Áfengissala í matvörubúðum

Nú er ég búinn að vera hér í Eistlandi í rúman mánuð.  Eitt af því sem óneitanlega vekur athygli þess sem hefur dvalið lengstum á Íslandi eða Kanada (Ontario) er hve frjáls sala á áfengi er hér.

Áfengi er því sem næst til sölu allsstaðar.  Allar matvörubúðir bjóða áfengi til sölu og allar vikur eru tilboð á einstökum tegundum.  Flestar bensínstöðvar selja áfengi, fjölmargar sérverslanir eru með áfengi og þannig mætti áfram telja.  Einu takmarkarnir sem ég hef heyrt um á sölu áfengis, eru að bannað er að selja áfengi eftir kl. 10 á kvöldin.

Úrvalið er stórkostlegt, mismunandi frá verslun til verslunar og verðlagið hreint til fyrirmyndar.  

Sú röksemd heyrist oft á Íslandi, að þjónusta og úrval muni versna ef áfengissala yrði færði yfir til einkaaðila, en verslanirnar hér í Eistlandi afsanna það.  Margar matvöruverslanir bjóða upp á áfengi í úrvali sem gefur ÁTVR ekkert eftir.  Hægt er kaupa bjór frá ca 60 sentum, vodka frá u.þ.b. einu euroi (100ml) og upp í sverustu gerðir af koníaki sem kosta mörg hundruð euro.  Ein af betri matvöruverslununum sem ég heimsótti bauð til dæmis upp á Skoska vískiflösku sem kostaði 1900 euro.  Það er alltaf gaman að skoða :-)

Verðlagið er eins og áður sagði hreint til fyrirmyndar, en það er vissulega ekki eingöngu verslunum og samkeppni að þakka, heldur er hér hófleg skattlagning á áfengi af hendi hins opinbera.

Það breytir því þó ekki að alltaf eru í gangi tilboð og verðlækkanir og samkeppnin er hörð.  15 til 20% afslættir eru algengir og oft má gera góð kaup, ef áhugi er fyrir hendi.

Þá velta sjálfsagt margir fyrir sér hvort að aukið aðgengi hafi ekki ótal vandamál í för með sér.  Um það ætla ég ekki að fullyrða.  

Flestir hér virðast þeirrar skoðunar að vandamálin séu söm og þau hafi alltaf verið, áfengisvandamál hafi alltaf verið til staðar, ölvunarakstur sömuleiðis, en hart er tekið á ölvunarakstri og leyfilegt áfengismagn í blóð er 0.

En ég get ekki og ætla ekkert að fullyrða um slíkt hér, til þess hef ég ekki næga þekkingu á málinu.

En hitt get ég fullyrt, að samkeppnin tryggir gott úrval og verðsamkeppni sem skilar sér til neytandans hér, og það er þægilegt að geta kippt með sér vínflösku og nokkrum bjórum um leið og keypt er í matinn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í aðdáun þinni yfir glæsilegu úrvali á áfengi í Eistlandi samanborið við Ísland gleymir þú tvennu: landfræðilegri stöðu Íslands annarsvegar og hinsvegar því að Eistar eru fjórum sinnum fleiri en Íslendingar. Hið fyrrnefnda gerir að verkum að flutningskostaður á áfengi er mun minni en til Íslands og áhrif hins síðarnefnda þarf varla að útskýra fyrir þér.

Einnig hefur áhrif að Eistar drekka mun meira en Íslendingar, 15,57 lítra af hreinum vínanda á mann á ári. Aðeins Moldóvar, Tékkar, Ungverjar, Rússar og Úkraínumenn drekka meira. Íslendingar drekka 6,31 lítra á mann.

Við þetta er svo því að bæta að áfengisneysla er mikið vandamál í Eistlandi, ekki síst í ljósi þess hve mikið hún hefur aukist á undanförnum árum. Það er reyndar margsannað með rannsóknum að aukið aðgengi að áfengi (lægra verð, fleir sölustaðir o.s.frv.) þýðir fleiri vandamál (fleiri ofbeldisbrot / mannvíg, fleiri teknir ölvaðir við akstur, fleiri neyslusjúkdómar / geðsjúkdómar, fleiri félagsleg vandamál og svo má telja.

Hversemer (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 18:42

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er ekki allt sem sýnist í þessu sem svo mörgu öðru.

Það er varla mikið ódýrara að flytja áfengi frá Chile, Canada eða Californiu til Eistlands heldur en Íslands, eða hvað?

Sala á áfengi í einu landi segir heldur ekki alla sögu um neyslu áfengis í því landi.  Hver sá sem hefur ferðast með ferjunum (sem sigla í tugatali á hverjum degi) á milli Eistlands og Finnlands, skilur að stór hluti þess áfengis sem seldur er í Eistlandi eru ekki drukkin í Eistlandi, en það hjálpar auðvitað upp á að bjóða betra úrval.  Svipaða sögu er að segja af ferjum sem sigla til Svíþjóðar.

Þau innkaup er þó auðvitað að miklu leyti "einföld" í sniðum, þ.e. bjór og vodki, en vissulega fara þau ábyggilega yfir allan skalann.

Ég ætla hins vegar ekki að neita því að vissulega eiga Eistlendingar við ýmis vandamál að stríða varðandi áfengi.

Hitt er svo alls ekki óumdeilt og ýmsar rannsóknir sem benda í aðrar áttir en að aukið aðgengið auki áfengisneyslu.  Þar sem t.d. fróðlegt að skoða ýmsar stúdíur í Kanada, þar sem mismunandi söluform eru notuð, t.d. í Ontario, Quebec og Alberta, en skert aðgengi hefur alls ekki skilað sér í minni söluaukningu.  Þar er frelsið mest í Alberta, millistigið í Quebec, en  minnsta frjálsræðið í Ontario.

Sjá tölur um áfengisneyslu hér.

Ef ég man rétt er talað um að áfengisútölustaðir per íbúa, séu 7sinnum fleiri í Alberta en Ontario.

G. Tómas Gunnarsson, 21.9.2012 kl. 20:15

3 identicon

Þú gerir semsagt ráð fyrir því að það sé jafn dýrt að flytja áfengi frá Chile og til Eistlands? Kannski áttar þú þig ekki á því að áfengi frá Chile er umskipað, t.d. í Rotterdam, áður en það er sent til Íslands með skipi eða flugi, en sett í vörubíl eða lest sem flytur það til Eistlands (og ýmissa landa á leiðinni). Svo skiptir það máli að markaður í Eistlandi er nokkrum sinnum stærri en á Íslandi, en slíkt, eins og flestir vita, hefur jafnan áhrif á vöruúrval og verð.

Mér sýnist þú svo gera því skóna að mat opinberra stofana á því hve mikið sé drukkið í Eistlandi sé ekki rétt. Ég er alveg til í að trúa því ef þú bendir á rannsóknir sem styðja þá staðhæfingu.

Hvað skaðann varðar þá er obbi vísindamanna, vissulega ekki allir, á því að aðgengi skipti máli og gaman að geta þess að þegar kreppan skall á á Íslandi dróst áfengissala mikið saman og sjá: Vandamálum fækkaði (ofbeldisglæpum, ölvunarakstur o.fl.).

Víst er það svo að hegðunarmynstur manna er efitt eða ógerningur að greina fullkomnlega með rannsóknum, en þær skýringar að minna aðgengi = minni sala og minni sala = færri vandamál eru óneitanlega trúverðugar, ekki satt?

Hversemer (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 21:32

4 Smámynd: Björn Emilsson

Kannske vill þessi ´Hversemer' banna alla afengisölu og neyslu áfengis eins og var gert illu heilli í Bandaríkjunum á sínum tíma. Aðgerð sem kom á stað mestu glæpaöldu sem um getur og sér ekki fyrir endan á ennþá. Má geta þess hér, að sala á sterku áfengi var gefin frjáls fyrir skömmu hér í Washington fylki, eftir ´þjóðaratkvæðagreiðslu´ . Sterkt áfengi er nú selt í öllum verslunum, bensinstöðvum ofl stöðum. Ekki liggur fyrir nein statikstik ennþá. En fólki líkar þetta vel. Vín og bjór hefur aftur á móti verið fáanlegt í almennum verslunum lengi.

Björn Emilsson, 21.9.2012 kl. 23:45

5 identicon

"Verðlagið er eins og áður sagði hreint til fyrirmyndar, en það er vissulega ekki eingöngu verslunum og samkeppni að þakka, heldur er hér hófleg skattlagning á áfengi af hendi hins opinbera"

Það er borðliggjandi að áfengisverð mundi hækka á Íslandi ef það væri selt í Hagkaup nema ríkið lækkað sínar álögur.  Í Danmörku þá er nú úrvalið af bjór og rauðvín ósköp lítið í flestum verslunum.

Grímur (IP-tala skráð) 22.9.2012 kl. 05:43

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er ekki einfalt að reikna út hve mikil áfengisneysla er á ákveðnu svæði, þegar vitað er að mikið af áfengi er flutt annað.  Hvernig skyldi sá útreikningur fara fram?

Þetta á ekki bara við um Eistland.  Í Ottawa (sem er í Ontario) fara flestir yfir til Quebec (þar sem er meira frjálsræði) til að kaupa áfengi.  Hvernig skyldi það vera reiknað.

Á Íslandi hefur ferðamannastraumur stóraukist.  Ferðamenn fylla veitingahúsin og borða mikið af mat og ekki ólíklegt að þeir séu sérstaklega hrifnir af fiski.  Skyldi það standa á bakvið aukningu í léttvínssölu á Íslandi, en þar hefur hvítvinssala aukist sérstaklega.   Hvernig skyldi það vera reiknað út þegar alkóhólítrar á íbúa eru reiknaðir.  Hefur "hversemer" formúluna fyrir það?

Það er varasamt að einblína um of á tölfræði, mannleg hegðun verður ekki alltaf skýrð með tölum.

Þó að ég sé ekki sérfræðingur í "logistics", þykir mér líklegt að vcín frá Chile fari í skipi frá Rotterdam, bæði til Íslands og Eistlands.  Það er alla vegna vonandi, því allir segja að það sé ódýrasti mátinn og lestarsamgöngur til Eistlands frá Evrópu eru ekki það góðar.

Grímur segir að úrvalið sé ekki gott í verslunum í Danmörku, sem er þó mun stærra markaðssvæði en Eistland.   Það rennir ekki stoðum undir kenningu "hversemer" að úrvalið sé fyrst og fremst að þakka meiri mannfjölda, eitthvað annað hlýtur að koma til.

Það er heldur ekkert sem segir að úrvalið á Íslandi yrði gott, ef áfengissala yrði leyfð í matvöruverslunum á Íslandi, en dæmið frá Eistlandi sýnir að það ætti alveg að geta verið það.  

Auðvitað fer það fyrst og fremst eftir metnaði verslunareigenda og viðtölum neytenda, það er hvað þeir kaupa, hvað dýrt vín þeir munu kaupa o.s.frv.

Það er líka rétt að hafa í huga að kaupgeta Íslendinga er mikið hærri en Eistlendinga, en verðlagið á víni er sömuleiðis allt annað.  

G. Tómas Gunnarsson, 22.9.2012 kl. 07:31

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú ert auðvitað að tala um stórReykjavíkur svæðið.  En gleymir litlu stöðunum úti á landi, hversu mikið úrval heldurðu að geti verið í kaupstað sem telur 5000 íbúa?  Tvær matvöruverslanir og segjum7 sjoppur.  Ég get alveg sagt þér að það yrði eitthvað úrval fyrstu vikurnar, en fljótlega myndi því úrvali fækka niður í það sem fólk kaupir mest af, vodka bjór og rauðvínsbelju.  Gott viský er nokkuð ljóst að yrði það fysta sem færi.  koniak hyrfi sennilega þó fljótar.  Sölumenn á smástöðum úri á landi hefði einfaldlega ekki efni á að sitja uppi með góð vín sem víngæðingar vilja, sem jafnvel drekka hóflega og sjaldan en vilja fá sitt sérstaka vín þegar þeim hentar.

Þá værum við sennilega fljótlega komin upp í gömlu póstverslunina eins og hún var hér í dag með tilheyrandi rosalegum flutningskostnaði hjá póstinum. 

Nei takk ég vil hafa mitt ríki þar sem ég get farið þegar mér dettur í hug og keypt það vín sem mig langar í, í það og það skiptið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.9.2012 kl. 12:58

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Í den en ekki dag átti þetta að vera.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.9.2012 kl. 12:59

9 identicon

Hef búið á Spáni um tíma og sé aldrei vín á nokkrum manni (spánverjum) , en útlendingarnir, margir hverjir, eiga erfitt, enda bara í sumarfríi.

Hér kostar ein flaska af rauðvínssýru 1 evru, en þokkalegt rauðvín kostar frá þremur evrum. (480 kr.). Flestir íslendingar hafa ekki smekk fyrir vín og drekka það ódýrasta t.d. úr belju á 3.50.

Vínúrvalið, bara hér í Consum, er mun meira en í ríkinu og svo eru allt aðrar tegundir í hinum supermörkuðunum. Úrvalið er endalaust.

Nú þ. 26. sept. opnar nýtt moll hér, sem heitir Zenia Bouolevard, aðeins 180.000 m2 með yfir 280 verslunum og annarri þjónustu. Þar verður örugglega nóg vínúrval. Hér seljast fasteignir eins og heitar lummur. Já, það er víst kreppa á Spáni, eða þannig.

V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 22.9.2012 kl. 13:45

10 identicon

Ég vildi að ég hefði ríkið sem þú hefur og getur farið þegar þér dettur í hug og keypt það sem þig langar í,,ríkið sem mér er boðið uppá er t.d lokað á sunnudögum og er opið mjög takmarkað aðra daga,,,segðu mér endilega hvar þitt ríki er

casado (IP-tala skráð) 22.9.2012 kl. 15:56

11 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ríkið hjá er auðvitað lokað á sunnudögum, en opið á laugardögum og alla hina dagana.  Þetta kallast útúrsnúningur Casado.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 22.9.2012 kl. 18:01

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má vel vera að úrval af vínum myndi eitthvað minnka á Ísafirði, ef einkaaðilar sæu um verslunina, um það ætla ég ekki að fyllyrða.  Líklega má þó deila um hvort að eitt af mikilvægustu verkefnum hins opinbera sé að tryggja hæfilegt úrval af áfengi í hinum dreifðu byggðum, með tilheyrandi kostnaði.

Gæti það til dæmis hugsast að í Reykjavík séu til fleiri og dýrari tegundir af sælgæti, en fást á Ísafirði?  Er eðliegt að krefjast þess að hið opinbera leiðrétti þann mun?

En ég hygg þó að Vestfirðingar séu ekki verri bisnessmenn en aðrir, og þeir sæu að auðvitað myndu þeir bjóða upp á það sem eftirspurn væri eftir.  Þannig virka góðar verslanir og góðir bisnessmenn.

Til þess að svo mætti verða yrði samstarf smásala og heildsala að vera gott.  Það er til dæmis áberandi hér í Eistnesku verslununum, að dýru vínin eru ekki í mörgum eintökum í hillunum, heldur aðeins 1 til 3 stykki.  Augljóslega er ekki keypt inn í "kassavís", heldur reynt að auka úrvalið, með hnitmiðaðri innkaupum.  Stór og dýr vín á  "lager" kosta auðvitað mikla peninga.

Ég vil svo þakka öllum sem hér hafa lagt orði í belg, mér þykir mikill fengur af fólki sem setur fram skoðanir sínar í athugasemdum, jafn skemmtilega og hér er gert.  Án stór og gýfuryrða.  Alltaf gaman að slíku.

G. Tómas Gunnarsson, 23.9.2012 kl. 07:10

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Því má bæta hér við, að ég get ekki tekið undir þá fullyrðingu að það sé borðliggjandi að verð á áfengi myndi hækka ef sala þess yrði færð til einkaaðila.

Sú fullyrðing virðist gefa í skyn að verslanir ÁTVR séu reknar með tapi, því varla tekst þeim að reka verslanir með minni kostnaði en einkaðilum er kleyft, að öllu jöfnu.

Hitt er svo að ég hef ekki heyrt um að áfengi hafi hækkað í verði til vínveitingastaða, eftir að dreifing til þeirra færðist til heildsala.

Sé ekki að það ætti frekar að gilda um dreifingu til almennra neytenda.

G. Tómas Gunnarsson, 23.9.2012 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband