13.10.2011 | 23:44
Menntun skapar ekki traust, það gera persónur
Ég hef oft heyrt talað um meintan menntunarskort Íslenskra stjórnmálamanna. Forsætisráðherra sem er fyrrverandi flugfreyja, fjármálaráðherra sem er jarðfræðingur eða dýralæknir, utanríkisráðherra sem hefur kynlíf laxfiska sem sérgrein, eða sagnfræðimenntaðir viðskiptaráðherrar.
Margir telja þetta allt af hinu vonda og það er oft eins og mörgum dreymi helst um hið "menntaða einveldi".
Ég held að enginn telji að menntun sé löstur, en að hún tryggi gæði eða hæfni er svo annar handleggur. Voru Íslenskir bankamenn og eru upp til hópa vel menntað fólk? En tryggði það gæðin, siðferðið, árangurinn eða ábyrgðina?
Og svo annað dæmi sé tekið, stjórnuðu ekki "lærðir pólítíkusar" og afburðafólk, vel menntað og vel þenkjandi fólk um tilurð Eurosins? Myntar sem voru bundnar miklar vonir til og er enn, en flestir eru sammála um að grunnurinn hafi verð byggður á pólítískri bjartsýni, fremur en raunveruleikanum.
Voru það ekki "virtir" fræðimenn sem komu fram í fjölmiðlum og fullyrtu að Ísland yrði að Kúbu norðursins, ef IceSave kröfur Breta og Hollendinga yrðu ekki samþykktar vafningalaust?
En auðvitað er menntun góð og reynsla úr mismunandi störfum og/eða fyrirtækjarekstri er af hinu góða, en það sem mestu skiptir fyrir stjórnmálamenn er traust.
Það verður ekki tryggt með menntun, reynslu eða fyrirtækjarekstri. Þar gildir heiðarleiki, hreinskilni og skilningur á mismunandi þörfum og löngunum kjósenda.
Það skyldi þó ekki vera að "trauststuðullinn" sé lægri heldur en "menntunarstuðullinn" á Alþingi?
Ég hef sagt það áður að kjósendur hafi alltaf rétt fyrir sér og held mér við þá skoðun mína. Þeir kjósa þá sem þeir bera mest traust til. Rétt er að hafa í huga að ef staðið er frammi fyrir tveimur kostum, og sá sem valinn er bregst, þarf það ekki að þýða að hinn kosturinn hafi verið réttur eða betri.
Hitt er svo annað að ég get tekið undir þá skoðun að Alþingi sé farið að hafa skoðanir og afskipti af alltof mörgu. Hið opinbera enda komið með nefið ofan í flesta koppa, og þingmenn sem gjarna er talað um sem "frjálslynda" flytja hvert stjórnlyndisfrumvarpið á fætur öðru.
Gæti Alþingi stýrt fyrirtæki? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.