Grikkland: Inn og út um gluggann

Það virðist miða bæði afturábak og áfram í viðræðun Evrópusambandsins við Grikki.  Fréttir eru svolítið sitt á hvað.

Ástandið er enda erfitt viðureignar, svo ekki sé sterkara að orði kveðið.  Enginn veit hvað kemur til með að gerast eftir kosningarnar sem stendur til að halda í apríl.  Það er varla að nokkur viti hvað getur gerst þangað til. 

Það hefur enda flogið fyrir að sum euroríkin vilji gera það að skilyrði að kosningunum verði frestað.  Hljómar ekki óskynsamlega, en spurningin er hvort að ástandið í Grikklandi þolir frekari misbeitinug á lýðræðinu?

Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands lét hafa eftir sér að hann kærði sig ekki um að henda peningum í botnlausan pitt.  En eins og oft áður eru skiptar skoðanir um hvað þurfi að gera til að setja botn í Grikkland, sömuleiðis um hvort það tekst áður en Grikkland nær botni.

Venizelos, fjármálaráðherra Grikkja, er í þeirri stöðu að afar ólíklegt er að hann verði í þeirri ríkisstjórn sem tæki við eftir fyrirhugaðar kosningar.  Hann lét hafa eftir sér í daga að það væru margir á eurosvæðinu sem vildu Grikkland út af svæðinu.  Hann sagði marga leika sér að eldinum, bæði heima fyrir og erlendis.

En það eru líka fleiri og fleiri sem telja að sú áætlun sem nú er unnið eftir gangi aldrei upp.  Samdrátturinn í Grikklandi sé orðinn það mikill og ekkert í þeirri áætlun sem er í gangi stöðvi það.  Samdráttur í landsframleiðslu í Grikklandi er nú u.þ.b. 13%, spáð er að samdrátturinn í ár verði allt að 7% stigum til viðbótar.  Hraði samdráttarins hefur aukist.  Atvinnuleysið hefur sömuleiðis ekki gert neitt nema að bæta í.

Kröfur um "landstjóra", eða að "þríeykið" verði til frambúðar í Grikklandi, eða að stofnaðir verði sérstakir reikningar til að tryggja endurgreiðslu Grikkja á lánum, eiga að tryggja að Grikkir stingi ekki undan fé.  En það tryggir ekki að þeir verði borgunarmenn fyrir skuldunum.

Það sem aldrei er talað um er hvernig standa eigi að því að koma Grísku efnahagslífi af stað aftur, hvernig eigi að efla von og trú.  Það er enda það sem hefur misfarist svo illa síðan "Sambandið" tók yfir efnahagsstjórnina hjá Grikkjum, leiðin hefur aðeins legið niður á við.

Það er alveg ljóst að þeim fer fjölgandi á meðal eurolandanna sem vildu ekkert frekar en að sjá Grikkland yfirgefa sameiginlegu myntina.  Það treystir sér hins vegar enginn til þess beinlínis að henda þeim út.  Grikkir yrðu að fara af sjálfsdáðum, eina leiðin til þess er að setja óaðgengileg skilyrði.

En þetta er undarleg staða.  Smá ríki í efnahagslegum skilningi, eins og Grikkland er, heldur sér mikið stærri ríkjum í ógnarstöðu, því enginn veit hvað gerist ef þeir ákveða að yfirgefa euroið, þó að ýmsir telji það nú skársta kostinn.  Þó að ástandið sé mun betra en var, er "eldveggurinn" ennþá óbyggður og hræðslan um að önnur ríki fylgi á eftir er enn til staðar.  Nú er talið næsta öruggt að Portúgal þurfi frekari aðstoð og Ítalíu gengur verr en vonast var til

En eitt verða euroríkin þó ekki sökuð um, þau trassa ekki að halda fundi.  Þeir skila bara litlum sem engum árangri.


mbl.is Árangur í viðræðum við Grikki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband