18.2.2013 | 11:37
Hverjir tapa á gjaldeyrishöftunum? Hverjir eru "krónuþjóðin"?
Það er mikil umræða um gjaldeyrishöft þessa dagana og er það vel. Gjaldeyrishöft mismuna og eru í eðli sínu slæm og kosta glötuð tækifæri.
En hverjir skyldu hagnast og hverjir skyldu tapa á gjaldeyrishöftum þeim sem nú eru í notkun? Hverjir eru "krónuþjóðin"?
Til þess að reyna að gera sér ljóst hverjir það eru sem tapa mest og hagnast mest á gjaldeyrishöftunum, verður að reyna að gera sér einhverja hugmynd um hvert líklegt væri að gengið færi, ef þau yrðu afnumin.
Hér er gert ráð fyrir því að gengið myndi falla all nokkuð ef höftunum yrði aflétt.
Hverjir eru það þá sem hagnast á gjaldeyrishöftunum?
Almenningur. Þeir sem lifa nokkurn veginn frá mánuði til mánaðar, berjast við að eiga í sig og á og borga af skuldunum. Þeir hagnast á gjaldeyrishöftunum. Innflutt vara matvæli, fatnaður, raftæki o.s.frv. er ódýrari en ella væri. Sama gildir ef einstaklingar bregða sér erlendis. Ferðmannagjaldeyrir er ódýrari og eykur þannig kaupmátt Íslendinga erlendis.
Skuldsett sveitarfélög og fyrirtæki. Ef sveitarfélög eða fyrirtæki skulda stórar upphæðir í erlendri mynt hagnast þau á gjaldeyirishöftunum. Ef gengið fellur hækka skuldir þeirra verulega. Það sama má líka segja um þau sem skulda verðtryggð lán, vegna þeirra áhrifa sem gengissig myndi hafa á vísitölur. Verðtryggingaráhrifin eiga að sjálfsögðu einnig við um einstaklinga.
Það þarf líklega ekki stórt gengisfall til þess að gera stöðu sveitarfélaga eins og Suðurnesja og Hafnarfjarðar því sem næst vonlausa. Það sama má líklega segja um OR.
Innflytjendur. Það er að segja þeir sem flytja inn vörur. Þeir njóta lægra gengis, geta boðið (og gera það vonandi) upp á lægra vöruverð sem eykur sölu. Lægra gengi eykur samkeppnishæfni þeirra gagnvart innlendum framleiðendum. (Hér hef ég ekki tölur um hve oft eða hve mörgum innflytjendum hefur verið neitað um gjaldeyri til innflutnings. Mér skilst þó að það sé ekki algengt nú. Það skekkir samkeppnisstöðu innflytjenda gegn innlendum framleiðendum, og ekki síður innbyrðis).
Fjárfestingar erlendis frá. Erlendir fjárfestar (eða þeir sem koma með fé erlendis frá) geta hagnast verulega í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Þó má deila um hvað þeir hagnast mikið, því vissulega fengju þeir mikið fleiri krónur fyrir gjaldeyrinn sinn, ef gengið sigi verulega.
Því verður þó ekki mótmælt að við núverandi aðstæður njóta þeir forskots.
En hverjir eru það þá sem tapa mestu á gjaldeyrishöftunum?
Útgerðarmenn og aðrir útflytjendur. Útgerðarmenn tapa verulega á höftunum. Þeir fá verulega færri krónur fyrir útflutning sinn en ef genginu væri leyft að síga. Þetta tap nær svo til sjómanna á t.d. frystitogurum, sem fá greitt eftir hvað fæst fyrir fiskinn erlendis. Að sjálfsögðu gildir það sama um aðra útflytjendur.
Ferðaþjónustan. Ferðaþjónustan er í sjálfu sér að stórum hluta útflutningur, og fær því færri krónur fyrir sinn snúð en ef gengið væri lægra.
Innlendir fjárfestar. Þeir sem eiga fjármagn innanlands búa óneitanlega við skerta samkeppnisstöðu sé miðað við fjárfesta sem búa erlendis, eða eiga erlendis handbært fé. Ekki aðeins búa þeir við höft, þannig að þeir geti ekki fjárfest erlendis, heldur búa þeir líka við að erlendir fjárfestar koma inn á "bónus" kjörum með gjaldeyri. (þó má deila um hvað "bónusinn" er mikill miðað við það gengi sem líklega yrði ef höftin yrðu afnumin.).
Eins og sjá má á þessri ófullkomnu upptalningu eru hópar sem bæði hagnast og tapa á gjaldeyrishöftum. Þessi færsla stiklar auðvitað aðeins yfir viðfangsefnið á stóru.
Persónulega lít ég þó svo á að fullkomlega sé út í hött að tala um "tvær þjóðir". Það er engin "krónuþjóð" sem tapar stjórkostlega á gjaldeyrishöftunum.
Hins vegar má rökstyðja það að til séu tvær stéttir fjárfesta. Þeir sem hafa krónur og geta aðeins fjárfest innanlands og svo þeir sem hafa handbært fé erlendis, geta fjárfest hvar sem er og fá einnig "auka krónur" þegar þeir koma með fé til Íslands.
Þeir sem sem tapa hins vegar mestu eru útgerðarmenn og aðrir útflytjendur. Þeir kvarta ekki mikið, enda vita þeir líklega sem er að þeir myndu ekki hljóta mikla samúð hjá Íslendingum þessa dagana.
Til lengri tíma litið tapa allir á gjaldeyrishöftunum. Tækifæri fara forgörðum, uppbygging dregst eða við hana er hætt. Færri störf skapast, og svo framvegis og svo framvegis.
Þess vegna er nauðsynlegt að leggja áherslu á að afnema þau eins fljótt og auðið er. Til að svo megi verða þarf að auka framleiðslu, auka útflutning (ná inn meiri gjaldeyri) og þar fram eftir götunum.
Það gerist ekki með auknum ríkisafskiptum, meiri miðstýringu og hærri sköttum.
Það er meðal annars þess vegna sem er svo nauðsynlegt að skipta um ríkisstjórn á Íslandi.
P.S. Eins og áður sagði er þetta ekki meint sem vísindaleg úttekt eða hárnákvæm rannsókn á áhrifum gjaldeyrishafta (sem eru fyrst og fremst höft á fjármagnsflutninga). Þetta er stutt bloggfærsla sem unnin er á tíma sem mælist ekki í klukkustundum, heldur mínútum.
En allar viðbætur, ábendingar og gagnrýni er eru vel þegnar í athugasemdum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:02 | Facebook
Athugasemdir
Þú verður að taka tillit til þess að stýrivextir og almennt vaxtastig í landinu bítur ekki á þeim sem koma með gjaldeyri í gegnum Seðlabankann á afslætti. Hærri stýrivextir og verðbólgan bitnar því á "krónuþjóðinni". Kannski er það kostnaður sem hægt er að sætta sig við.. en væri ekki betra ef Seðlabankinn eða aðrir hagsmunaaðilar kæmu með ítarlega greiningu á þessu?
Lúðvík Júlíusson, 18.2.2013 kl. 19:05
Það væri vissulega gaman að sjá ítarlegar greiningu á áhrifum haftanna. Líklega væri þó æskilegra að einhver annar en Seðlabankinn ynni hana. Hver væri best til þess fallinn ætla ég ekki að segja. Ef til vill væri best að fleiri en einn aðili ynni slíkt samhliða.
Ég geri mér grein fyrir því að það vantar mikið upp á það sem hér er skrifað að ofan, enda ekki hugsað sem fræðigrein.
En þó að vextir og verðbólga kunni að vera hærri, er það varla hærra en slíkt yrði, ef gengið myndi síga verulega (verðtrygging = vextir).
Svo er það hitt hver er í raun að fá afslátt? Sá sem kemur með erlendan gjaldeyri og fær fleiri krónur. Eða þeir sem koma með krónur og fá meiri gjaldeyri en þeir fengju ef gengið væri frjálst?
Hvað segjum við svo um þá sem eru neyddir til að selja gjaldeyrinn sinn á afsláttarverði?
Allt er þetta mismunun.
G. Tómas Gunnarsson, 18.2.2013 kl. 19:47
Aðal keppikeflið er að jafnræði sé sem mest því þannig dreifast byrðarnar með jafnari hætti. Ójafnræði eykur óvissu og kostnað og eykur þann skaða sem höftin hafa. Ef við gefum okkur að höftin skili okkur ávinningi þá minnkar hann hraðar eftir því sem óhagræðið af þeim eykst.
Lúðvík Júlíusson, 18.2.2013 kl. 19:52
Auðvitað er jafnræði það sem þarf að stefna að, ekki bara hvað varðar gjaldeyrishöft, heldur miklu víðar.
Það er ekki bara í þessu sem stjórnvöld (bæði á Íslandi og um allan heim) horfa mun meira á það sem er nýtt, en það sem er fyrir.
Allir þekkja hvernig bæði ríkisstjórnir jafnt sem sveitarfélög veita fyrritækjum sem koma með "ný störf" ívilnanir sem þau fyrirtæki sem fyrir eru fá ekki.
Ég er hins vegar alveg sammála því að ávinningurinn af höftum minnkar með hverjum degi sem þau standa. Hvort að staðan sé nú sú að nú sé það svo að óhagræðið hafi siglt fram úr, treysti ég mér ekki til þess að dæma um.
En ég held að fátt annað hafi verið í stöðunni en að skella á höftunum á sínum tíma.
G. Tómas Gunnarsson, 18.2.2013 kl. 21:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.