Samfylkingin: Vetur í byrginu

Það gera sér flestir grein fyrir því að ríkisstjórnin er þreytt og rúin trausti.  Í raun hefði hún átt að segja af sér eftir fyrstu IceSave þjóðaratkvæðagreiðsluna.  Líklega hefði engin ríkisstjórn "í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við", ákveðið að sitja sem fastast eftir slíka útreið.

En Íslenska ríkisstjórnin ákvað þess í stað að skríða ofan í byrgið og stjórna þaðan eins og ekkert hefði í skorist.  Úr byrginu líta málin betur út og halda má áfram að vonast eftir töfralausnum (eins og "Sambandsaðild") eða liðsauka.  Séð úr byrginu er bjart framundan, sé horft þaðan eru  fólkflutningar frá Íslandi eins og í meðalári, og í byrginu telja allir að óróleikanum á mörkuðum í Evrópu ljúki fljótt eftir áramótin.  Í byrginu er erfitt að greina á milli hvort að landið er að rísa, eða byrgið er að síga.

En dvölin í byrginu getur tekið á taugarnar.  Sérstaklega þegar óhjákvæmilegur ósigurinn færist nær og nær, töfralausnirnar eru ekki að virka og upplausn eykst í eigin liði.

Því lengur sem dvalið er í byrginu fjölgar röddunum sem efast um leiðtogann og veruna í byrginu.  Efinn um töfralausnirnar láta sömuleiðis á sér kræla.  Nú talar æðsti valdamesti maðurinn í Samfylkingunni um að það þurfi að fara að skipta um formann og endurskoða stefnuna.  Eins og eðlilegt má telja telur hann helst að einn af hans stuðningsmönnum komi til greina í embættið.

En það er nauðsynlegt fyrir Samfylkinguna að vinna tíma.  Tíma til að komast upp úr byrginu, skipta um forystu og undirbúa kosningar.  Því verður allt lagt í sölurnar til að styrkja ríkisstjórnina svo hún geti haldið velli.  Það gæti hentað þingmönnum Hreyfingarinnar vel, lengt dvöl þeirra á þingi, sem er ekki líklegt að haldi áfram eftir næstu kosningar.

En það er líklegt að veturinn i byrginu verði erfiður.  Fylgið mun líklega halda áfram að dragast saman og ólíklegt er að markaðsóróinn láti undan síga í Evrópu enn um sinn og einu markverður fréttirnar sem borist hafa af aðlögunarviðræðum við "Sambandið" er að það gæti ef til vill styrkt sæstreng til að Íslendingar gætu selt "Sambandslöndum" rafmagn. Líklega birti þó yfir í byrginu við þá fregn.

Það er flestum utan byrgisins (og sumum innan þess) ljóst að eðilegast væri að kosningar færu fram fljótlega á nýja árinu.  Ríkisstjórn sem hefur misst allt traust  og hugsar til þess helst að ná að stagbæta tæpan þingmeirihluta sinn á segja af sér og láta almenning um að kjósa sér nýja forystu, nýja ríkisstjórn.

En líklegra er þó að kosið verði að berjast áfram á meðan stætt er, en það verður að öllum líkindum erfiður vetur.  Ekki síst eftir að byrjað verður að berjast um hver eigi að fá að leiða Samfylkinguna út úr byrginu.


mbl.is Össur: Endurnýja þarf forystuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill en þetta er brilliant:

"Í byrginu er erfitt að greina á milli hvort að landið er að rísa, eða byrgið er að síga."

Seiken (IP-tala skráð) 30.12.2011 kl. 12:49

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góður pistill og því miður fyrir Samfylkinguna og hluta vg hárréttur. En þó þeim takist að fá Hreyfinguna til liðs við sig, hvað gerir þá órólega deildin í VG?  munu þau láta það yfir sig ganga að Jóni verði hent út, sérstaklega þegar flokksfélögin úti á landi eru að fara af stað með yfirlýsingar?  Þó þeim takist að hemja Guðmund St.  Þá þarf ekki marga til að kapalinn gangi ekki upp. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.12.2011 kl. 13:02

3 identicon

Í sambandi við þetta Ásthildur þá eru fréttir morgunsins nokkuð áhugaverðar. Ef það er rétt að VG fái þetta nýja atvinnuvegaráðuneyti þá hefur SJS slegið nokkuð af vopnunum úr höndum Ögmundar, Guðfríðar Lilju og Jóns B.

VG er jú (að nafninu til) á móti ESB aðild og því "haldlaus rök" að ekki megi víkja ESB andstæðingnum Jóni B. úr ráðherrastóli ef VG heldur stólnum hvort eð er. Að minnsta kost getur SJS í framhaldinu alltaf komið sökinni á þremenningana ef að þau velja að standa föst fyrir og stjórnin liðast í sundur.

Ég get ekki annað en dáðst að SJS fyrir þessa lausn.  Snilldin í illskunni er stundum aðdáunnarverð. En ætli byrgið haldi nú ekki áfram að síga jafnvel þó þessi leið verði farin.

Seiken (IP-tala skráð) 30.12.2011 kl. 13:51

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já vissulega ef Svandís verður sett inn í það ráðuneyti.  En málið er að Svandís er í Steingrímsliði, eftir því sem mér sýnist eru VG klofnir, í elítu Steingríms og svo alþýðufólk.  Sá hluti varð undir á síðasta flokksþingi.  En Jón Bjarnason virðist vera meiri þungaviktarmaður meðal þess arms VG en Steingrímur sem er nánast búin að mála sig út í horn.  Þess vegna minnkar ólgan ekki innan raða VG þó Steingrími takist að láta þennan kapal ganga upp að nafninu til.  Þá mun byrgið jafnvel síga enn hraðar fyrir vikið.  Og þegar Jóni hefur verið kastað fyrir róða, hvað gera þá Guðfríður Lilja og Ögmundur?  Eitthvað segir mér að línur vinstrimanna til sinna manna á þingi séu rauðglóandi þessa dagana. 

Það eru takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga í falsi og fláræði. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.12.2011 kl. 14:03

5 identicon

Já ég er sammála þér Ásthildur. Ég held að með þessari lausn sé SJS og ESB armur VG að ganga eins nærri ESB-andstæðingum VG og hugsast getur og vel mögulegt að þessi lausn gangi einfaldlega ekki upp. En ef hún gerir það ekki þá sýnist mér að SJS sé í snöggt um skárri stöðu gagnvart þremenningunum en hann hefði verið ef að Jóni hefði verið bolað burt án bóta.

En eins og við töluðum um í gær þá verður þessi hrókering (ef hún verður að veruleika) að skoðast í því ljósi að það er örvænting í JS og SJS.  Þau geta ekki farið frá núna því viðskilnaðurinn er hrikalegur og ólíklegt að þeim tækist að forða flokkum sínum frá slátrun í kosningum á nýju ári.

Seiken (IP-tala skráð) 30.12.2011 kl. 14:48

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já mikið rétt, og þar með upplýsist fyrir jafnvel hinum forpokuðustu styrktarmönnum þeirra að þau hugsa fyrst og fremst bara um sjálf sig en ekki þjóðarvilja né þjóðaröryggi.  Vei þeim sem þannig kemur fram. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.12.2011 kl. 14:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband