina þegar allt bendir til þess að samningur verði kolfelldur.
Allt bendir til þess að stuðningur við aðild að "Sambandinu" minnki á Alþingi á komandi kjörtímabili, líklega nær því hlutfalli sem andstaðan nær hjá kjósendum (samkvæmt skoðanakönnunum).
Það þarf heldur ekki nema að lesa fréttir til að gera sér grein fyrir því að það er ekkert óhjákvæmilegt að Ísland gangi í "Sambandið".
P.S. Það er að verða nokkkuð merkileg þessi viðtöl sem birtast á Bloomberg við Samfylkingarráðherrana. Þar fá þau að tala eins og löggiltir handhafar sannleikans fréttin skrifuð eins og þjóðin standi einhuga að baki umsókninni.
Flestir vita auðvitað að það er langt í frá að vera raunveruleikinn. En Bloomberg virðist frekar leggja áherslu á að miðla hugarheimi Samfylkingarráðherra til lesenda sinna. Það finnst mér nokkuð merkilegt.
Óhjákvæmilegt að ganga í ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
http://jaisland.is/umraedan/ny-konnun-61-vill-klara-adildarvidraedur-vid-esb/#.UUd2rpIQ5Qo
Kristján G. Arngrímsson, 18.3.2013 kl. 20:19
Þetta er vissulega nokkuð athygliverð könnun. Tímasetningin vel valin svona á milli þinga SA og SI og undir því fjölmiðlablitzi sem JÁ hreyfingin bjó til á því tímabili.
Það er enda svo að æ færri vilja kannast við að vera Evrópusambandssinnar, þeir eru bara "aðildarviðræðusinnar" nú á dögum. En það er rétt að það eru margir sem trúa á "kíkja í pakkann" kenninguna.
Og það er vissulega rétt, að þó að rangt hafi verið að hefja viðræður án þjóðaratkvæðagreiðslu, eru ýmis rök fyrir því að klára viðræðurnar, fyrst að þær voru hafnar.
Ekki hvað síst að með því mætti ef til vill "kveða málið niður", alla vegna um nokkra hríð.
En það sem mælir hvað sterkast á móti því, er hve illa hefur verið haldið á viðræðunum hingað til. Hvað eiga viðræður að taka langan tíma? Hvað eru Íslenskir kjósendur reiðubúnir til að bíða lengi eftir því að fá að sjá hvað er í pakkanum? Hvers vegna eru viðræður búnar að standa í u.þ.b. 3 ár og ekkert markvert hefur í raun gerst? Hvers vegna eru viðræður ekki einu sinni hafnar í mikilvægustu köflunum, þ.e. sjávarútvegs og landbúnaðar?
Stutta svarið við því er að þessi gangur viðræðna hefur hentað "Sambandinu", Samfylkingu og Vinstri grænum.
Það hefur ekki verið neinn áhugi á því að setja málið í þjóðaratkvæði, á meðan yfirgnæfandi meirihluti Íslenskra kjósenda er þeirrar skoðunar að þeir vilji ekki ganga í "Sambandið".
Á meðan eru viðræðurnar dregnar á langinn og vonast til að áróður"Sambandssinna" og hve viljugt "Sambandið" er með fé, fari nú að skila sér.
Þess utan má velta fyrir sér þeirri spurningu, hvers vegna eru "Sambandssinnar" svo öruggir með að það náist yfirleitt samningur?
Er það vegna þess að þeirra eina markmið með viðræðunum er að ná samningi?
Vegna þess að af Íslands hálfu er passað upp á að setja ekki fram nein þau skilyrði, eða kröfur sem gætu hindrað að samningur náist?
Ef til verður enginn "pakki til að kíkja í"?
En spurningin er hvað myndir þú vilja gefa þessi aðlögunarferli langan tíma Kristján?
Hvað myndu Íslenskir kjósendur vilja gefa þessu langan tíma?
Allt bendir til þess að andstæðingar "Sambandsaðildar" verði í vænum meirihluta á Alþingi, á komandi kjörtímabili.
Þá liggur beinast við að Alþingi geti slitið viðræðunum (með nákvæmlega sama lýðræðislega umboðinu og Alþingi hóf þær) eða að framhaldið gæti verið sett í þjóðaratkvæði.
Annar kostur gæti verið að setja viðræðum ströng tímamörk, og slíta þeim hafi þær ekki borið árangur innan þeirra.
G. Tómas Gunnarsson, 19.3.2013 kl. 07:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.