1.11.2011 | 16:22
Múgbrjálæði Íslendinga
Núna er mikið fjallað um meint "múgbrjálæði" Íslendinga sem eigi sér fáar hliðstæður á meðal siðaðra þjóða og sé líklega stærsti einstaka orsök þess hruns sem varð á Íslandi.
Þetta var meðal annars rætt á ráðstefnunni í Hörpu í nýliðinni viku og vakti eðlilega mikla athygli. Það kom sömuleiðis fram á sömu ráðstefnu að Íslensku bankarnir hefðu gefið stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum 8 dollara per íbúa aríð 2006. Eðlilega vekur þetta ýmsar spurningar um tengsl á milli stjórnmálamanna og bankageirans og hvort það það hafi átt mikinn þátt í margumræddu "múgbrjálæði".
Reyndar held ég að "múgbrjálæði" Íslendinga, ef við leyfum okkur að ganga út frá því að hún hafi verið til staðar, hafi ekki dugað ein og sér til þess að búa til þá fjármálabólu sem flestir gera sér grein fyrir nú, eftir á vel að merkja, að hafi blásið út á Íslandi.
Þeir voru nefnilega til út um hina víðu veröld sem höfðu fulla trú á hinu Íslenska bankakerfi og lögðu í raun til loftið í bóluna, þ.e.a.s. peningana. Flestum er örugglega kunnugt um hve stórum fjárhæðum hinir sömu töpuðu við hrun þeirra (handhafar þeirra skuldabréfa eru sem kunnugt er önnum kafnir við að reyna að ná þeim peningum til baka í gegnum eignarhald á Íslenskum bönkum, en það er önnur saga). Þessir erlendu aðilar voru ekki einhver "nobodys" heldur má finna á meðal þeirra margar þekktustu og virtustu bankastofnanir heims.
Það hlýtur því að vera rannsókn sem er þess virði að leggja í, hvers vegna virtar alþjóðlegar fjármálastofnanir, hafi tekið með þessum hætti virkan þátt í dæmafáu "múgbrjálæði" Íslendinga.
Annað sem ég held að sé þess virði að rannsaka, ef við göngum út frá því að "múgbrjálæðið" sé staðreynd, er hvernig það varð til.
Stjórnmálamenn og bankar eru vissulega sterkar einingar, en ég hef ekki trú því að það hafi dugað til að "múgbrjálæði" næði neinum hæðum, jafnvel þó sterk tengsl hafi verið á milli þessara eininga.
En hvað gerist ef við bætum við fjölmiðlum og svo þeim sem "vit hafa á hlutunum", hvað gerist þá?
Hver yrði upphæðin ef við reyndum að komast að því hvaða upphæðir bankar og "útrásarvíkingar" (sem flestir voru hluthafar, eða með aðkomu að bönkum með einum eða öðrum hætti) lögðu í kaup á fjölmiðlum, eða til fjölmiðla á "múgbrjálæði" árunum?
Hvað yrðu það margir dollarar á íbúa?
Það yrði einnig fróðlegt að vita upphæð sem bankar og "útrásarvíkingar" lögðu til "fræðasamfélagsins", því vissulega hlustuðu margir Íslendingar á landsins bestu fræðimenn útskýra skjótan framgang landa sinna á erlendri grund, að sjávarútvegur skipti á minna máli, í hvaða gjaldmiðli væri best að taka erlend lán o.s.frv.
Fræðimenn unnu lærðar skýrslur og álitsgerðir og unnu eftir því sem mér skilst mörg önnur þarfaverk fyrir banka og "útrásarvíkinga" fyrir hæfilegar þóknanir.
Hvað yrðu það margir dollarar á íbúa?
Bankar og "útrásarvíkingar" voru sömuleiðis margir hverjir atkvæðamiklir í stuðningi við lista og íþróttalíf Íslendinga. Þar komu þeir fram sem sannir mannvinir og stuðluðu að framförum og juku þrótt og þrek í menningu jafnt sem íþróttum svo eftir var tekið. Margir úr þessum geirum kunnu þeim auðvitað hinar bestu þakkir og báru þeim vel söguna og má segja að þeir hafi styrkt þá ímyndarlega.
Hvað skyldu það hafa verið margir dollarar á íbúa?
En það má líka velta því fyrir sér að hve miklu leyti var um "múgbrjálæði" að ræða, en ef svo var hver eru mikilvægustu "hráefnin" í slíkt brjálæði.
Ég held að hér sem víða annars staðar finnist enginn stóri sannleikur, en það breytir því ekki að leitin að honum getur verið bæð gagnleg og fróðleg.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Það er eiginlega alveg merkilegt hvernig látið er með Buiter. Maður gæti haldið að hann hefði ekki fjallað um annað en Ísland fyrir kreppu.
Veruleikinn er að hann var að boða það fyrir kreppu að litlir gjaldmiðlar væru dragbítur. Þegar hann var beðinn um úttekt á stöðu íslenska bankakerfisins fyrir hrun spáði hann því - út frá sínu almenna kenningamódeli - að hér yrðu mikil vandræði vegna lausafárskrots.
Vissulega varð hérna hrun stuttu síðar en hún varð af öðrum ástæðum (eignir bankanna voru froða). Lítil lönd með eigin gjaldmiðla sem héldu vel á sínum málum, s.s Sviss, Noregur og Svíþjóð hafa sloppið nokkuð vel frá kreppunni. Sum evruríki hafa vissulega sloppið vel líka en það breytir því ekki að smágjaldmiðlarnir hafa ekki reynst sá dragbítur sem Buiter vildi meina. Lönd með eigin gjaldmiðla þar sem menn fóru ógætilega, Ísland og Bretland, virðast ætla að sleppa betur frá kreppunni en ella. Það eru evrulönd þar sem menn fóru ógætilega, t.d Írland (sem skv. skýrslunni frægu hefði átt að vera laust við hætturnar sem Ísland stóð frammi fyrir) og Grikkland, sem virðast ætla að verða verst úti auk þess sem sum lönd, s.s Spánn, Portúgal og Ítalía, eru tiltölulega saklaus fórnarlömb evrunnar.
Í stuttu máli virðist það nokkuð augljóst allt kenningamódelið sem Buiter miðaði við hafa verið kolrangt og að það hafi verið lítið meira en tilviljun að það komu vandræði í kjölfar viðvarana hans og Sibert hérna á Íslandi.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 1.11.2011 kl. 19:40
Buiter virðist eiginlega vera þeirrar skoðunar að það sé affarsælast fyrir Íslendinga að leggja sig niður sem þjóð, mannauðurinn til þess að vera sjálfstætt ríki sé einfaldlega ekki til staðar.
Hann virðist vera af þeim skóla sem telur að hið stærra sé ævinlega betra. Sú skoðun er nokkuð vinsæl bæði í fyrirtækjarekstri og "geopolitik".
Ég er sammála því að það er ekki gjaldmiðillinn sem mestu skiptir, heldur aðrar efnhagsbreytur.
Persónulega vitna ég oft til Eistlands, því þar þekki ég nokkuð til. Þeir tóku upp Euro í Janúar, en áður höfðu þeir beintengt krónu sína við Euro, og þar áður Þýska markið.
Staðan þar er erfið, en alls ekki óviðráðanleg. Atvinnuleysi er mikið, laun hafa lækkað gríðarlega, fasteignaverð hrunið. Ríkisfjármál eru hins vegar afar góð og gefa von fyrir framtíðina.
En það var ekki fastgengi sem gerði gæfumuninn fyrir Eistland. Þeirra "heppni" ef svo má að orði komast var að þarlendir höfðu selt alla stærstu banka landsins til útlanda áður en til kreppu kom. Þegar lausafjárskortur herjaði á bankana árið 2008, var það því ekki síður höfuðverkur Svía en Eistlendinga hvernig staðið skyldi að lausn þeirra mála.
Að gengið haldist stöðugt er ekki lausn á vandamálunum, langt í frá.
G. Tómas Gunnarsson, 1.11.2011 kl. 22:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.