Engin húrrahróp á afmælinu

Það er engu líkara en það hafi farið fram hjá flestum að í gær voru 10. ár liðin frá því að euroið tók við sem mynt margra Evrópuríkja. Ég hef alla vegna ekki rekist á nein húrrahróp eða hástemmdar greinar.

Þó að spáin í fréttinni sem þessi færsla er hengd við, sé í hópi þeirra svartsýnustu, eru fáar bjartsýnar spár tengdar euroinu um þessar mundir.  Æ fleiri spár reikna með að eitt eða fleiri ríki yfirgefi eurosamstarfið á árinu.  Það kemur líklega engum á óvart að það eru Grikkland og Ítalía sem eru helst nefnd í því sambandi.

En árið sem er að líða var að mörgu leiti ár tíðinda og afhjúpana á eurosvæðinu.

Endalaus röð neyðarfunda setti svip sinn á svæðið.  Boðaðar voru stórar lausnir, en raunin varð að þær entust í nokkra daga.  Allt er útlit fyrir áframhald neyðarfunda á nýju ári.  Sarkel fundar 9. janúar og mig minnir að stærri fundur sé boðaður þann 30.

Goðsögnin um "sæti við borðið" var sömuleiðis fyrir stóru áfalli á árinu sem er að líða.  Sarkel tók ákvarðanirnar og síðan voru hinir kallaðir á fund til að rétta upp hönd.  Fáir fengu að komast upp með múður.  Cameron var sá eini sem hafði kraft til að segja nei.  Í kjölfarið réðust ýmsir frammámenn "Sambandsins" harkalega á Bretland og forsætiráðherra þess.  Frakkar gengu sérstaklega hart fram og fá ef nokkur fordæmi eru fyrir yfirlýsingum líkum þeim sem þeir gáfu um Breskan efnahag.

Opin umræða fór loksins fram um galla þá sem voru í uppbyggingu eurosins, sem enginn hafði sýnt vilja til að taka á í þau 20. ár sem liðin eru frá því að grunnurin var lagður.  Jafnvel margir þeirra sem lögðu hvað mesta vinnu við að koma euroinu á fót, sögðu á árinu sem er að líða að gallar eurosins kæmu æ betur í ljós og ekkert hefði verið gert til að lagfæra þá.

Árið 2011 var líka það ár sem fyrsta sinn var farið að tala um möguleikann á því að euroið liðaðist í sundur og jafnvel að "Sambandið" sjálft væri í hættu.  Áður hafði það verið algert tabú, alla vegna innan "Sambandsins" sjálfs.

Ef til vill má segja að orð aðalhagfræðings Þýska seðlabankans árið 1991, segi flest það sem segja þarf og hafi heyrst víða á síðustu mánuðum síðasta árs: 

"There is no example in history of a lasting monetary union that was not linked to one State."

Otmar Issing, Chief Economist of the German Bundesbank Council,1991.

En eurokreppunni er langt í frá lokið.  Þó að fjárdæling Evrópska seðlabankans hafi keypt nokkurn (en dýran) tíma, þá blasir við að grunnvandræði eurosins eru enn til staðar.

Samkeppnishæfni "Suðurríkjanna" er enn þá engan vegin á pari við "Norðurríkin" og ekkert hefur verið gert til að leiðrétta það misgengi.

Til þess að leiðrétta það misgengi, þarf stórar og regluflegar millifærslur, meiri samruna eða hreinlega að stofna sambandsríki.  Sá það reyndar sagt á netinu einhversstaðar að það væri eina skynsamlega leiðin, það væri svo hreinlega smekksatriði hvort það það yrði kallað USE, United States of Europe eða eitthvað annað.  En þá myndu líklega þó nokkur ríki ganga úr skaftinu.

Persónulega tel ég litlar líkur á því að euroið hverfi næstu árin.  En líkurnar á að breyting verði á ríkjahópnum aukast dag frá degi.  Þó að sambandsríki eða mikill frekari samruni, með stór auknu fullveldisframsali kunni að virðast skynsamleg lausn fyrir þau ríki sem þegar eru föst í eurogildrunni, þá er ólíklegt að það sé pólítískt framkvæmanlegt.  Það eru einfaldlega ekki margir stjórnmálamenn sem hafa áhuga eða getu til að fá kjósendur til liðs við slíka framkvæmd.

Mín spá fyrir komandi ár er því að eurolöndin komi til með að hrekjast frá krísufundi til krísufundar enn um sinn.  Forsetakosningar í Frakklandi gætu orðið einhver vendipunktur, en ekki endilega til góðs.

Við þessar kringumstæður er tóm firra að halda til streitu umsókn Íslands að Evrópusambandinu.


mbl.is Segir 99% líkur á að evran lifi ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband