Eru allir að reyna að láta gjaldmiðil sinn síga?

Yfir fáu er heyrist kvartað oftar á Íslandi, en gengi Íslensku krónunnar.  Ja, nema veðrinu líklega.  Og auðvitað skiptir gengi krónunnar miklu máli, hefur bein áhrif á verðlag, vísitölur og þar með lán og afborganir.

En þegar spurt er hvert væri rétt gengi krónunnar verður oft minna um svör, enda er ekki einfalt að segja til um það með fullri vissu, án mikilla gagna og útreikninga.

Í stuttu máli má þó segja að gengið eigi að halda innstreymi og útstreymi gjaldeyris, vara og þjónustu í jafnvægi til lengri tíma litið.  Alþjóðleg viðskipti eru í eðli sínu 0 (zero sum) reiknisdæmi.

Það hefur oft gefist vel, þegar þjóðir hafa átt í efnahagserfiðleikum, að gengið hefur sigið og í kjölfarið hefur útflutningur aukist og atvinna sömuleiðis.

Nú er erfiðleikar í efnahag víða um lönd, ekki síst í Bandaríkjunum og svo víða í Evrópu.  Það þarf því ekki að koma á óvart að lönd hafi freistað þess að láta gjaldmiðil sinn síga, eða í það minnsta reynt að koma í veg fyrir að hann styrkist.

Fréttir hafa verið miklar af seðlaprentun í Bandaríkjunum (Quantitative easing, heitir það á fagmálinu) og Bretar hafa heldur ekki slegið slöku við framleiðslu peninga með þeim hætti.  Svissneski seðlabankinn neitar að leyfa frankanum sínum að styrkast og prentar þá peninga sem þarf til að kaupa þann straum af euroum sem liggur til landsins.  Þau euro kaupa þeir síðan Þýsk, Bresk, Bandarísk og fleiri erlend ríkisskuldabréf og stuðla þannig að jafnvægi eða hækkun viðeigandi gjaldmiðla.

Aðgerðir Svissneska seðlabankans gegn euroinu, eru ekki vegna þess að þeir gætu ekki þolað ríkjum eins og Grikklandi eða Spáni að galdmiðill þeirra myndi veikjast, heldur vegna þess að Sviss má ekki við því að gjaldmiðill helstu samkeppnislanda þeirra, Þýskalanda, Austurríkis og fleiri ríkja í norður Evrópu, veikist gagnvart frankanum.  Því verja þeir frankann niður á við (það er algengur misskilningur að Sviss hafi bundið frankann við euroið, þeir kaupa aðeins nægjanlegt magn af erlendum gjaldeyri, svo hann styrkist ekki. ).  En þrátt fyrir þetta styrktust pundið og Svissneski frankinn nokkuð á liðnu ári.

En það er ljóst að ekki geta allir gjaldmiðlar veikst.

Það hefur verið hlutskipti "smærri"  gjaldmiðla að styrkjast upp á síðkastið, Kanada-, Ástraliu- og Nýsjálenskur dollar hafa risið, Braslískt real, Kóreanskt won  og auðivitað gjaldmiðill Kína, renmimbi eða yuan, svo nokkur dæmi séu tekin (reyndar líklega rangt að tala um gjaldmiðil Kína sem "smærri" en hann er þó ekki mikið notaður í alþjóðlegum viðskiptum).

Staða Þýskalands er með þeim hætti, að auðvitað ætti gjaldmiðill þess að styrkjast, en með þátttöku í euroinu, má segja að þeir "sífelli" gjaldmiðil sinn, Reglulega er einnig talað um að beita Kínverja þrýstingi til að þeir leyfi gjaldmiðli sínum að styrkjast enn frekar.

En kemur þetta allt Íslensku krónunni eitthvað við?

Auðvitað er hún smá í samanburði við flesta aðra gjaldmiðla, en lýtur þó sömu lögmálum.  Jafnvægi eða afgangur verður að vera á inn og útflæði.  Ella hlýtur krónan að síga.  Og þó að vöruskipti Íslendnga séu með afgangi nú um stundir, er slíka ekki að heilsa þegar allt er reiknað, afborganir af erlendu lánunum sem streymdu til landsins fyrir nokkrum árum, eru ennþá til staðar og láta finna fyrir sér.

Því verður að teljast líklegt að krónan verði lág enn um sinn og líklega lækki enn frekar.  Þar er ekki aðalatriðið hvort að Seðlabankinn "ráði við krónuna" eður ei, heldur hitt hvort að framleiðsla og gjaldeyristekjur Íslendinga aukist, standi í stað eða dragist saman.

Krónan endurspeglar efnahagslífið og efnahagsstjórnina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 "Þar er ekki aðalatriðið hvort að Seðlabankinn "ráði við krónuna" eður ei, heldur hitt hvort að framleiðsla og gjaldeyristekjur Íslendinga aukist, standi í stað eða dragist saman."

Seðlabankinn skiftir máli, honum ber t.d. að gæta að útlánaþenslu í krónum, ef bankarnir lána of mikið þá skapast þrýstingur á gengið og það fer niður. Við það eykst verðbólgan og þau laun sem menn fá í vasann, rírna. Þá verða launþegar eðlilega argir og krefjast hærri launa, (fleirri króna) ef það er látið eftir þeim þá eykst þrýstingur á gengið og verðbólgan eykst og þá er tilhneigingin að segja að launakröfurnar séu orsökin þegar frumorsökin var í raun útlánaþenslan.   Þannig að Gylfi hefur talsvert til síns máls gagnvart Seðlabanka, hef þó ekki orðið var við að hann bendi á útlánaþenslu sem frumorsök.

Ef Seðlabankinn fixar um of á að stýra hagkerfinu með vöxtum þá verður það til þess að gerfiverðmæti myndast í krónum (séu vextir of háir) án þess að aukinn gjaldeyrir fylgi, það virkar á sama hátt og útlánaþenslan, veldur verðbólgu þar sem Seðlabankinn hefur því miður tilhneigingu til að vinna á afleiðingunum með orsökinni, þ.e. hækka vexti.

Hið rétta er auðvitað að gæta að útlánaþenslu t.d. með bindiskyldu eða hárri lausafjárkröfu af hálfu Seðlabanka á hendur bönkunum, svo og að setja ákveðið þak á vexti, t.d. 3%-5% . Þannig mun verðbólgan hverfa og launþegar sýndu í þjóðarsáttinni að þeir standa sig ef aðrir hlutar kerfisins t.d. Seðlabankinn, gera það líka.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.1.2013 kl. 16:19

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni.  Þú hefur vissulega nokkuð til þíns máls, en það eru takmörk fyrir því hve hægt er að stýra (micro manage) hagkerfinu, jafnvel þó að það séu gjaldeyrishöft.  En vissulega skiptir Seðlabankinn máli. 

En það gera margir aðrir þættir í efnahagslífinu.  Ekki síst skiptir ríkisstjórnin miklu máli í því samfélagi sem Íslendingar hafa byggt upp, þar sem hið opinbera er með fingur í því sem næst hverri kyrnu.

Það er einmitt eitt af því sem hefur vantað um all langa hríð á Íslandi, að ríkisstjórn og Seðlabanki stefndu í sömu átt, ef svo má að orði komast.

En það skiptir líka gríðarlega miklu máli til hvers er lánað, jafnvel meira heldur en hve mikið sé lánað, þó að þetta tvennt tengist vissulega.

Vissulega má útlánaþennslan ekki vera þannig að hún setji eftirpurn eftir innfluttum vörum upp úr öllu valdi, en meiri þörf er fyrir því að lána til framleiðniaukandi verkefna og atvinnuskapandi.  En það getur verið snúið að stýra eftirspurninni.

En það breytir því ekki að krónan hlýtur að taka mark af efnahagslífinu og efnahagsstjórninni.  Hjá því verður aldrei komist þegar til lengri tíma er litið. 

Vandamálið verða alvarlegri þegar gjaldmiðillinn gerir það ekki.

G. Tómas Gunnarsson, 14.1.2013 kl. 16:49

3 identicon

"En það skiptir líka gríðarlega miklu máli til hvers er lánað, jafnvel meira heldur en hve mikið sé lánað, þó að þetta tvennt tengist vissulega."

Það getur verið erfitt að greina á milli neyslulánum og framleiðniaukandi lánum en gefum okkur að svo sé.  Segjum t.d. að menningartengdar stórbyggingar sem til stendur að reisa séu neyslumegin og ný ofurfiskiskip séu framleiðniaukandi megin, hið fyrra  valdi að meginhluta aukinni gjaldeyrisnotkun en hið síðara veldur mikilli gjaldeyrisnotkun fyrstu árin en afli meiri gjaldeyris en eyðist, til langs tíma. Í hvorugu tilfellinu skiftir máli til hvers er lánað hvað það varðar að álagið til skams tíma verður slíkt á gjaldmiðilinn að hann fellur, nema til sé gjaldeyrisvaraforði og hann sé notaður til að dempa skamtímahöggið af fjárfestingu sem sé hagstæð til langs tíma en freistnivandi pólitíkusa verði ekki til að spreða honum í verkefni sem séu óhagstæð bæði í bráð og lengd.

Vissulega fá einhverjir iðnaðarmenn laun við stórbyggingar og einhverjir sjóðir maka krókinn og fá sýndargróða en heildaráhrifin á hagkerfi sem býr við gjaldeyrisþurrð eru neikvæð, verðbólga myndast og verðmæti eru soguð upp úr launaumslögum og öllum vösum sem peninga geyma.

Jafnvel fjárfestingar í ofurfiskiskipum geta verið kerfinu ofviða ef eins og áður segir, ef því er ekki mætt með dempandi hliðarráðstöfunum þar sem stjórnvöld og Seðlabanki ganga í takt.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.1.2013 kl. 17:07

4 identicon

ps. Ef nýja fiskiskipið fær erlent lán þá ættu áhrifin á gengið að vera jákvæð en um leið þyrftu stjórnvöld og Seðlabanki að gera hliðarráðstafanir t.d. að binda gjaldeyri (a.m.k. í venjulegu ári)  eða jafnvel að prenta peninga til að forðast gengishækkun eða a.m.k. þá tálsýn að kerfið sé í jafnvægi þannig að í lagi sé að fara að spreða.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.1.2013 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband