19.12.2011 | 15:07
Fer euroið í jólaköttinn?
Leiðtogar Evrópusambandsins reyna nú hvað þeir geta að sníða euroinu ný föt. Þau gömlu leyna ekki lengur göllunum. Reyndar mætti halda því fram með nokkrum sanni að gömlu fötin minni mest á föt keisarans í frægu ævintýri, H.C. Andersen. Framganga "vefara" Evrópusambandsins er fyrir þeim sem lesið hafa ævintýrið heldur ekki með öllu framandi.
Í dag er enn einn fundurinn, að þessu sinni þó aðeins símafundur. Það þarf að ræða um 200 milljarða framlag til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins svo að hann geti lánað euroríkjum í vandræðum fé. Bretar eru meira en velkomnir að sitja við borðið (þó að Frakkar hafi ekki vandað þeim kveðjurnar undanfarna daga) enda þeim ætlað að reiða fram u.þ.b. 15% af þessari upphæð, eða um 30 milljarða euroa. Evrópubandalagsþjóðirnar eru reiðubúnar til að bjóða aðrar þjóðir velkomnar fyrir minna.
En æ meiri óvissa ríkir um niðurstöðu leiðtogafundarins sem var haldinn 8 og 9 desember, ef þá er hægt að tala um að einhver niðurstaða hafi fengist þar. Nei Breta þekkja allir og ýmsar aðrar þjóðir eru ákaflega tvísstígandi og reyna að tala sig frá þeim drögum sem þar voru sett fram. Talinn er stór vafi á því að euroþjóðirnar gangist undir að leggja fram þá 150 milljarða euroa sem þeim er ætlað og enn meiri vafi er um þá 50 milljarða sem er "kvóti" annarra ríkja, ekki síst hvort að Bretar hafi nokkurn áhuga á því að taka þátt.
Æ fleiri eru líka þeirra skoðunar að þær aðgerðir sem nú er rætt um séu eingöngu sem plástur á holundarsár. Ekkert sé gert til að leiðrétta þá kerfilægu galla sem séu á uppbyggingu eurosins og ekkert sé gert til að reyna að tryggja efnahagslegan vöxt eurosvæðins, sem er því svo nauðsynlegur ef það á að eiga hinn minnsta möguleika á að greiða skuldir sínar niður. Niðurskurðarhnífurinn er alls staðar á lofti og vaxandi óróa gætir á meðal launþega og almennings, enda telja þeir sig vita hvar byrðarnar lenda. Götuóeirðir í Grikklandi og verkföll á Ítalíu og Frakklandi
Því miður hef ég litla trú á því að fundurinn í dag boði betri tíð á nýja árinu. Ég hugsa þó að flestir Íslendingar séu sáttir og þakklátir fyrir það Steingrímur J. Sigfússon á ekki sæti við borðið fyrir hönd Íslands í dag. Það er sæti sem meirihluti Íslendinga afþakkar.
Stefna á hagvöxt á síðari hluta 2012 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.