Skuldir, skuldir alls staðar

Flest stærri ríki heims eru skuldum vafin.  Stjórnmálamenn lofa linnulítið upp í ermar kjósenda og nú er svo komið að reikningarnir eru ekki lengur sendir á börnin, enda nokkuð ljóst að þau verða ekki borgunarmenn fyrir skuldunum, heldur er byrjað að gefa út víxla á barnabörnin.  Þetta er vel sjáanlegt í ríkjum eins og Frakklandi, þar sem fjárlög hafa ekki verið í plús í hartnær 40 ár, en mörg önnur ríki hafa ekki staðið sig síður í skuldasöfnuninni, þó að fjárlögin hafi rambað í plús stöku sinnum.

Eitt af fyrirsjáanlegum vandamálum margra Evrópuríkja er að það er ekki útlit fyrir að barnabörnin verði mjög mörg, fæðingartíðni hríðfellur í mörgum þeirra.  Margir vonast til að innflytjendur geti leyst þann vanda, en það er mikið deiluefni í mörgum Evrópuríkjum.  Þar standa Þjóðverjar heldur betur en margir aðrir, enda hafa innflytjendur flykst til Þýskalands undanfarin misseri, ekki síst frá öðrum eurolöndum eins og t.d. Grikklandi og Spáni.

En skuldavandinn er raunverulegur og lætur finna fyrir sér víðast um lönd.  Það að Þýskaland skuldi 80% af vergri landsframleiðslu sinni eins og segir í fréttinni er ekkert grín, en þó hlægilegt hlutfall miðað við ýmis önnur lönd. 

En Þýskaland er þó í mun betri stöðu en hin euroríkin, enda bera skuldir þess  lægri vexti en annara euroríkja.  Markaðir hafa enn mikla trú á hinu útflutningsdrifna hagkerfi Þýskalands.  Þýskaland er sömuleiðis það euroríki sem kemst næst því að hafa sína eigin mynt, enda efnahagsákvarðanir á eurosvæðinu að miklu leyti teknar miðað við Þýskaland, sem er ekki óeðlilegt þar sem um stærsta hagkerfið er að ræða.

Andstaða Þýskalands við sameiginlega skuldabréfaútgáfu euroríkjanna verður að skoða í þessu ljósi.  Þó að vaxtakrafa á önnur ríki gæti lækkað nokkuð, myndi vaxtakrafan á Þjóðverja hækka og eins og sést á upphæðunum sem um er að ræða munar um hvern vaxtapunkt.

En það bendir flest til að komið sé að skuldadögunum, að það verði ekki lengur hægt að lofa upp í ermar skattgreiðenda, nú verði að taka fram stóru niðurskurðarhnífana.  Allt of mörg ríki hafa lifað um efni fram.  En vissulega munu stjórnmálamenn eftir fremsta megni draga úr niðurskurðinum enda vill enginn stjórnmálamaður vera þekktur fyrst og fremst fyrir niðurskurð. 

Þá er nú betra að skuldsetja barnabarnabarnabörnin.

 


mbl.is Skuldar 2.000 milljarða evra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Einarsson

"Draumaríkið"

Hörður Einarsson, 27.12.2011 kl. 22:20

2 Smámynd: Björn Emilsson

Þýskaland er vandræðabarn sem reynir að bjarga sér fyrir horn með yfirgangi og styrjöldum. Þeim hefur aldrei tekist það.

Björn Emilsson, 28.12.2011 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband