12.3.2013 | 13:48
Verður eurokrísan að pólítískri kreppu?
Flestir kannast líklega við eurokrísuna sem nefnd var höfuðið á sameiginlegum gjaldmiðli margra Evrópusambandsþjóða.
All oft hefur því verið lýst yfir að hún hafi verið kveðin niður, en jafnoft hefur hún skotið upp kollinum á nýjan leik, eða haldið áfram óáreitt.
Með býsna vel heppnuðum aðgerðum Seðlabanka Evrópu á síðasta ári, tókst að koma í veg fyrir að allt færi úr böndunum, en þó eru flestir sammála að vandamálin eru enn til staðar, en aukin tími og svigrúm séu til að leita lausna.
En krísan hefur ekki verið kveðin niður, eins og sést á sívaxandi atvinnuleysi og að æ fleiri ríki dragast inn á hættusvæðið, s.s. Kýpur og Frakkland.
En nú sjást merki um að kreppan sé að færast í vaxandi mæli yfir í hinn pólítíska veruleika "Sambandsins".
Skýrasta dæmið um það eru auvitað úrslit í Ítölsku þingkosningunum nýlega. Ítalir gáfu (Super) Mario Monti, sem hafði verið skipaður forsætisráðherra að kröfu "Sambandsins", háðulega útreið í kosningunum.
Sigurvegari þeirra var tvímælalaust 5 stjörnu hreyfingin (M5S) undir forystu Beppo Grillo. Bandalög þeirra Bersanis og Berlusconis, voru í raun hnífjöfn, þó að sjónarmunur skyldi að og Bersani hlyti þannig meirihluta í neðri deildinni.
Meirihluti Ítalskra kjósenda greiddi atkvæði með stjórnmálaflokkum sem hafa lýst efasemdum í garð eurosins og Evrópusambandsins.
Risavaxin mótmæli voru 2. mars í Portúgal. Talið er að ríflega milljón manns hafi verið í mótmælunum. Þetta eru einhver stærstu mótmæli í landinu frá því að Portúgalir voru að brjótast undan herforingjastjórn, og sumir sömu söngvana voru sungnir.
Í Þýskalandi er nýstofnaður stjórnmálaflokkur með það á stefnuskránni að Þýskaland fari úr eurosamstarfinu og vaxandi óánægja er með gjaldmiðilinn og "Sambandið" sjálft.
Margir hafa sjálfsagt heyrt af og muna eftir "Sönnum finnum", sem unnu umtalsverðan kosningasigur fyrir ekki alls svo löngu.
Flesti þekkja hvernig málin hafa þróast í Bretlandi, þar sýna skoðanakannanir meirihluta fyrir úrsögn landsins úr Evrópusambandinu. Sömuleiðis ættu líklega flestir að hafa heyrt hvernig ástandið er á Spáni og Grikklandi og hvernig atvinnuleysistölur eru þaðan.
Íbúar í löndum "Sambandsins", upplifa í vaxandi mæli "Sambandið" sem erlent vald (sem það vissulega er að hluta til), sem þröngvi upp á þá lögum og reglugerðum og standi fyrir þvinguðum niðurskurði. Ásakanir um að "Sambandið" verndi banka og fyrirtæki en láti almenning sitja á (atvinnuleysis)hakanum heyrast æ oftar og verða háværari.
Talað er um "týndu kynslóðina" í S-Evrópu, unga fólkið sem ekki fær vinnu og á á litla sem enga möguleika til þess í heimalandinu. Þjóðverjar ræða hins vegar um hvernig þeir eigi að taka á móti þessu unga fólki og halda í það.
Þannig skiptist Evrópusambandið í æ ríkari mæli í "tvo póla". Euroið hefur gjörbreytt samkeppnisstöðu þjóða innan "Sambandsins", og því eru þjóðirnar í "Suðri" að missa úr landi best menntuðu kynslóðirnar sem þær hafa eignast.
Þess vegna fer stuðningur við Evrópusambandið víða minnkandi. Íbúar innan ríkja "Sambandsins" bera á minna traust til þess. Þeir trúa ekki lengur að hin "pólítíska elíta" í Brussel, sé að vinna í þeirra þágu.
Nú bíða allir eftir kosningum í Þýskalandi í haust. Verður skipt um kanslara og þann sem ræður "de facto" ferðinni í "Sambandinu"? Samþykkir Merkel fjárhagsaðstoð fyrir Kýpur fyrir kosningar? Eða verður Kýpur látið "gossa", vegna þess að það er svo lítið ríki, að það þarf ekki að bjarga því, eins og haft hefur verið eftir sumum Þýskum stjórnmálamönnum.
Ég skora á Íslenska kjósendur að hafa aðildarviðræður við Evrópusambandið ofarlega í huga sér þegar þeir ganga inn í kjörklefann í vor. Og afstöðu Íslensku stjórnmálaflokkanna til þeirra.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Ég held nú að þetta sé nú löngu orðið að pólitískri kreppu og mun hún örugglega fara harðnandi á nk. misserum.
Flowell (IP-tala skráð) 12.3.2013 kl. 22:30
Ég veit ekki hvort rétt er að segja að hin pólítíska kreppa sé byrjuð. Líklega má finna rök bæði með og móti því.
En ég er sammála því að líklega fer að þyngjast róðurinn á næstu mánuðum. Sumarið gæti orðið "heitt" í fleiri en einum skilningi.
Heitir dagar og mikið og vaxandi atvinnuleysi getur verið eldfim blanda.
Síða er það auðvitað spurningin hvernig spilast úr hlutum í aðdraganda kosninga í Þýskalandi.
Stóra spurningin er svo auðvitað hvort að einhver stefnubreyting muni eiga sér stað, eða hvort mantran um "meira Samband" verði þulin af sama ákafa og hingað til?
G. Tómas Gunnarsson, 12.3.2013 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.