Pólítískir spunarokkar

Eitt af því sem mér þykir skemmtilegt fyrir kosningar er að fylgjast með margvíslegum pólískum spuna sem settur er af stað.  Fyrsta hrinan er í kringum prófkjörin og síðan taka kosningarnar við.

Það hefur færst í vöxt að fyrir prófkjörin séu notaðar skoðanakannanir, sem eiga þá að sýna að hinn eða þessi frambjóðandinn njóti stuðnings og sé sigurvegari.  Sumir fara jafnvel ekki í framboð nema að skoðanakannanir sýni að þeir eigi vísan sigur, eða í það minnsta verulega góða möguleika.

Sú barátta sem mun ábyggilega vekja hvað mesta athygli á næstu vikum, er hvernig raðasta á lista Framsóknarflokksins í Norðaustri.  Þar mun barátta Sigmundar og Höskuldar án efa verða hörð og óvægin og án efa verða spunavélar þar knúnar áfram af miklu afli.

Þannig birtist t.d. nýlega í Vikudegi skoðanakönnun sem "Áhugahópur um oddvita Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi lét gera á Akureyri og nágrenni.  Þar var kannaður hugur Akureyringa til þess hvern þeir vildu sjá leiða lista Framsóknar í Norðausturkjördæminu.

Því er skemmst frá því að segja að Höskuldur naut yfirburðarstuðnings í könnuninni, niðurstöðurnar voru u.þ.b. 85% á nóti 15%, honum í vil.

Þetta er ljómandi spuni og ef til vill að vissu marki nokkuð týpískur hvernig hann er settur fram.

Áhugahópur er nefndur til sögunar.  Það á að ljá málinu hlutleysisblæ, þó að engin hafi sagt annað í mín eyru en að um sé að ræða stuðningsmenn Höskuldar.  Ákveðið er að kanna aðeins í hluta kjördæmisins og valið svæði sem talið er henta "þeirra manni" best.  Ekki er gerð nokkur tilraun til að skilja að þá sem eru líklegir til að kjósa viðkomandi flokk frá.

Í því sambandi má velta fyrir sér hvort að þeir sem eru harðákveðnir í að kjósa aðra flokka velji nauðsynlega það sem þeir telja koma Framsóknarflokknum best í könnun sem þessari.  Í könnuninni kemur til dæmis í ljós að í yngsta aldurshópnum snýst stuðningur við frambjóðendur við, en sá aldurshópur er oft minna bundin ákveðnum flokkum en aðrir.

Með könnun á meðal úrtaks sem þessa, er vonast til að megi hafa áhrif á þá sem mega greiða atkvæði um val á frambjóðendum.

Svona spunafréttir eiga líklega eftir að verða mýmargar, nú í aðdraganda prófkjara, forvala, uppstillinga og  auðvitað kosninga.

Hvað virkar og hvað ekki er erfitt að segja, stundum virkar svona spuni þveröfugt og kemur í bakið á viðkomandi.

En það getur verið hin besta skemmtun að fylgjast með og reyna að meta spunann.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband