20.10.2012 | 17:33
Auðvitað skiptir kjörsókn máli
Ég hef séð það hér og þar um netið í dag, að Já-sinnar reyna að gera lítið úr kjörsókn og tala eins og hún skipti í raun engu máli. Það séu þeir sem mæti á kjörstað sem ákveði niðurstöðuna.
En auðvitað skiptir kjörsókn gríðarlegu máli þegar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla, er vegin og metin. Kjörsókn skiptir líka gríðarlegu máli þegar tekin er afstaða til þess hvort að "þjóðin" hafi verið að kalla eftir nýrri stjórnarskrá, eins og ýmsum ríkisstjórnar og stjórnlagaráðsmeðlimum hefur verið tamt að fullyrða. Þeir hafa líka gengið býsna langt á köflum með að gefa í skyn fyrir að þeir töluðu í nafni hennar og tillaga þeirra nánast sprottin frá "þjóðinni".
Slök kjörsókn bendir til þess að "þjóðin" hafi hreint ekki verið að kalla eftir nýrri stjórnarskrá, heldur þvert á mót. "Þjóðin" hefur sýnt að hún mætir vel á kjörstað þegar atkvæði eru greidd um málefni sem hún lætur sig varða og telur mikilvæg.
En hitt er hins vegar alveg rétt að það eru þeir sem mæta á kjörstað sem taka ákvörðun og ráða niðurstöðum kosninga. Sveitarstjórn er alveg jafn réttkjörin, þó að fáir hafi mætt á kjörstað.
Þess vegna skiptir máli hver niðurstaðan er, hver svo sem þátttakan verður.
Þess vegna hvet ég alla til að mæta á kjörstað og segja nei.
En þar sem kosningin er aðeins ráðgefandi finnst mér ekki hægt að segja annað en að vægi hennar minnki með slælegri kjörsókn.
Allt undir 50% kjörsókn segir í mínum huga að "þjóðin" hafi alls ekki verið að kalla eftir nýrri stjórnarskrá. Kjörsókn rétt þar yfir getur ekki talist sterkt ákall þar að lútandi.
Eitt er svo að vilja nýja stjórnarskrá eða breytingar á núgildandi, það þarf alls ekki að þýða að viðkomandi vilji leggja þau drög sem stjórnlagaráð lagði fram sem grundvöll að nýrri.
Aðrir vilja svo hugsanlega halda í núgildandi, þannig geta verið margar mismunandi ástæður fyrir því að segja nei.
En að greiða ekki atkvæði getur ekki talist ákall um nýja stjórnarskrá.
Kjörsókn í SV-kjördæmi 19,6% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Facebook
Athugasemdir
Einhverjir eru líklega varir um sig eftir stjórnlagaþingskosningarnar.
Sjálfur kaus ég í þeim kosningum og hef siðan mátt hlusta á endalausa dellu um að Hæstiréttur hafi brotið á mér með ógildingu kosninganna og að með þátttöku minni hafi ég verið að lýsa yfir velþóknun á ferlinu og krefjast nýrrar stjórnarskrár eftir Þorvald Gylfason og félaga.
Þegar síðan var boðað til kosninga þar sem beinlínis þarf að túlka/spinna úrslitin var það fyrsta sem ég hugsaði að ég myndi ekki láta plata mig tvisvar.
Sjálfur ákvað ég ekki að kjósa fyrr en það var orðið ljóst að nei-hreyfingin var nægilega áberandi til þess að ekki væri hægt að stilla þátttöku upp sem stuðningsyfirlýsingu við hið skammarlega ferli málsins.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 18:11
Það hefur aldrei fyrr gerst á Vesturlöndum að kosningar hafi verið úrskurðaðar ógildar af Hæstarétti lands. Mætti halda að hér á landi hafi verið um einstaklega grófa vankanta að ræða, algerlega dæmalausa miðað við önnur Vesturlönd.
En þvert á móti voru annmarkarnir, sem Hæstiréttur fann, svo lítilvægir, að hvergi nema hér hefðu þeir verið notaðir til að ógilda kosningarnar.
Í hliðstæðu tilfelli í Þýskalandi var úrskurðað að úrslitin skyldu standa en annmarkarnir lagaðir innan tveggja ára.
Hæstiréttur Íslands úrskurðaði einungis um annmarkana, ekki um úrslitin.
Og nú vaknar spurningin í framhaldi af athugasemd Hans, hver plataði hvern?
Ómar Ragnarsson, 20.10.2012 kl. 18:49
43,9% þjóðarinnar tóku þátt í kosningunum um fullveldisstjórnarskrána 1918 og engan hef ég heyrt halda því fram að þær kosningar hafi verið marklausar.
Ómar Ragnarsson, 20.10.2012 kl. 18:50
Auðvitað skiptir miklu máli hver kjörsókn er, ekki síst þegar aðeins er um ráðgefandi kosningu að ræða.
Fullyrðingar um "þjóðin" hafi kallað eftir nýrri stjórnarskrá verða heldur hjáróma, ef meirihluti kosningabærra manna hefur ekki fyrir því að greiða atkvæði.
IceSave kosningarnar sönnuðu að kjörsókn getur verið með ágætum, ef "þjóðin" hefur áhuga fyrir málinu og finnst það áríðandi.
En eins og ég sagði í færslunni er niðurstaðan jafn lögmæt hver sem þáttakan er, rétt eins og í öðrum kosningum. En vægi "ráðgjafarinnar" er óneitanlega minna eftir því sem þátttakan verður minni.
Og fullyrðingar um að "þjóðin" hafi kallað eftir nýrri stjórnarskrá missa allan trúverðugleika ef að þátttakan er undir t.d. 50%.
Í mínum huga stendur fyrst og fremst eftir sú tilfinning að ferlið hafi verið gallað, keyrt áfram af of miklu offorsi og hraða, rétt eins og það ætti ekki að gefa tíma til að hugsa málið af gaumgæfni.
Persónulega finnst mér tillögur stjórnlagaráðsins slakar í heild sinni, þó þar megi finna margt gott.
Því lét ég mér nægja að segja nei við fyrstu spurningunni.
G. Tómas Gunnarsson, 20.10.2012 kl. 19:23
Kannski að fólk hafi ekki þótt tilefni til að mæta þegar forsætisráðherra hefur gefið það sérstaklega út að hún muni ráðast í þessar breytingar hvernig sem kosningarnar fara. Þannig er nú Samfylkingarlýðræðið. Lykilbreytingar hefur alltaf staðið til að gera til að liðka um fyrir inngöngu í ESB. Það er alfa og Omega í þessu öllu og rótin að málinu.
Hún tók af allan vafa um þennan sýndargerning og sirkús með yfirlýsingu sinni. Það kemur ekkert af þessu úr grasrótinni eða úr hjáta athyglishóranna og kverúlantanna, sem þetta ráð sátu. Listinn yfir breytingarnar var þegar til í upphafi árs 2009 og var meira að segja lögfestur sem viðfangsefni í lögum um stjórnalagaþing, sem síðan fór óbreyttur yfir í lög um stjórnlagaráð, sem NB var ekki þjóðkjörið heldur skipað af Jóhönnu með áróðursmeistara Samfó Þorvald Gylfason í fararbroddi. Hann birti strax mynd af kjörseðli og hann kom út og sýndi fólki hvar og hvernig hann vildi að það kysi.
Ef venjulegt fólk ser ekki í gegnum þetta hróplega rugl og athyglisfyllerí, þá verður mér illa brugðið. Vonandi hafa þó einhverjir haft sig á staðinn til að kjósa þetta út úr heiminum. Það var í raun nauðsyn svo ekki færi eins og fyrir stjórnlagaþingskosningunum, þar sem samfylkingarklíkan mætti ein á kjörstað og kaus sína áróðursmeistara rússnenskri kosningu.
Ómari Ragnarsyni hef ég endanlega misst alla trú á til frambúðar. Var hún þó ekki mikil fyrir. Alveg komið topp nóg af þeim manni og meira en það.
Jón Steinar Ragnarsson, 20.10.2012 kl. 19:58
Það er nú bara þannig Ómar að oft er ekki til nein endanleg og óumdeilanlega rétt túlkun á lögum. Þess vegna höfum við dómstóla og aðra úrskurðaraðila til að setja endahnút á lagadeilur.
Valdið til að úrskurða um gildi stjórnlagaþingskosningana var hjá Hæstarétti. Punktur.
Ef allir tækju upp þann sið að virða niðurstöður úrskurðaraðila aðeins þegar þeim finnst hún rétt væru í raun engin lög í landinu.
Mér þykir það með ólíkindum að nokkur hafi viljað hleypa manni sem ekki skilur þetta nálægt því að setja landinu stjórnskipunarlög.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.