Skynsemin kallar eftir nei-i

Í mínum huga er engin vafi á því að skynsamlegar vangaveltur um stjórnarskárdrög sem Íslendingar greiða atkvæði um í dag, kalla fram neitun á því að þær verði lagðar til fram sem grundvöllur fyrir nýja stjórnarskrá.

Ég vona að það sé niðurstaðan sem flestir hafi komist að, og greiði þannig atkvæði.

Þó vissulega sé ýmislegt sem nýta má úr tillögunum, tel ég engan grundvöll fyrir því að leggja þær til grundvallar nýrri stjórnarskrá sem heild.  Því þarf svo gott sem að byrja þá vinnu frá grunni.

Hér er smá kafli sem ég fá að láni frá grein Þorsteins Pálssonar, sem birtist á vef Vísis.  Þorsteinn kemst að þeirri niðurstöðu að umhugsun í 5 mínutur geti virkað til að fá einstaklinga til að segja já, lengri umhugsun ætti að fá þá til að hafna tillögunum.  Það skýrir ef til vill hvers vegna svo mikð er á sig lagt af hálfu ríkissjtórnarinnar og stjórnlagaráðsmanna að keyra málið í gegn á þessum hraða og með offorsi.  Þar er ekki vilji til að staldra við og gefa almenningi tækifæri til að hugsa. En Þorsteinn skrifar:

Auðlindaákvæðið er gott dæmi. Allir flokkar á Alþingi eru fylgjandi þeirri hugsun að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar. Ágreiningurinn snýst um hitt, hvort innan þeirra marka eigi að láta félagsleg sjónarmið eða kröfur um þjóðhagslega arðsemi ráða með hvaða hætti veiðunum er stýrt.

Leggja má skatt á útgerðina út frá réttlætissjónarmiðum og deila þeim peningum svo aftur til hennar og þeirra byggða sem í hlut eiga út frá öðrum réttlætissjónarmiðum. Almenningur nýtur einskis af því. Talsmaður Samfylkingarinnar í eldhúsdagsumræðunum síðastliðið vor fullyrti að nýja stjórnarskrárákvæðið tryggði þess konar stjórnun og útilokaði þjóðhagslega hagkvæmni. Ef það er rétt vaknar spurningin hvort skynsamlegt er að útiloka arðbæran sjávarútveg í stjórnarskrá.

Af þessu má ráða að einungis þetta eina ákvæði kallar á meir en fimm mínútna umhugsun. En þannig þarf að brjóta allar greinar stjórnarskrárhugmyndanna til mergjar. Slík umhugsun eykur hins vegar líkurnar á að svarið verði: Nei. 

Og svo aftur síðar í greininni:

Mikið hefur verið látið af því að nýju stjórnarskrárhugmyndirnar tryggi mönnum réttindi af ýmsu tagi umfram það sem þekkst hefur. Þar er ekki um að ræða hefðbundnar takmarkanir á möguleikum stjórnvalda til að skerða frelsi borgaranna. Nýmælin felast í réttindum sem kalla á stórlega aukin útgjöld úr ríkissjóði.

Enginn getur sagt til um hversu mikla útgjaldaaukningu nýju ákvæðin hafa í för með sér. Þegar ótakmörkuð réttindi til greiðslna úr ríkissjóði hafa verið fest í stjórnarskrá fá dómstólar endanlegt úrskurðarvald um það hvort almenn lög á því sviði fullnægi þeim og hversu mikið ríkisútgjöldin aukast. Hitt er víst eins og nótt fylgir degi að stórhækkun skatta er óhjákvæmileg afleiðing þessara góðu nýmæla.

Á öllum tímum er það höfuð deiluefni stjórnmálanna hversu hratt á að auka ríkisútgjöld. En hvort heldur menn kjósa varkárni eða róttækni á því sviði er varasamt að ætla dómstólum endanlegt úrskurðarvald um útgjöldin en lýðræðislega kjörnum fulltrúum það hlutverk eitt að afla tekna á móti. Heppilegri stjórnskipan er að ábyrgð á útgjöldum og öflun tekna sé á sömu hendi.

Áformin lýsa snotru hjartalagi en draga aftur á móti úr pólitískri ábyrgð og veikja lýðræðið. Er ekki ástæða til að gefa slíkri breytingu meir en fimm mínútna íhugun?

Það er þörf á mikið lengri tíma, ef gjörbylta á jafn mikilvægum hlut og stjórnarskrá lýðveldis.  Ég hvet Íslendinga til að senda frá sér þau skilaboð að þeir vilji taka sér þann tíma.  Ég hvet þá til að hafna því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband