Hækka laun ef þau eru greidd í Euro?

Ég fæ það stundum á tilfinninguna að sumir Íslendingar haldi að laun hækki ef þau séu greidd í Euroum.

Það er auðvitað rétt að sé greitt í Euroum, þá heldur gjaldmiðillinn almennt séð verðgildi sínu, því þó að Euroið fari upp og niður eins og aðrir gjaldmiðlar, eru sveiflurnar verulega minni en hjá Íslensku krónunni, alla vegna eins langt og sagan nær.

En það sem breyttist ekki er að atvinnurekendur þurfa að eiga fyrir laununum, hvort sem þeir eru í einkageiranum eða hinum opinbera.

Því gerist yfirleitt annað af tvennu þegar syrtir að, eða áföll skella á, laun lækka eða starfsfólki fækkar.  Auðvitað gerist hvoru tveggja oft á tíðum, eins og gerst hefur bæði á Íslandi og í Eurolöndum undanfarin misseri, en fæstir neita því að tengsl eru á milli þessara tveggja stærða.

Falli gjaldmiðillinn gengur það jafnt yfir línunu, öll laun lækka, innistæður í bönkum missa hluta af verðgildi sitt o.s.frv.

Þurfi að lækka launinn á hinn vegin, upphefjast flóknar samningaviðræður á milli stéttarfélaga og atvinnurekenda og í raun engin trygging fyrir því hvernig þær fari, launalækkanir geta verið mismunandi og sum laun lækka jafnvel alls ekki neitt.

Eistlendingar hafa verið með krónuna sína beintengda frá því að þeir endurheimtu sjálfstæði sitt árið 1991, fyrst við Þýska markið og síðan við Euroið.  Þeir tóku síðan upp Euro sem mynt um síðustu áramót.

Það hefur ekki tryggt kaupmátt eða hækkað laun Eistlendinga, sem höfðu þó stigið jafnt og þétt vegna framfara og hagvaxtar þangað til að kreppan hitti þá fyrir 2008, rétt eins og svo mörg önnur lönd.

11 síðustu ársfjórðunga hafa raun laun í Eistlandi lækkað og hjá mörgum verulega mikið.  Atvinnuleysi fór hæst í u.þ.b. 20% en stendur nú í u.þ.b. 14%.  Fólksflótti er verulegur, ekki síst til nágrannalanda eins og Finnlands, Svíþjóðar og nú Þýskalands eftir að þau landamæri opnuðust.

Eistneska heilbrigðiskerfið er talið nokkuð gott og hefur oft verið hrósað og talið hið besta í heimi sé miðað við gæði/kostnað, en í gæðum talið er það nokkuð langt frá toppnum en hefur þó staðið sig vel.

En eftir stendur að Eistneska ríkið hefur ekki efni á því að greiða starfsfólki í heilbrigðiskerfinu sambærileg laun miðað við hvað gerist í nágrannalöndunum, þúsundir heilbrigðismenntaðra Eistlendinga hafa því farið yfir til Finnlands til starfa þar, og margir sömuleiðis til annarra landa.

Gjaldmiðillinn hefur ekki breytt neinu þar um, enda hefur greiðslugeta Eistneska ríkisins ekki aukist þó að gjaldmiðillinn hafi breyst, eða verið beintengdur. 

Það þarf einfaldlega að eiga fyrir laununum. 

Í þessu samhengi er rétt að geta þess að Eistneska ríkið setur fram öguð fjárlög og fer eftir þeim, enda skuldastaða ríkisins sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, líklega ein sú besta í Evrópu ef ekki sú besta.  Skuldir ríkisins sem hlutfall af GDP er á milli 6 og 7%, þrátt fyrir að Eistlendingar hafi fundið fyrir kreppunni 2008 af fullum þunga.

Ísland er mun ríkara land en Eistland og laun eðlilega mun hærri, en það breytir því ekki að það þarf að eiga fyrir þeim. 

Fjármálaráðherra sagði það réttilega að "2007 útgjöld" gæti ríkið ekki greitt með 2011 tekjum.

Það einfalda reikningsdæmi er alveg eins hvort sem reiknað er í krónum eða Euroum.

Gengisfallið hjálpar útflutningsfyrirtækjum, dregur úr innflutningi og hefur komið í veg fyrir að atvinnuleysi er meira en það er.  Það er hins vegar rétt að raun laun hafa lækkað verulega.

En það má einnig hugsa um hvort að "2007 launin" hafi verið rökrétt og séu það sem miða á við?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég fæ það stundum á tilfinninguna að sumir Íslendingar haldi að laun hækki ef þau séu greidd í Euroum.

Nei það gera þau ekki. Þú færð einfaldlega bara helmingi færri evrur en jafnokar þínir á meginlandinu. Spyrðu bara slóvenska málmiðnaðarmenn hvort þeir fái það sama í vasann og þýskir kollegar þeirra, eða íslenskir fyrir hrun.

Þessvegna er Gylfi Arnbjörnson snargeðveikur að vilja festa gengi krónunnar við Evru núna þegar það er í sögulegu lágmarki. Hann vill ekki að íslenskir launþegar nái nokkurntíma til baka þeirri kaupmáttarrýrnun sem varð við gengisfall krónunnar haustið 2008. Gylfi er auðvitað bara í verkefnsasköpun fyrir sjálfan sig, því með þessu móti yrði eina leiðin að endurheimta kaupmátt að sækja hann í smáskömmtum með miklum erfiðismunum í gegnum hina ónýtu verkalýðsfélagshreyfingu, þar sem ónýtir menn eins og Gylfi og nafni minn Gunnarsson ráða ríkjum.

Það þarf að leggja niður ASÍ og stofna verkalýðsfélag almennings.

Hvernig hljómar: Verkalýðsfélagið Skjaldborg?

Guðmundur Ásgeirsson, 31.10.2011 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband