15.1.2012 | 01:50
Hvert flytur krónan fé?
Gjaldmiðilsmál eru mikið rædd á Íslandi þessi misserin. Það er eðlilegt enda gjaldmiðill mikilvægt tæki í efnahagslífi hvers lands.
Gengisfelling eða gengisfall er ekki vinsæll atburður. Gengið fellur, innfluttar vörur hækka í verði, dýrara er að ferðast erlendis o.s.frv. ´
Ýmsir tala um að gengisfall flytji verðmæti frá launþegum til atvinnurekenda. Það er auðvitað ekki rangt, en það segir ekki nema hálfan sannleikann. Slíkt er reyndar nokkuð vinsælt í Íslenskri umræðu, það er að segja aðeins hálfan sannleikann.
En gengisfall flytur ekki síður fé frá launþegum til launþega.
Þegar gengið fellur batnar hagur útflytenda sem og innlendra framleiðenda sem keppa við innfluttar vöru. Fleiri fá atvinnu, en að vísu með lægri kaupmátt, sérstaklega á innfluttar vörur.
Það þarf ekki að leita langt til að finna lönd sem eru með "stabílli" mynt, en hafa glatað samkeppnishæfni sinni og atvinnuleysi hefur rokið upp.
Hvað væri atvinnuleysi á Íslandi ef myntin hefði ekki gefið eftir, frá því sem var árin 2007-2008? Er það hlutskipti sem Íslenskir launamenn myndu kjósa sér?
Væri atvinnuleysið á Írskum, Grískum, Ítölskum eða Spænskum "stabílum" grunni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
"Ýmsir tala um að gengisfall flytji verðmæti frá launþegum til atvinnurekenda"´
Má ekki með sömu rökum segja að of hátt gengi snúi þessu við?
Við sáum í aðdraganda hrunsins hverjar afleiðingar of hás gengis eru. Heldur finnst mér það einhliða söguskýring,sem oft er haldið á lofti, að segja að hér áður fyrr hafi gengið verið fellt til að "redda" útgerðinni á kostnað launþega.Var ekki áður búið að halda genginu of háu til að "redda" launþegum á kostnað undirstöðuatvinnuveganna?
Hitt er annað mál að það hlýtur að slæva eðlilega kostnaðarvitund allra aðila þetta flökt með gengið,þessar gerfi reddingar, ekki síður en verðbólgan.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 15.1.2012 kl. 10:16
@Bjarni, það er auðvitað hárrétt hjá þér. Of hátt gengi flytur auðvitað fé í hina áttina, frá útflutningsvegunum og til innflutnngsaðila og neytenda. Það þýðir líka oft að færri launþegar hafa atvinnu og því má segja að of hátt gengi flytji fé frá hluta þeirra.
Að því marki er gengi eins og rör sem flytur verðmæti eftir því í hvaða átt dælurnar ganga. En verst er auðvitað þegar gengið tekur ekkert tillit til efnahagsástandsins í viðkomandi landi. Því eru ýmsar euroþjóðir að kynnast.
Annað sem er býsna merkilegt í umræðunni er að margir tala eilíflega eins og ástndið í efnahagsmálum á árunum 2005 til 2008 sé "normið". Það ástand þurfi að endurheimta, þeim kaupmætti hafi verið "rænt" af launþegum. Fæstir vilja tala um að það hafi ekki verið eðlilegt ástand.
G. Tómas Gunnarsson, 15.1.2012 kl. 14:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.