Hættuleg brjóst

Ég hef ekki komist hjá því að verða var við hina umfangsmiklu umræðu um sílíkonfyllingar sem hefur átt sér stað á Íslandi undanfarnar vikur.  Öllu jöfnu er þetta utan míns áhugasviðs, en umfjöllunin nú hefur þó ýmsa áhugaverðar snertingar.

Auðvitað á hið opinbera að taka á móti þeim konum sem kunna að vera í hættu rétt eins og öðrum þeim sem leita til heilbrigðiskerfisins með einhverja hugsanlega kvilla.  Það á ekki að byrja á því að spyrja hvort að sá sem telji sig eiga við hugsanlegan heilsubrest hvort að hann hafi reykt, drukkið í óhófi, fíflast á hestbaki, eða fengist við einhvern óþarfa eða stundað eitthvað sem okkur sjálfum kann að þykja fíflalegt.  Allt slíkt vegur að grundvallarhugsuninni á bakvið sameiginlegt heilbrigðiskerfi að mínu mati. 

En það er líka sjálfsagt að velta því fyrir sér hver er ábyrgð sjálfstætt starfandi lækna og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra hvað varðar t.d. tryggingar og því um líkt.  Það er eitthvað sem ég þekki ekki en hlýtur að vera skoðað í málum sem þessum.

Ekki síður hlýtur ábyrgð eftirlitsaðila og leyfisveitenda að koma til skoðunar.  Án þess að ég hafi þekkingu í þeim efnum hljóta öll efni sem notuð eru til lækninga, að ég tali ekki um þau sem skilin eru eftir í líkama sjúklings, að vera háð einhverju eftirliti.

Nú skilst mér að viðkomandi sílíkonpúðar hafi verið leyfðar í Evrópu en bannaðir í Bandaríkjunum síðastliðin 10 ár.  Það hlýtur líka að vekja upp spurningar hvort að eftirlit í Evrópu sé að einhverju marki slakt eða óviðunandi.  Hvaða aðili er það sem sér um slíkt eftirlit í Evrópu, eða eru það margir aðilar?  Nægir að eftirlitsaðili í upprunalandinu gefi sinn "stimpil"?

Það hlýtur líka að vekja upp spurningar hvort að Ísland starfræki að einhverju marki sjálfstætt eftirlit, eða hvort að leyfi sem veitt eru t.d. á Evrópska efnahagssvæðinu (EES/EEA) gildi annað hvort sjálfkrafa eða að mestu leyti sjálfkrafa á Íslandi?  Getur Ísland bannað hluti eins og sílíkonpúða sem hafa verið samþykktir á Evrópska efnahagssvæðinu?  Gilda lög innri markaðarins í þessum efnum eða getur hvert aðildarland sett sín eigin lög og reglugerðir? 

Þetta eru helstu spurningar sem hafa vaknað hjá mér. 

En svör við þeim eru ekki forgangsatriði.  Fyrst á að aðstoða þá einstaklinga sem kunna að vera í heilsufarslegri hætti, eða vilja losna við hættulega sílíkonpúða.  Síðan er hægt að fara að leita að svörum og að bæta kerfið þannig að hættan á að slíkt endurtaki sig minnki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Afburða færsla.

Mér finnst athugasemdir þínar í sambandi við ábyrgð sjálfstætt starfandi og eftirlitsaðila og leyfisveitenda  bæði athyglisverðar og tímabærar .

Agla (IP-tala skráð) 12.1.2012 kl. 16:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband