1.3.2013 | 14:54
3. þingmenn sem greiddu atkvæði um bjórinn enn á þingi
Ef ég man rétt, eru enn á Alþingi 3. þingmenn sem greiddu atkvæði um bjórfrumvarpið svokallaða árið 1988.
Þeir eru: Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra sem sagði já. Steingrímur J. Sigfússon, núverand allsherjarráðherra, sem sagði Nei. Og Einar Kr. Guðfinnsson, sem sagði já. Ef ég man rétt sat hann sem varaþingmaður er atkvæðagreiðslan fór fram.
Atkvæði skiptust á já og nei, algerlega óháð stjórnmálaskoðunum, fyrir utan ef mig misminnir ekki að allir þingmenn Alþýðubandalagsins sáluga sögðu nei.
Merkilegt nokk, held ég að allir ráðherrar núverandi (og Árni Páll, núverandi formaður Samfylkingarinnar) ríkisstjórnar, að Jóhönnu Sigurðardóttur undanskilinni, hafi hafið pólítísk afskipti sín í því sama Alþýðubandalagi.
Bjóða þingmönnum einn ískaldan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Saga | Facebook
Athugasemdir
dapurt hvað margir sögðu nei þarna. en þetta er t.d. ein af ástæðunum fyrir því að ég vil kíkja í esb pakkann. ég vil ekki 'yfirmenn' í litlu skrítnu samfélagi geti sagt mér hvað ég má og hvað ég má ekki.
Rafn Guðmundsson, 1.3.2013 kl. 17:15
Þú vilt sem sagt ekki vera í ríkjabandalagi eins og ESB, sem bannar t.d. snus?
Svíþjóð er að ég best man eina ríkið sem er á undanþágu til þess að selja snus. Það sem meira er, það er sífellt verið að hóta þeim að sú undanþága verði dregin til baka.
Nákvæmlega sama forræðishyggjan er við lýði á Íslandi, hvað varðar snusið.
"Sambandið" er langt frá því þekkt fyrir að vera sérstaklega "liberal" eða að vera andsnúið boðum og bönnum.
Hitt er svo að Ísland var auðvitað ótrúlega "súrt" þjóðfélag lengi vel. Það versta er að því miður hefur framþróunin ekki verið sem skyldi undanfarin ár.
En "Sambandið" er ekki saman sem merki við frjálslyndi, né merki um sérstakt frjálslyndi að vilja ganga í "Sambandið":
G. Tómas Gunnarsson, 1.3.2013 kl. 17:59
auðvitað á að leyfa snus - esb er ekki gallalaust og ekki fyrir alla.
Rafn Guðmundsson, 1.3.2013 kl. 18:21
Persónulega myndi ég telja líklegra að snus yrði leyft á Íslandi, en í "Sambandinu". Þó myndi ég telja líklegast að bannið myndi halda á báðum stöðum.
Forsjárhyggjan er sterk.
En þú hefur rétt fyrir þér að ESB er ekki gallalaust, það er Ísland ekki heldur. Reyndar veit ég ekk um neitt land sem á því láni að fagna.
Þú hefur líka rétt fyrir þér að ESB er ekki fyrir alla, hentar ekki öllum. Mín skoðun er sú að Ísland sé þar á meðal.
Persónulega myndi ég telja það mun auðveldara verkefni að færa Ísland í frjálsræðisátt, heldur en "Sambandið".
P.S. Þó að mér þyki snus hreint út sagt ógeðfellt, þá er ég hjartanlega sammála þér, auðvitað á að leyfa það. Ég hef einfaldlega engan áhuga á því að skipta mér af "löstum" annara.
G. Tómas Gunnarsson, 2.3.2013 kl. 15:30
Ekkert ESB-land kemst með tærnar þar sem Ísland hefur hælana í forræðishyggju. Ekki einu sinni í fyrrum austantjaldslöndunum, sem nú eru flest fullgildir ESB-aðilar, hefði mönnum dottið í hug að banna bjór. Í samstarfi Evrópuríkja rekast á ýmsir hagsmunir, sumir eru vinstri- aðrir hægrisinnaðir, sumir frjálslyndir, aðrir verndarsinnar. Útkoman er málamiðlun sem aldrei getur orðið öllum til hæfis. Grunnhugmynd samstarfsins gengur reyndar út á að auðvelda alla verslun, þjónustu og önnur samskipti þvert á landamæri. Til þess eru alls konar reglugerðir samræmdar, mörgum til ama, en þó þjónar það þeim tilgangi að tæknihindranir standi ekki í vegi fyrir viðskiptum. Þannig geta ferðamenn flutt með sér nánast ótakmarkað magn af varningi, þ.á.m. áfengi milli aðildarríkja án vandræða eða aukakostnaðar. Núna hafa vitringarnir 63 sem hafa vit fyrir okkur hinum komið því svo fyrir að ein ómerkileg vínflaska sem yrði seld á eina til tvær evrur í Frakklandi, á Spáni, Ítalíu eða Þýskalandi er höfð til sölu hér í ríkiseinokunarbúlu á tíu til fimmtán evrur. Mismunurinn eru ofurtollar, ofurskattar, vörugjöld, áfengisgjald og guð veit hvað fleira. Þessi ólög gætu aldrei staðist ef hver íslenskur túristi má taka með sér 99 flöskur á meginlandsverði tollfrjálst (hvernig sem menn ætla svo að skrönglast með þetta allt í farangri)! Þá gæti ég líka tekið með alvöru ógerilsneidda franska osta, (án umsóknar til þriggja ráðuneyta eins og nú er). Innfluttir ostar myndu heldur ekki bera 1000% toll. Næstum öll aðlögun Íslands að Evrópusambandinu (já, ég segi aðlögun!) yrði í frjálsræðisátt. Forræðishyggjan er heimatilbúin eða hermd eftir því versta sem menn geta fundið í Noregi eða í öðrum skandinavískum próvinsum. Þeir geta þó frekar leyft sér sérviskuna en við, Norðmenn eru forríkir og geta auk þess bara skroppið yfir landamærin yfir í frelsið í nágrannaríkjunum.
Sæmundur G. Halldórsson , 2.3.2013 kl. 19:22
Það er alveg rétt að forræðishyggjan á Íslandi er skelfilega sterk. Það sem verra er, að undanfarin ár hefur hún stefnt í ranga átt, eftir að hafa þó mjakast niður á við all nokkur ár þar á undan. Þó ekki á öllum sviðum.
En fyrst þú gerir svo mikið fyrirkomulagi á áfengissölu, þá er það eitt af því sem virðist hafa verið hvað auðveldast fyrir aðildarríki að fá frestun á.
Munurinn á áfengissölufyrirkomulagi á Íslandi og í Finnlandi, er bitamunur en ekki fjár. Svipað gildir um Svíþjóð, þó að ég þekki ekki jafn vel til þar.
Auðvitað má segja að þar komi "Sambandið" til hjálpar, vegna þess að þar er hægt að fara yfir til Eistlands og Danmerkur. Landfræðilega kemur það Íslendingum takmarkað til hjálpar, þó að vissulega sé Norræna til staðar.
Hins vegar er það svo að ég er bjartsýnni á að það takist að breyta á Íslandi, heldur en það takist að breyta verulega um stefnu í "Sambandinu".
Kjósendur virðast hins vegar hafa takmarkaðan áhuga á því. Það virðist vera því sem næst þegjandi samkomulag á milli bæði pólítíkusa og kjósenda, að meðan að næstum allir fá ofurlitla sporslu fyrir "sitt áhugamál", þá megi heildin éta það sem úti frýs.
Það sem breytist við "Sambandsaðild" er næstum allt hlutir sem hægt er að breyta með innlendum aðgerðum, ef kjósendur þrýsta nægilega á þar um.
Pólítska rétthugsunin vex hinsvegar með ógnarhraða innan "Sambandsins" og eins og áður sagði, er ég bjartsýnni á að þróuninni megi snúa við í smærri einingum, en stærri.
G. Tómas Gunnarsson, 2.3.2013 kl. 20:14
"Small is beautiful", vissulega. En nú vill svo til að við fluttum inn lúterskt harðlífi fyrir bráðum 500 árum og leitum helst fyrirmynda í löndum sem hafa sögulega orðið sama púritanisma að bráð. Í ESB eru þvert á móti lönd samankomin sem hafa gjörólíka arfleið, kaþólska, lúterska, grísk-orþódoxa eða annað. Þetta er meðal þess sem gerir Evrópu svo spennandi. Ég nefndi fyrirkomulag áfengismála, sölumál og geggjaða skattlagningu, vegna þess annars vegar að þú fjallar sjálfur um hið séríslenska bjórbann sem stóð í 70 ár (og féll sama ár og Berlínarmúrinn), hins vegar af því að þar kristallast allt það versta í forræðishyggju, púritanisma og tabúíseringu. "Það sem breytist við "Sambandsaðild" er næstum allt hlutir sem hægt er að breyta með innlendum aðgerðum, ef kjósendur þrýsta nægilega á þar um", segir þú réttilega. Meinið er að það er enginn þrýstingur í þessa veru. Á þingi viðgengst gróf mismunun á vægi atkvæða, íhaldssamri landsbyggð í hag. Flokkapotið sér um restina. Erfitt er að hugsa sér almenna hreyfingu um að fá þessum málum breytt þar sem menn óttast um orðspor sitt. Málefnið er viðkvæmt. Það er því mun auðveldara að mæla fyrir banni og ofursköttum á slíkum sviðum en fyrir frjálsræði. Varðandi áfengismál í Skandinavíu er það rétt að hægt er að fá undanþágu vegna "heilbrigðismála". Þannig er enn ríkiseinkasala í Svíþjóð og Finnlandi (Systembolaget og Alka). Þeir þurftu hins vegar að snarlækka tolla og leyfa tollfrjálsa heimsendingu á þessari vöru auk gífurlegs tollfrjáls kvóta fyrir ferðamenn (aðlögunarfresturinn er útrunninn að ég best veit).
Á mörgum öðrum sviðum er ekki að sjá að Íslendingar hafi náð betri árangri en ESB-lönd. Þannig hafa næstum allar framfarir í neytendavernd, öryggismálum á vinnustöðum og umhverfisvernd komið í gegnum EES-samninginn án nokkurrar aðkomu íslenskra ráðamanna. Við höfum náð betri árangri í verndun fiskimiða en nú er ekki annað að sjá en að ESB sé einmitt að taka íslenska kerfið sem fyrirmynd við endurskoðun sameiginlegu fiskveiðistefnunnar, þrátt fyrir andstöðu hagsmunaaðila. Ég held einmitt að við gætum komið sterkt inn á mörgum sviðum og haft áhrif þar sem við höfum eitthvað áhugavert fram að færa. Mér finnst ESB-andstæðingar oft frekar ala á vanmáttarkennd en hitt (við erum svo fá og smá, við hefðum engin áhrif o.s.frv.). Berum höfuðið hátt, burt með vanmetakennd, afdalamennsku og forræðishyggju!
Sæmundur G. Halldórsson , 2.3.2013 kl. 21:03
Það er ekki eins og atkvæðavægi breytist sjálfkrafa við "Sambandsaðild". Það þarf ekki nema að skoða t.d. kosningakerfi á Ítalíu og Bretlandi til að sjá að þó að Íslenska kerfið sé langt í frá fullkomið, er það langt í frá eftirbátur annara kosningakerfa innan "Sambandsins", nema síður sé.
Persónulega sé ég ekki hið gríðarlega frjálsræði sem ríkir innan "Sambandsins". Vissulega er verslun með landbúnaðarafurðir (áfengi þar á meðal) frjálsari en á Íslandi.
En allir fyrirtækjaeigendur sem ég þekki innan "Sambandins" kvarta undan sístækkandi reglugerðarbákni, sí kostnaðaraukandi eftirlitsgjöldum (sem dugar samt sem áður svo skammt eins og dæmin sanna) og þar fram eftir götunum.
Það er kerfi sem kemur stærstu fyrirtækjunum fyrst og fremst til góða, því kostnaðurinn leggst hlutfallslega mun þyngra á smærri fyrirtæki.
Þess má auðvitað að nokkru marki sjá í efnahgslífi "Sambandsins", sem er ekki í sérstökum blóma.
Frá þeim stað sem ég horfi á veröldina þá sé ég "Sambandið" ekki færast í frjálsræðisátt, sé litið á heildina. Raddir um aukið frjálsræði þar eru ekki háværar, þvert á móti. Að sjálfsögðu kemur varla þrýstingur frá Íslandi í þá átt, enda þrýstingur í þá átt varla fyrir hendi innanlands.
P.S. Þú segir að það sé engin þrýstingur á að færa Ísland frekar í frjálsræðisátt. Hvers vegna skyldi það vera?
G. Tómas Gunnarsson, 3.3.2013 kl. 07:40
Ef Bretar og Norður-Evrópuþjóðirnar beittu sér meira innan ESB fyrir breytingum í frjálsræðisátt hefði það áhrif. Samkvæmt Parkinsonlögmálinu verða stofnanir og fyrirtæki þunglammalegri eftir því sem þær stækka.
Það má þó líka líta svo á að það sé einfaldara að sinna viðskiptum á markaði þar sem gildir ein regla fyrir allt svæðið frekar en 30 mismunandi reglur (sem svo þyrfti að láta þýða o.fl.).
Íslandi hefur í heila öld verið stjórnað af ýmsum sérhagsmunaöflum sem byggjast á flokkatengslum, venslum eða landshlutahagsmunum. Oft er hagsmunabarátta algerlega réttlætanleg, í öðrum tilvikum er um að ræða klíkuskap og valdamisbeitingu.
Í ágætri fræðigrein útskýrði Gunnar Helgi Kristinsson íslensk stjórnmál sem sambland af klíentilisma og nepótisma. Við bætist að allar ríkisstjórnir eru samsteypustjórnir og öll þeirra stjórn því málamiðlun.
Framsókn hefur næstum alltaf verið í stjórn og einokun, stórfelldar niðurgreiðslur á kostnað neytenda og haftastefna í landbúnaðarmálum hefur því verið stefna allra stjórna hérlendis.
Í orði kveðnu hefur Sjálfstæðisflokkurinn haft á stefnuskrá að auka frelsi á öllum sviðum, en í reynd var aldrei hróflað við því sem dregur mest úr frelsi einstaklinga og neytenda hér á landi samanborið við nágrannalönd. Flokkurinn er einmitt ekki "libertarian" heldur sérhagsmunabandalag. Ef honum tekst að halda völdum með eftirgjöf við afturhaldsöfl í Framsókn (eða eigin flokki) hikar hann ekki við það.
VG stefnir að forsjárhyggju á öllum sviðum og í samkrulli við J.S. náði hann yfirtökum í núverandi ríkisstjórn. Árna Páli var jú sparkað úr stjórninni. Ef frjálslyndir jafnaðarmenn ná vopnum sínum gæti orðið breyting. Sama myndi gilda um raunverulegan Frjálslyndan hægri flokk (sem ekki er til hér).
Sæmundur G. Halldórsson , 3.3.2013 kl. 20:58
Evrópusambandið er nú þegar orðið of stórt. Eitt mesta vandamál þess er að í einhverskonar útgáfu af valdagræðgi byrjaði það að hleypa inn ríkjum, sem í raun og veru var enginn grundvöllur fyrir því að hleypa inn.
Það sama má segja um euroið. Það er einfaldlega dæmi sem gengur ekki upp og var endanlega eyðilagt (raunar strax í upphafi) með því að taka inn í það samstarf ríki sem eru ekki þess umkomin að vera í slíku samstarfi.
Þetta kemur ef til vill ekki síst til af því að æ meiri áhersla hefur verið lögð á pólítísku hliðina, á kostnað þeirra efnahagslegu. Það sést ef til bill hvað best í þeirri stöðu að þó að pólítíska staðan innan "Sambandsins" sé ekki of góð, þá er hún hrein hátíð miðað við þá efnahagslegu.
Evrópusambandinu hefur í áratugi verið stjórna af ýmsum sérhagsmunaöflum sem byggjast á flokkatengslum, venslum og lanshlutahagsmunum. Oft er hagsmunabarátta algerlega réttlætanleg, í öðrum tilvikum er um að ræða klíkuskap og valdamisbeitingu. (hér tók ég texta þinn og skipti út Íslandi fyrir Evrópusambandið. Það er nefnilega bitamunur en ekki fjár í þar á milli hvað varðar valdamisnotkun, hrossakaup og klíkuskap. Gott dæmi er þessi frétt hér. )
Frjálslynda jafnaðarmenn hef ég einfaldlega ekki rekist á lengi og tel Árna Pál Árnason ekki á meðal þeirra.
Einstaklingur sem finnst t.d. ekkert mál að aftengja lýðræðislegan rétt hluthafa í hlutafélögum, til þess að kjósa sér lýðræðislega stjórn, tel ég ekki "frjálslyndan".
Það er alveg rétt að bæði Framsóknarflokkur og VG hafa verið gríðarlega afturhaldssamir flokkar. Mér sýnist þó Framsókn hafa hnikast í frjálsræðisátt með miklum mannabreytingum.
Sjálfstæðisflokkurinn er auðvitað engin frjálshyggjuflokkur, þó að hann hljómi stundum þannig til samanburðar við hina flokkana. Hann er fyrst og fremst kristilegur íhaldsflokkur.
Samfylkingin er núna fyrst og fremst stjórnlyndur týpískur vinstriflokkur. Þar er samsafn af stjórnamálamönnum sem "vita betur" og telja sig þess umkomna að ákveða fyrir einstaklingana hvernig best sé að þeir lifi lífii sínu. Það að vilja auka innflutning á landbúnaðarvörum, er ekki nóg til að teljast "frjálslyndir":
G. Tómas Gunnarsson, 4.3.2013 kl. 12:44
Takk fyrir skemmtilegar umræður. Í raun erum við að mestu leyti sammála, nema hvað varðar Evrópusambandið. Klíkuskap finnur maður auðvitað alls staðar, í ESB eins og annars staðar. Ef spilling er útbreidd í einhverju aðildarríki færist hún sjálfkrafa upp á stig sambandsins. En hún verður þó aldrei almenn eins og hún getur verið í einhverju einstöku landi (t.d. Búlgaríu eða Suður-Ítalíu).
Til að svo geti orðið ríkir of mikill fjölbreytileiki milli gerenda, hagsmunaaðila og stjórnmálahreyfinga á evrópsku plani, þar á meðal í menningu og tungumáli. Ekkert ríki getur gengið í ESB nema að sýna fram á styrkleika lýðræðisstofnana, dómstóla og efnahags og trúverðuga baráttu gegn spillingu (Kaupmannahafnaviðmiðin). Þar sem á skortir þó ríki hafi verið hleypt inn er bremsað þar sem hægt er, (Búlgaríu og Rúmeníu hefur þannig enn ekki verið hleypt inn í Schengen).
Ef ríki er komið inn er þetta þó erfitt, þar sem ESB sér ekki sjálft um eftirlit nema að litlu leyti. Það treystir á aðildarríkin. Ef þau eru ekki traustsins verð er illt í efni. Þess vegna telja margir í Norður-Evrópu eins og þú segir að of mörgum löndum hafi verið hleypt inn. Það var trúlega mest gert til að tryggja öryggi og stöðugleika í Austur- og Suður-Evrópu, (sem sparar m.a. gífurlegar fjárhæðir í hervæðingu). Þegar Grikkland var tekið inn var mikil rómantík í spilum, (vagga evrópskrar menningar).
Minna má á að heil framkvæmdastjórn var látin fjúka þegar kom upp eitt spillingarmál innan hennar, (Santer-stjórnin vegna Edith Cresson). Að vensl (ættartengsl) skipti miklu máli á toppnum í Brüssel á ég bágt með að trúa. Það skiptir máli innan einstakra ríkja, því meir sem þau eru fámennari.
Við erum alveg sammála um skort á raunverulega frjálslyndum stjórnmálaöflum hérlendis, sama hvernig frjálslyndi er skilgreint.
Sæmundur G. Halldórsson , 4.3.2013 kl. 22:08
Ættartengsl eru líklega ekki svo algeng á toppnum, en þó skipta þau meira máli en marga grunar, sérstaklega þegar um útdeilingu fés er að ræða.
En það skiptir ekki máli hvers eðlis tengslin eru, tengsl og misnotkun í þágu þeirra er alls staðar og ekki líklegt að slíkt heyri sögunni til.
Hrossakaup hafa náð nýjum hæðum innan "Sambandsins", enda potturinn stærri sem hægt er að sjóða þau í.
En ég er ekki á móti "Sambandinu" per se. Ég er hins vegar á móti þeirri stefnu sem það hefur tekið og ég tel það ekki henta sem lausn fyrir Ísland.
Fyrir lítil ríki í mið og A-Evrópu kann að vera annað upp á teningnum, sérstaklega þegar litið er til skemmri tíma. Það er getur verið þeim mikilvægt að "intigrera" sig inn í "framleiðslulínuna". Landfræðilega skiptir það litlu máli fyrir Ísland.
Þó að ég hafi örlitla samúð með því sjónarmiði sumra "Sambandssinna", að það sé best að takmarka völd Íslenskra stjórnmálamanna eins og kostur er og treysta á að frjálslyndið komi að utan, þá held ég að til lengri tíma litið sé það að fara úr öskunni í eldinn.
"Sambandið" er á stórhættulegri leið, og virðist ekki skirrast við að aftengja lýðræðið, þegar það telur þess þörf. Drjúgur var þó lýðræðishallinn þar fyrir.
Þó að það kunni að sýnast vonlítið, þá er auðveldara að hafa áhrif á stefnu og stýringu lítillar skútu, en rísaolíuskips.
Íslendingar þurfa hins vegar að leggja meira á sig við að berjast fyrir frjálslyndi.
G. Tómas Gunnarsson, 5.3.2013 kl. 12:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.