Bæta höft lífskjör?

Sé nú að hér og þar á netinu er verið að rífast um hvort að höft bæti lífskjör, eður ei.

Í sjálfu sér spurning sem er klassísk og ætti að spyrja sig að reglulega.

En án þess að leggjast í rannsóknarvinnu eða leggja á mig mikla heimildarvinnu, myndi ég líklega svara með eftirfarandi hætti.

Höft draga úr lífskjörum sé litið til lengri tíma.  Hitt er þó varla umdeilanlegt að höft geta til skamms tíma bætt eða varðveitt lífskjör og velsæld, sé litið til heildarinnar.  Einhverjir hljóta þó alltaf að bíða skaða af þeim.

Ég hygg að fáir myndu neita því að gjaldeyrishöftin sem ríkisstjórn Geirs Haarde setti á 2008 hafi verið ill nauðsyn.  Þau hafi þjónað hagsmunum Íslensks samfélags.

Ég leyfi mér sömuleiðis að halda því fram að ef núverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna teldi að ef lífskjör myndu almennt batna á Íslandi með því að afnema gjaldeyrishöftin nú þegar, yrði það gert.

Hitt er svo annað mál hvenær höftin fari að hafa neikvæð áhrif, hafi í för með sér verri afleiðingar en að afnema þau?

Svo er önnur umræða hvað þarf að gera til að afnema þau og hvort að núverandi ríkisstjórn hafi staðið síg í því að gera það sem þarf að gera til undirbúnings afnáms haftanna?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lúðvík Júlíusson

Gjaldeyrishöft eru ekki bara gjaldeyrishöft, þau eru til í ótal útfærslum.  Þessi gjaldeyrishöft sem eru hér við lýði veita ýmiskonar forréttindi og skekkja samkeppni fyrirtækja og annarra í landinu.  Það leiðir óneitanlega til sóunar og lakari lífskjara. 

Stjórnmálamenn eru hræddir við að missa vinsældir fari þeir að afnema höftin enda verður hagkerfið þá aftur að laga sig að frjálsum viðskiptum sem gerist ekki sársaukalaust þegar óarðbær fyrirtæki fara á höfuðið. 

Ég hef það á tilfinningunni að margir vilji nota gjaldeyrishöftin til að styrkja gengi krónunnar aftur til 2007.

Kaup þessara aflandsfélaga og fleirri aðila eru ekki heldur eðlilegur fylgifiskur gjaldeyrishafta http://www.ruv.is/frett/aflandsfelog-fjarfesta-a-islandi

Lúðvík Júlíusson, 1.2.2013 kl. 09:48

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Flestar ef ekki allar aðgerðir stjórnvalda á markaði valda mismunun og skapa forréttindi. Á einn eða annan hátt

Gjaldeyrishöft færa til gríðarlega fjármuni, miðað við hvað væri ef skipti á gjaldeyri væru frjáls.

Inngrip eins og hjá Seðlabankunum nú, til að hækka gengið gera það sömuleiðis.  Innflutningsfyrirtæki sem þurfti að kaupa gjaldeyri fyrir 30 milljónir gæti sparað sér u.þ.b. 450 þús.  Útflutningsfyrirtæki sem þurfti að selja, "tapaði" sömu upphæð.

Vitneskja um slík inngrip getur verið mikils virði.

Eru útgerðarmenn og sjómenn ekki helstu "fórnarlömb" gjaldeyrishafta?  Síðan aðrar útflutnings og framleiðslugreinar.

Ég get tekið undir það með þér að margir halda að hægt sé að ná "2007" aftur.  Það er auðvitað ekki raunhæft, alla vegna ekki um fyrirsjáanlega framtíð að mínu mati.

En hvenær er hægt að leggja gjaldeyrishöftin af?

Það eru líklega margar mismunandi skoðanir á því, og margt sem þarf að athuga, ekki síst vísitölubindingar.

Hvað varðar aflandskrónurnar þá eru það skrýtin viðskipti, en ef til vill eru þau á "réttu" gengi og hin viðskiptin á "röngu".  Ekki að það skipti í raun máli, þau eru óeðlileg og mismuna.

En mismunun verður æ algengari.  Stíf lög og svo er farið að setja undanþágur.

Hæsti vaskur í heimi, og svo er prúttað um hvað eigi að fara niður um flokk og svo eru gefnar undanþágur.  Allir vinna eða hvað?

G. Tómas Gunnarsson, 1.2.2013 kl. 12:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband