2.10.2012 | 08:39
Evrópusamband atvinnuleysisins
Það er ekkert sem bendir til þess að atvinnleysi fari minnkandi í "Sambandinu". Þegar hlustað er t.d. á forsvarsmenn Evrópskra bílaframleiðenda, er ljóst að þeir sjá lítið nema erfiðleika og uppsagnir framundan. Þar er farið að tala um hugsanlega þörf fyrir aðstoð hins opinbera. Ástandið hjá framleiðendum er talið versna eftir því sem sunnar dregur í álfunni, enda þekkt að þær þjóðir hafa glatað drjúgum hluta af samkeppnishæfi.
Það er reyndar rétt að hafa það í huga að atvinnuleysi er afar mismunandi bæði innan "Sambandsins" og innan eurosvæðisins. Allt frá u.þ.b. 4.5% í Austurríki og upp í rétt ríflega 25% á Spáni.
En þegar atvinnuleysi nær slíkum hæðum, hlýtur eitthvað undan að láta. Ekkert samfélag stenst slíka raun til lengdar. Eymd atvinnuleysisins nær til allra. Verst út verður ungt fólk sem oft a tíðum sér enga aðra leið en flytja á brott. Það hjálpar í núinu, en gerir framtíðarýnina síst bjartari.
Sameiginlegur, of sterkur, gjaldmiðill hefur sett Spán í því líka klípu að fæstir vita til hvers bragðs á taka. Neikvæðir raunvextir og greiður aðgangur að lánsfé kyntu upp fasteignabólu sem ekki á sér margar hliðstæður. Byggingageirinn sogaði til sín fólk og fjármagn og allt virtist í lukkunar velstandi. Aðrar framleiðslugreinar gengu ef til vill ekki jafn vel, en það skipti engu máli, því sterkur gjaldmiðill gerði kleyft að flytja inn það sem þurfti á hagstæðu verði.
En allt tekur enda um síðar, líka fasteignabólur. Þegar "útflutningur" Spánverja á húsnæði hrundi og aðgangur þeirra að ódýru lánsfé skrapp saman um svipað leyti, hefði gjaldmiðill þeirra átt að láta undan síga. En það gerði hann ekki nema að litlu leyti, þar sem staða Þýskalands ræður gengi gjaldmiðils Spánar að miklu leyti.
En Þýskaland er hin hliðin á peningnum ef svo má að orði komast. Þýski gjaldmiðillinn er gengisfelldur í sífellu vegna tengingar Spánverja, Grikkja og fleiri við hann. Þar hefur atvinnuleysi dregist saman á undanförnum árum, enda Þýskar vörur eftirsóttar um víða veröld og hagstæðari í innkaupum nú, en ef gjaldmiðill þeirra hefði styrkst í samræmi við uppgang efnahags landsins.
Þjóðverjar búa einnig að breytingu á vinnumarkaðslöggjöf sinni, sem er orðin sveigjanlegri en er í flestum "Suðurríkjunum". Raunlaunahækkanir í Þýskalandi undanfarnin áratug hafa því sem næst ekki verið neinar, á meðan kostnaður margra annara ríkja hefur rokið upp. Þeim er þó vorkunn að sumu leyti, enda þegnum þeirra gjarna lofað að lífskjör myndu "renna saman" í "Sambandinu". Kannast Íslendingar við slík loforð?
Þjóðverjar búa sig nú undir (og hafa gert á undanförnum misserum) aukin straum innflytjenda til landsins og hafa staðið fyrir herferðum til að auka hann. Helstu markhóparnir eru betur menntað ungt fólk í þeim löndum "Sambandsins" sem atvinnuleysi er hvað hæst.
Það er ekki að undra þó að þeim fjölgi sem telja að Spánn þurfi á sinni eigin mynt að halda, jafnvel þó að þeir geri sér grein fyrir því að slíkt sé ekki án sársauka.
11,4% atvinnuleysi á evrusvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.