24.1.2012 | 17:06
Björt framtíð með Ólafi Ragnari og Lilju Mósesdóttur?
Kannanir sem þessi segja ekki mikið, en þó eru alltaf í þeim "korn" sem vert er að gefa gaum. Það segir ekki mikið að einhver geti hugsað sér að kjósa einhvern flokk sem er varla eða ekki kominn á koppinn. Enginn veit hver stefnumálin eru eða hverjir verða í framboði. Eða hvort flokkurinn býður raunverulega fram.
En það gefur nokkra vísbendingu hve margir virðast alls ekki geta hugsað sér að kjósa viðkomandi flokk út frá þeim litlu staðreyndum sem eru þekktar. Raunar lítið meir en einn forystumaður fyrir hvern flokk.
Það vekur líka athygli að Björt framtíð virðist strax vera farin að tapa hugsanlegum kjósendum, því þegar svipuð viðhorfskönnun var gerð á síðasta ári sagðist um þriðjungur geta hugsað sér að kjósa þá óskírðan flokkinn. Síðan hefur þeim fækkað um u.þ.b. 10 prósentustig sem geta hugsað sér að styðja flokk Guðmundar Steingrímssonar. Hvort að það er nafngiftin, framganga forystumannsins eða eitthvað annað sem fælir frá flokknum, ætla ég ekki að dæma um.
Persónulega hef ég enga trú á því að Ólafur Ragnar ætli sér að leiða flokk í næstu kosningum, en þessi niðurstaða sýnir að þó nokkur hópur myndi styðja hann til þess.
Þessi könnun kemur nokkuð vel út fyrir Lilju Mósesdóttur og hennar hugsanlega flokk. Hennar flokkshugmynd hefur ekki fengið nálægt því jafn mikla fjölmiðlaumfjöllun og Björ framtíð, en stendur henni þó jafnfætis í könnuninni. En það er eitt að geta hugsað sér að kjósa og merkja við bókstaf þegar komið er í kjörklefann. En taka þátt í framboðinu er auðvitað lykilatriði, ef framboðið á annað borð verður að veruleika.
Hægri grænir eru ekki að ná neinu flugi í þessari könnun, persónulega sé ég ekki eftirspurninga eftir þeim flokk.
En þessi könnun gefur vísbendingar í þá átt að vinstri vængur stjórnmálanna sé allur í uppnámi og mikil hreyfing á fylgi sé hugsanleg, þó að vissulega sé allt of snemmt að spá eitthvað ákveðið um það. Ríkisstjórnarflokkarnir eiga á hættu gríðarlegt fylgistap. Samkvæmt könnuninni á Framsóknarflokkur sömuleiðis á hættu að tapa miklu fylgi, en ef framboð Ólafs Ragnars (sem ég tel eins og áður sagði afar ólíklegt) er tekið út, þá er staða Framsóknarflokksins mikið mun sterkari.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur sömuleiðis vel með sitt fylgi, sérstaklega ef Ólafur Ragnar er tekinn út fyrir sviga, ef svo má að orði komast.
Ef fer sem horfir verður því afar hörð barátta á vinstri vængnum í næstu kosningum. En nýju framboðin gætu haft mikil áhrif í þá átt að halda atkvæðum á þeim væng, rétt eins og margir hafa talið að leikurinn sé gerður til í tilfelli Bjartrar framtíðar.
En eins og áður sagði, segir ekki mikið að þessi eða hinn geti hugsað sér að kjósa flokka sem varla eða ekki hafa verið stofnaðir, hvað þá mannaðir. En það er gaman að spá í spilin.
Margir gætu hugsað sér að kjósa ný framboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er eðlilegt að Lilja komi vel út úr þessari könnun, enda veit venjulegt fólk að Lilja hefur verið öflugur talsmaður fyrir hönd hinna óbreyttu og niðurníddu Jóns og Gunnu:
http://liljam.is/januar-2012/skommin-er-theirra/
Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 24.1.2012 kl. 17:32
Þetta eru góðar fréttir allavega eins og er, og vissuleg til þess fallið að rífa þjóðina upp úr hjólfarinu.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.1.2012 kl. 17:40
Persónulega finnst mér það ekki stórkostlegur árangur að u.þ.b. 23% geti hugsað sér að styðja flokk sem ekki er kominn á koppinn. Það þýðir að u.þ.b. 77% getur alls ekki hugsað sér að styðja flokk sem Lilja Mósesdóttir kemur að, því ekki eru aðrir frambjóðendur að fæla frá eða framsett stefnumál. Það sama gildir að mestu um Guðmund Steingrímsson.
En vinstri vængurinn er allur í uppnámi, þar eru vissulega til glufur sem hægt að er næla sér í drjúgt af atkvæðum. En ríkisstjórnarflokkarnir eru í stórum vandræðum, en allt of senmmt að afskrifa þá, enda er fólk gjarna ótrúlega fastheldið þegar í kjörklefann er komið. Þess vegna finnst mér 23% sé ekki mikið, sérstaklega þegar haft er í huga orðalagið að geta hugsað sér.
G. Tómas Gunnarsson, 24.1.2012 kl. 18:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.