4.2.2013 | 13:56
Stjórnmálaflokkarnir, IceSave og skoðanakannanir
Mál ársins, það sem af er, á Íslandi er auðvitað IceSave. Meira að segja handbolti gleymist nú þegar IceSave úrskurðurinn er kominn.
Eðlilega eru margir farnir að velta því fyrir sér hvort og hve mikil áhrif þessi niðurstaða muni hafa á alþingiskosningarnar í vor.
Um slíkt er erfitt að fullyrða, en þó held ég að það sé óhætt að segja að kjósendur muni líta til IceSave þegar þeir greiða atkvæði sitt. En vissulega á margt eftir að ganga á fram að kosningum og spurning hvernig þeim sem IceSave lyftir tekst að halda því fylgi.
Nu hafa komið fram á síðustu dögum, 3. skoðanakannanir sem sýna býsna misjafna stöðu, en þó ekki svo ósvipaða þróun fylgis.
Þróunin er ótvítrætt fylgistap stjórnarflokkana, sértaklega Samfylkingar. Vinstri græn virtust að mestu leyti hafa tekið sitt fylgistap út áður, en síga enn neðar.
En af stjórnmálaflokkunum held ég að það sé engin spurning að Framsóknarflokkurinn mun njóta IceSave málsins mest og sterkast.
Ég verð hissa ef að Reykvískir kjósendur eiga ekki eftir að kjósa Frosta Sigurjónsson á þing. Hann hefur eðlilega fengið mikla athygli fyrir þátt sinn í málinu og þetta kemur til með að auðvelda honum að ná athygli í kosningabaráttunn og koma hugmyndum sínum og málstað Framsóknarflokksins á framfæri.
Ég held að þetta gæti sömuleiðis fært Framsóknarflokknum gríðar vind í seglinn í NorðAusturkjördæmi. Þar fer Sigmundur Davíð fyrir listanum og kemur sömuleiðis afar vel undan IceSave málinu. Í kjördæminu leiðir svo Steingrímur J. lista Vinstri grænna og kemur út, í það minnsta enn sem komið er, hvað verst í þessu máli. Einhvernveginn virðist Samfylkingunni takast að láta málið falla mun meira í kjöltu VG.
Sé litið til þess að oft er talað um að fylgi færist á milli Framsóknarflokks og VG, ætti Framsóknarflokkurinn að eiga gríðarlega möguleika í NA, ef rétt er haldið á spöðunum. Þar á hann enda gríðarsterkar rætur.
En IceSave er líklegt til að skila Framsóknarflokknum fylgisaukningu um allt land, eins og þessar skoðanakannanir sýna.
Sjálfstæðisflokkurinn lætur nokkuð undan síga í þessum könnunum. Einstakir frambjóðendur, s.s. Brynjar Níelsson geta borið höfuðið hátt, vegna einarðrar afstöðu sinnar í málinu. Sumir þingmenn flokksins, s.s. Birgir Ármannsson, Pétur Blöndal og Unnur Brá Konráðsdóttir stóðu einnig fast á sannfæringu sinni og greiddu atkvæði gegn samningunum. Meirihluti þingflokksins stóð hins vegar að samþykkt IceSave III. En fram að því stóð flokkurinn gegn samningunum, en vann þó vel við gerð fyrirvara sem vissulega skiptu máli í framvindunni.
Hvort að það er IceSave sem er að taka fylgið af Sjálfstæðisflokknum er ekki gott að segja, en þó ekki ólíklegt, en skrýtið útspil um gjaldmiðilsmál á þeim tíma sem "spot" kannanirnar voru gerðar gæti líka hafa haft áhrif.
Hreyfingin getur borið höfuðið hátt, hvað IceSave málið varðar, en mér sýnist ekkert benda til þess að flokkurinn nái að nýta það sér á nokkurn hátt til fylgisaukningar.
Björt framtíð heldur áfram að bæta við sig fylgi. Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvers vegna BF bætir svo við sig. Helst er hægt að ætla að kjósendur sem telji þörf fyrir "eitthvað nýtt!" og gömlu flokkarnir séu ekki atkvæðisins virði, fylki sér um Bjarta framtíð.
Það er líka freistandi að ætla að stór hluti fylgis BF komi frá Samfylkingunni, vegna þess hve keimlík stefnumál flokkanna eru.
Persónulega þætti mér ekki ólíklegt að Árni Páll geti að einhverju marki snúið þeirri þróun við. Hann er mun líklegri til að höfða til stuðningsfólks BF, en Jóhanna eða Guðbjartur nokkurn tíma gæti.
Það er enda mikill kostur fyrir Árna Pál að þessar kannanir komu fram á "síðasta degi" Jóhönnu Sigurðardóttur. Það getur verið mikið traustleikamerki fyrir hann ef hann nær að snúa þróuninni við og sigla upp á við. Hvort að þessar kannanir séu botninn fyrir Samfylkinguna er erfitt að spá um, en ég tel þó líklegt að Árni Páll nái botnspyrnu nú.
Þó held ég að viðspyrnin geti reynst Samfylkingunni erfiðari, ef Jóhanna heldur áfram sem forsætisráðherra til vorsins.
Allar kannanirnar benda til þess að Vinstri græn séu i stórkostlegum vandræðum. Fylgishrunið þar virðist ekki hafa stoppað. Í könnunni sem var gerð fyrir Sprengisand er flokkurinn orðinn 6. stærsti flokkur á Íslandi.
Hægri grænir hafa komist upp fyrir þá. Það er ekki auðvelt að sjá hvað þarf til að flokkurinn geti snúið þessari þróun við. Því sem næst allt leggst honum í mót þessa dagana. Flokkurinn enda í harðri andstöðu við sjálfan sig í málum eins og "Sambandsaðild", olíuleit og fleira. IceSave niðurstaðan hefur heldur ekki hjálpað upp á.
Svo eru það Hægri græn. Það yrðu óneitanlega tíðindi ef þau kæmu mönnun á þing. Loksins kemur könnun sem gefur það til kynna. Flokkurinn er ekki tilbúinn með neinn lista og lítið vitað hverjir koma til með að skipa þá. En það er spurning hvort flokknum tekst að nýta sér þessa athygli sér til framdráttar?
Þessar kannanir gefa til kynna að mikil hreyfing sé á kjósendum og allt geti gerst fram að kosningum.
Sjálfstæðiflokkurinn hefur sterka stöðu, en bæði Framsóknarflokkur og Björt framtíð eru að sækja á. Ríkisstjórnarflokkarnir eru í mjög þröngri stöðu.
Samfylkingin er nýbúin með landsfund. Ég held að hann hafi ekki skilað þeim árangri sem flokkurinn vænti. Vissulega var skipt um formann og varaformann og ég hygg að flestir geti verið sammála um að það ætti að skila flokkunum auknu fylgi. En að öðru leyti fór landsfundurinn fram í skugga IceSave niðurstöðunnar og fylgishruns í skoðanakönnunum. Því virtist áhugi á fundinum og starfinu ekki vera mikill, eins og sást í atkvæðatölum á sunnudeginum.
Nú fara hinir flokkarnir að halda fundi sína, hver af öðrum. Það verður fróðlegt að fylgjast með þeim.
Svo hlýtur að líða að því að frekari málefnagrundvöllur sjáist hjá Bjartri framtíð. Þó að vel gangi í skoðanakönnunu, hlýtur krafan að vera sú að þeir gefi sig frekar upp.
Vinstri-grænir með 5,7% fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Við skulum ætlað að kósendur skoði líka hvaða stjórnmálaflokkar gerðu það kleyft að Icesave varð til. Það má rekja beint til einkavinavæðingar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á bankakerfinu um og uppúr síðustu aldamótum. Ég hef þá trú á kósendum að þeir taki ekki við slikum einnota skýringum eins og lesa má hér
Jón Ingi Cæsarsson, 4.2.2013 kl. 16:30
Það má auðvitað segja að EEA/EES samningurinn sé upphafið að IceSave, ef menn vilja stunda þannig sagnfræði.
Persónulega hef ég ekki trú á slíku.
Einkavæðing bankanna var heldur ekki uppskriftin að hruni þeirra. Ef menn skoða söguna sést að fyrsti bankinn sem féll var Glitnir/Íslandsbanki. Hvenær var hann einkavæddur? Og með hvaða hætti?
En vissulega eru margar skýringar á tilurð IcesSave eins og flestu öðru.
Hver skyldi nú t.d. hafa verið ráðherra bankamála þegar IceSave var opnað í Hollandi? Reyndar fór IceSave í Bretlandi virkilega á flug 2008. Þá þegar var ljóst að Íslenskt bankakerfi var í talsverðum vandræðum eftir "mini" krísuna 2006.
Hver var á sama tíma stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins?
En það sem gerist árið 2003, leiði óhjákvæmilega til einhvers síðla ársins 2008, eru reyndar rök sem ekki halda að mínu mati.
En það er margt sem sagan geymir.
Hvaða ráðherra var það t.d. sem barðist mest fyrir hækkun húsnæðislána Íbúðalánasjóðs sumarið 2008?
Ég held að skoðanakannanir sýni að kjósendur eru upp til hópa skynsamt fólk, ég hygg að það megi segja um flesta þeirra.
Það var þess vegna sem þeir stöðvuðu samþykkt IceSave samninga. Meðal annars í þjóðaratkvæðagreiðslu sem Jóhanna Sigurðardóttir neitað að taka þátt í á þeirri forsendu að hún væri marklaus.
Það er skömm sem mun fylgja henni að eilífu. Að forsætisráðherra taki ekki þátt í þjóðaratkvæðargreiðslu er líklega einsdæmi.
En slík þykir fínt í stjórnmálum, þar sem hnefinn á lofti gefur tóninn.
G. Tómas Gunnarsson, 4.2.2013 kl. 17:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.