Af vöxtum og þjónustugjöldum

Það hefur mikið verið rætt um vexti og hvað þeir eru háir að Íslandi.  Hafa margir verið þeirrar skoðunar að þeir séu alltof háir.  Persónulega hef ég þó verið þeirrar skoðunar, eins og hefur mátt lesa á þessu bloggi, að þó að þeir séu háir þá sé það af eðlilegum ástæðum.

Ég er þó ekki frábrugðinn öðrum að þvi leiti að ég vildi gjarna hafa lægri vexti á lánunum mínum, en hærri á inneignum mínum.  Ég geri mér þó grein fyrir að það tvennt fer illa saman, alla vegna í sama efnahagsumhverfinu.

Ég horfði svo á Kastljósið í fyrrakvöld (fimmtudag) og sá þá Sigurjón Landsbankastjóra og Ögmund úr Vinstri grænum kljást.  Það var ójafn leikur.  Sigurjón var svo ólíkt áheyrilegri og færði mun betri rök fyrir máli sínu.  Ögmundur fór svo að tala um 5% lántökugjöld (ég hef aldrei heyrt minnst á svo há gjöld, þó ekki geti ég fullyrt að þau séu ekki til) og virtist telja það bönkunum til foráttu að styðja listir á Íslandi.  Skrýtinn málflutningur.

Það er óskandi að Ögmundur leggi fram dæmi, máli sínu til stuðnings á næstunni.

En bankar græða ekki á háum vöxtum, þeir hagnast á vaxtamun.  Það er þeim mun sem þeir geta lánað peninga frá sér á og því sem þeir "kaupa" peninga til sín á.

Vextir hér í Kanada eru ekki ósvipaðir og á Íslandi.  Neyslulán á kreditkortum eru algeng frá 18 til 23% og húsnæðislánavextir eru algengir frá 5.5 til 8.5% eftir eðli lána. Það er enginn verðtrygging. Þetta eru vextir  í landi þar sem verðbólgan á síðasta ári var eitthvað um 2.2%.

Ég horfði síðan á Kastljósið í gærkveldi (föstudag) og sá þar spyril sem talaði eins og allir hefðu yfirdrátt og varð hvumsa við þegar annar viðmælandi hans sagðist ekki vera með neinn yfirdrátt og hinn spurði á móti hvers vegna almenningur væri með yfirdrátt.

Ef til vill er það partur meinsins.  Allt of margir virðast líta á það sem sjálfsagðan hlut að að skulda, vera með yfirdrátt.  Og það sem meira er, þeir virðast líta á það sem óaðskiljanlegan hluta af tilverunni, þeir vilja lægri vexti, en virðast síður vinna í því að losa sig við yfirdráttinn.

Það er auðvelt fyrir stjórnmálamenn að segja að vextir séu of háir, það fellur í kramið hjá kjósendum, enda þeir sem skulda að öllum líkindum mun fleiri en þeir sem eiga fé á vöxtum.  Fleiri atkvæði.

En þó að ég hafi oft sagt að vextir séu ekki óeðlilega háir á Íslandi er það ekki það sama og vera þeirrar skoðunar að vextir megi ekki vera lægri á Íslandi, eða að bankarnir séu vængjaðir englar.

Ég hef áður ritað um að lántökugjöld séu ógnarhá á Íslandi, og í raun ekkert annað en forvextir.  Þegar lántöku- og stimpilgjöld eru lögð saman geta þau í raun gert það að verkum að það borgar sig ekki að taka nýtt lán og greiða upp eldri, þó að töluvert betri vaxtakjör bjóðist.  Uppgreiðslugjöld virka að sjálfsögðu á sama máta, en það getur þó borgað sig að taka lán með slíkum gjöldum, ef verulega betri vextir bjóðast.

Stimpilgjöld eru á ábyrgð hins opinbera og það hlýtur að vera krafa að þau verði felld niður hið allra fyrsta.

Það er einnig þörf á því að athuga þjónustugjöld.  Það er til dæmis umhugsunarvert hvers vegna það er ókeypis fyrir neytandann að nota kreditkort en ekki debitkort.  Það er umhugsunarvert hvers vegna %prósentugjald leggst á söluaðilann þegar debitkort eru notuð (kostar það meira að færa 100.000 á milli reikninga en 10.000?).  Það er umhugsunarvert hvers vegna posakerfið, sem hlýtur að spara og einfalda stórlega í bankakerfinu, kostar notendur þess svona mikið fé, þegar það kostar ekkert að vera með peningaseðla. 

Það er einnig þörf á að huga að Reiknistofnun bankanna, sem er líklega hjartað í Íslenskri bankastarfsemi, þ.e.a.s. innanlands.  Það þarf að vera skýrt að hver sá nýr aðili sem fær leyfi til starfrækslu banka á Íslandi eigi rétt á þjónustu og eignaraðild að Reiknistofnuninni, því eftir því sem mér er sagt, er enginn vegur að starfrækja bankastofnun í samkeppni á Íslandi án þess að eiga greiðan aðgang að kerfi stofnunarinnar.

Það er að mínu mati skrum að segja að vextir séu alltof háir á Íslandi.  Hið rétta er að verðbólga er of há á Íslandi, verðbólgan gerir það að verkum að stýrivextir eru of háir á Íslandi og að höfuðstóll lána bólgnar út. 

Húsnæðisvextir eru í kringum 5% á Íslandi, og þætti líklega fæstum ofrausn ef verðbólgan væri hófleg.  Það er ekkert undarlegt þó að vextir á eyðslulánum, s.s. yfirdrætti séu háir, slíkt er á engan hátt óeðlilegt. 

 Hitt er svo líka þarft að taka í reikningin, að stimpilgjöld og lántökugjöld, geta gert yfirdráttarlán ákaflega hagstæð, ef þörf er á láni í skamman tíma, því slíkir "forvextir" skekkja myndina og hamla samkeppni.  En yfirdráttarvextir eru (eða voru ekki upphaflega) hugsaðir sem lán til lengri tíma.


mbl.is Viðskiptaráðherra: vextir óeðlilega og hættulega háir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gullit

Sæll Meistari.

Þetta var ójöfn viðureign þegar Ömmi rauði var settur í gin ljónsins.

Það eina sem Ömmi rauði uppljóstraði var í raun pirringum hans og hans líka að það væri í raun búið að einkavæða bankana.  Hann vildi sem sagt meina að bankinn ætti að borga almenningi sinn hlut í gróðanum, ehhemm þessir bankar eru almenningshlutafélög og það er hverjum sem er heimilt að fjárfesta í þeim kjósi þeir svo.  Ég þekki ekkert fyrirtæki sem endurgreiðir viðskiptavinum sínum ef það hagnast vel.  Hitt er svo annað mál að bankar gætu tekið það upp á sitt einsdæmi að gera betur við íslenska viðskiptavini sína kjósi þeir það.  Þetta var fín rimma í kastljósinu.  Sambærileg rimma í Íslandi í dag var spaugileg eða vandræðaleg fyrir þann þátt í samanburðinum.

Gullit, 18.2.2007 kl. 00:07

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ögmundur kom einfaldlega út eins og kjáni, sem ég þó trúi ekki að hann sé.

En það er erfitt hlutskipti að vera í þeirri stöðu að vilja jafna þjóðfélagið neðan frá.  Það er auðvitað "ódýrast" af öllum pólítískum "keilum" að taka afstöðu með þeim sem skulda og á móti "hinu illa fjármagni".  Þeir eru fleiri sem skulda en þeir sem

G. Tómas Gunnarsson, 18.2.2007 kl. 01:06

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

eiga fé á vöxtum.  Fyrir svo utan þá sem trúa á "Das Kapital", og eiga erfitt með að stíga inn í 20ugustu öldina, hvað þá þá 21stu.

G. Tómas Gunnarsson, 18.2.2007 kl. 01:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband