22.1.2012 | 00:29
Einn aðili leggur 300 milljónir í kosningabaráttu
Íslendingar hafa á undanförnum árum sett sér nokkuð strangar reglur um fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, bæði fyrir prófkjör og kosningar.
Nú hefur Ísland sótt um aðild að Evrópusambandinu. Ef fer sem flestir búast við að á einhverjum tímapunkti náist samningur verður hann lagður undir Íslensku þjóðina í atkvæðagreiðslu, þó aðeins ráðgefandi sé.
Nú bregður svo við að einn aðili hefur tilkynnt að hann ætli að leggja 300 milljónir í kostnað til að afla annari hliðinni í þeim kosningum stuðnings. Hann er í þokkabót erlendur.
Það er örugglega einsdæmi að einn aðili leggi slíka upphæð í kosningabaráttu á Íslandi, það er líklega einnig einsdæmi að erlendur aðili, ríki eða ríkjasamband blandi sér í kosningabaráttu með þessum hætti.
Líklega verða engin lög sett um fjáraustur í þessa kosningabaráttu, það er enda erfitt þegar kosningar hafa ekki verið ákveðnar, en baráttan er hafin.
Vinstri stjórninni virðist ekki finnast neitt óeðlilegt við að erlendur aðili blandi sér í baráttuna með risafjárhæðum. Þau horfa á með velþóknun. Þeim virðist finnast erlendi íhlutun í innanríkismál eðlileg. Í huganum eru Jóhanna og Steingrímur líklega þegar gengin í "Sambandið".
En ákvörðunin verður Íslendinga einna, það ætti kosningabaráttan að vera sömuleiðis. Erlendir aðilar eiga ekkert erindi í Íslenska kosningabaráttu.
Það er ógeðfellt að horfa upp á erlent ríkjasamband blanda sér í innbyrðis baráttu Íslendinga með þessum hætti.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Evrópumál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.