Ég vil frekar vera litinn hornauga í Brussel en að þurfa að skammast mín fyrir framan börnin mín

Þannig hljóma orð Slóvakíska stjórnmálamannsins Richard Sulik, í minni eigin þýðingu.  Það er rétt að geta þess að þessi setning er þýdd úr ensku, enda þekking á Slóvakísku (vona að þetta sé rétt) ákaflega takmörkuð.  En á Ensku er setningin svohljóðandi:

"I’d rather be a pariah in Brussels than have to feel ashamed before my children,"

Slóvakar sögðu nei við stækkun neyðarsjóðs Eurolandanna.  Það þýðir auðvitað ekki að Slóvakar sleppi við að ábyrgjast sinn hluta af sjóðnum (að ég held 7.7 milljarða Euroa), þegar er byrjað að tala um að málið fari aftur fyrir þingið og þegar þetta er skrifað er verið að tala um að samkomulag þess efnis liggi nú þegar fyrir.

Þó að Slóvakar þurfi að skipta um ríkisstjórn er það auðveldur ásættanlegur kostnaður fyrir "einingu Eurolandanna".  Þegar á reynir hafa smáríkin rétt til að greiða atkvæði eins og þeim sýnist svo lengi sem það er þeim stærri þóknanlegt, þannig virkar valdið innan "Sambandsins". 

Reynið að ímynda ykkur Íslenska stjórnmálamenn í sömu stöðu og veltið því fyrir ykkur hver útkoman yrði?

En hvers vegna finnst Slóvökum það ósanngjarnt að þeir eigi að ábyrgjast "sinn skerf" í björgunarsjóð Eurolandanna?  Hvers vegna tala þarlendir stjórnmálamenn um að þeir vilji geta horft framan í börnin sín? 

Hvernig er það réttlætt að fátækt ríki eins og Slóvakía eigi að hlaupa undir bagga með Grikklandi? Ríki þar sem þjóðarframleiðslan nær ekki 3/5 af þjóðarframleiðslu Grikklands, þar sem eftirlaun ná rétt um 1/3 af því sem tíðkast í Grikklandi?

Hvers vegna á ríki sem lagði hart að sér við að uppfylla skilmála Maastricht sáttmálans að aðstoða ríki sem virðist hafa lagt sig í framkróka við að sveigja, beygja og brjóta sama sáttmála?

Hverjir ákváðu og hvers vegna að sjálfsagt væri að "breyta" Maastricht sáttmálanum á þann veg að skattgreiðendur Eurolandanna þyrftu að hlaupa undir bagga með skuldugum ríkjum?  Var það ekki skýrt tekið fram í sáttmálanum að það hvorki mætti né ætti að gera?

Er það nema von að sumum stjórnmálamönnum hrýsi hugur við að þurfa að útskýra það fyrir yngri kynslóðinni að skattar þeir sem þau greiða í framtíðinni renni til að styrkja mun "ríkari" ríki en þau sjálf búa í?

En erfiðast kann þó að verða að útskýra fyrir ungu kynslóðinni að hjálpin renni í raun ekki til Grikkja nema að litlu leyti, en æ fleiri eru þeirrar skoðunar að Grikklandi verði ekki bjargað frá gjaldþroti, heldur til banka sem starfa í Frakklandi, Þýskalandi, Belgíu, Ítalíu o.s.frv.

Skyldi mikið hafa verið rætt í Slóvakíu um möguleika á því að Slóvakar þyrfti að koma sér ríkari þjóðum til hjálpar, þegar þeim var "seld" aðild að Evrópusambandinu og möguleikann á því að taka upp Euro?

Eða var þeim "seld" aðild með því að fjalla eingöngu um kostina við aðild og Euroið, eins og einn Íslenski aðildarsinninn, minntist á að Evrópskir stjórnmálamenn hefðu verið uppteknir af.  Þeir gleymdu bara að minnast á gallana.

P.S. Ekki hef ég séð að mikið hafi verið fjallað um ákvörðun Slóvaska þingsins í Íslenskum fjölmiðlum, enda líklega óþarfi eð vera að halda neikvæðum fréttum að Íslendingum.  Ef það verður gert verða "andstöðuþingmennirnir" líklega afgreiddir sem hættulegir "populistar".


mbl.is Slóvakar fella björgunarsjóðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mættu fleiri hugsa svona.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.10.2011 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband