Mýtan um fylgistapið

Hún hefur lengi og víða heyrst sú mýta að flokkar tapi á því að vera í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.  Þetta hefur verið fært upp á Alþýðuflokkinn sáluga og einnig Framsóknarflokk.

En ef sagan er skoðuð er það alls ekki einhlýtt.

1959 byrjuðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur í samstarfi, með 39.7 og 15.2% atkvæða á bak við sig.  Í kosningunum 1963 vann Sjálfstæðisflokkur 1.7% en Alþýðuflokkur tapaði 1%.

Aftur var kosið 1967, þá tapaði Sjálfstæðisflokkur 3.9% en Alþýðuflokkur vann á, 1.5%.  Þegar hér er komið í sögu Viðreisnarstjórnarinnar hefur Alþýðuflokkur því unnið á um 0.5% frá upphafi hennar, en Sjálfstæðisflokkur tapað 2.2%. 

Enn er kosið 1971 og þá tapar Sjálfstæðisflokkur 1.3% til viðbótar en Alþýðuflokkurinn tapar 5.2%.

Á meðan þeir tóku þátt í Viðreisnarstjórninni, þá tapar Alþýðuflokkur því 4.7% en Sjálfstæðisflokurrinn 3.5%.  Það er allur munurinn.  Sé horft til þess að nýr flokkur var kominn fram á sjónarsviðið á vinstri væng stjórnmálanna, Samtök frjálslyndra og vinstrimanna sem fékk 8.9% 1971, þá getur það varla talist stórundarlegt þó að Alþýðuflokkur hafi tapað örlítið meira.  Enginn talar þó um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að vera í samstarfi við Alþýðuflokkinn.

1974 vinnur svo Sjálfstæðisflokkurinn á um 6.5%, en Alþýðuflokkurinn heldur áfram að tapa, þá 1.4%, án þess að hafa verið í stjórn, hvað þá með Sjálfstæðisflokki.

Þá tekur við stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Þegar kosið er svo 1978, tapar Framsóknarflokkur 8% en Sjálfstæðisflokkur tapar 10%.  Sjálfstæðisflokkur tapaði sem sé 2% meira heldur en Framsóknarflokkurinn.  Samt talar enginn um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tapað á því að sitja í stjórn með Framsókn.  Alþýðuflokkurinn vinnur stórsigur, A-flokkarnir leiða Framsókn til öndvegis, vegna þess að þeir geta ekki komið sér saman um hvor þeirra eigi að fá forsætisráðuneytið.

Enn er kosið 1979.  Þá tapar Alþýðuflokkurinn 4.6%, en Framsóknarflokkur vinnur á 8%.  Engan man þó eftir að hafa talað um að það hafi verið Alþýðuflokknum sérstaklega slæmt að vera í stjórn með Framsókn.

Þá tekur við ríkistjórn Gunnars Thoroddsen.  Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og lítill hluti Sjálfstæðisflokks.

Síðan er kosið 1983.  Sjálfstæðisflokkur vinnur á, 3.3%, en Framsóknarflokkur tapar 5.9%.  Þeir mynda saman stjórn.

1987, Sjálfstæðisflokkur tapar 11.5%, en Framsóknarflokkur tapar aðeins 0.1%.  Rétt er þó að hafa í huga að í þessum kosningum bauð Borgaraflokkurinn fram og fékk 10.7%.  Þó að það sé tekið með í reikninginn, þá tapar Sjálfstæðisflokkurinn meira heldur en Framsóknarflokkurinn.

1991. Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir fyrri styrk og eykur fylgi sitt um 11.4%.  Framsóknarflokkur stendur í stað og Alþýðuflokkur eykur fylgi sitt um 0.3%.  Viðeyjarstjórnin er mynduð.

1995.  Sjálfstæðisflokkur tapar 1.5% af fylgi sínu en Alþýðuflokkur tapar 4.1% af fylgi sínu. Framsóknarflokkur eykur fylgi sitt um 4.4% og fær 23.3%  Það verður þó að hafa í huga þegar þessi úrslit eru skoðuð, að Alþýðuflokkurinn hafði klofnað, Jóhanna Sigurðardóttir hafði stofnað Þjóðvaka og fengið 7.2% atkvæða. Tap Alþýðuflokksins hlýtur því frekar að skrifast á Jóhönnu Sigurðardóttur heldur en samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn.  Það er ekki alls ekki ólíklegt að ríkisstjórnin hefði haldið velli, og haldið áfram samstarfi ef Alþýðuflokkurinn hefði ekki klofnað, en vissulega er engan veginn hægt að fullyrða um slíkt.

Þá hefst það ríkisstjórnarsamstarf sem enn er við lýði.

Kosið er 1999.  Þá vinnur Sjálfstæðisflokkurinn á um 3.6% fær 40.7% atkvæða en Framsókn tapar 4.9% og fær 18.4%.  Nýtt flokkakerfi er komið til sögunnar, Samfylkingin fær 26.8%, VG 9.1% og Frjálslyndi flokkurinn 4.2%.

Komið er að kosningum 2003.  Þá fær Sjálfstæðisflokkur 33.7%, tapar 7% og Framsóknarflokkur 17.8% og tapar 0.6%.  Hvor flokkurinn er að tapa meira?

Síðan þá hefur leið Framsóknarflokks legið stöðugt niður á við, það er að segja í skoðanakönnunum og ekki er ólíklegt að það verði hlutskipti hans í kosningunum í vor.  En ég held að skýringanna fyrir því gengi sé að leita í öðrum hlutum heldur en samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.  Líklegra er að finna orsakirnar hjá flokknum sjálfum og svo þeim breytingum sem hafa verið að gerast á Íslandi, sérstaklega í búsetumálum.

En ef rennt er yfir þessa samantekt, get ég ekki fundið nokkur rök fyrir þeim fullyrðingum sem heyra má síknt og heilagt, jafnvel á virðulegum fréttastofum að þeir flokkar sem séu í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn tapi á því fylgi umfram samstarfsflokkinn.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband