Drykkjuveisla í Langholtsskóla

„Ef það væri haldin drykkjuveisla  í Langholtsskóla í Reykjavík…með bjór og sterku áfengi  þar sem sýnt væri hvernig lítil börn bera sig að við drykkju og skólabekkjunum smalað inn, eða boðið inn skulum við segja, til að horfa á og drekka, hvað myndi gerast? Skólastjórinn rekinn, það yrði kallað á að hann yrði dæmdur og kennarastofan látin fara og skólinn væri tekinn fyrir í Kastljósþætti, eflaust, réttilega. Og það yrðu reistar kröfur á innanríkisráðherra. En ef þetta sama áfengi, ef að það yrði á boðstólum, segjum inn í barnaafmæli, finnst mönnum það vera allt í lagi?“

Um helgina virðist mikið hafa verið rætt um klám á Íslandi um nýliðna helgi.  Það er í sjálfu sér ágætt enda alltaf gott að ræða málin.  

Ég tók upphafstextann hér úr frétt og skipti út og aðlagaði textann þannig að hann fjallar um áfengi, en ekki klám.

Hvoru tveggja eru hlutir sem við flest viljum halda í burtu frá börnum og unglingum.

En það eitt að börn eða skólar séu notaðir í "dæmisögum", dugar auðvitað ekki til þess að við viljum banna hlutina alfarið.

Klám á ekkert erindi á skólasamkomur eða barnaherbergi.  Áfengineyslu á ekki að kenna í skólum eða viðhafa í barnaafmælum.  Um það eru líklega flestir sammála á einn eða annan veg.

En það þýðir ekki að það þurfi að banna klám eða áfengi.

Nú skilst mér að áfengisneysla á meðal Íslenskra unglinga fari minnkandi.  Þrátt fyrir að framboð og aðgengi að áfengi hafi aukist á Íslandi frá því að ég var unglingur, skilst mér að neysla þess á meðal unglinga hafi dregist saman.

Mér er einnig sagt að það sé að stærstum hluta að þakka samstilltu átaki foreldra og skóla, með stuðningi hins opinbera.

En samdrátturinn í unglingadrykkju er ekki að þakka því að hún hafi verið bönnuð.  Slíkt bann enda verið í gildi svo lengi sem elstu menn muna, en dugði lítt til.

Það er eðlilegt að sjálfsagt að innanríkisráðherra, eða aðrir sem láta sig málið varða berjist gegn klámi og láti vita af áhyggjum sínum varðarndi neyslu ungmenna á því.

Það er líka jákvætt að láta foreldrum í té upplýsingar um hvað þeir geti gert til að hindra aðgengi barna og unglinga að klámi (netsíur o.s.frv.).  Það má ímynda sér að haldnar verði kynningar og kennslutímar í notkun og uppsetningu slíkra sía og ótal margt má gera til að vekja athygli á málefninu.

Allsherjarbann með tilheyrandi ritskoðun, eftirlitsnefndum, stofum, og öðru slíku er gamaldags forsjárhyggja sem er ólíkleg til að skila tilætluðum árangri.

Ögmundur sagðist vilja að rætt yrði um málið.  Hingað til hefur mér sýnst hann eingöngu vilja tala um, hann hefur engan áhuga á því að hlusta.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband