Engin lognmolla

Það er ekki hægt að segja að það ríki nein lognmolla í Íslenskri pólítík þessa dagana.  Þingflokksformaður fellur í prófkjöri og lýsir því yfir í kjölfarið að hann ætli að hætta í vor.  Vistaskipti eiga sér stað og fleiri liggja í loftinu, ný skoðanakönnun sýnir parhúsið, turnarnir tveir eru voðalega eitthvað 2005.

Guðni frá Brúnastöðum er langsterkasti Framsóknarmaðurinn nú um stundir, og líklega sá eini sem á það skilið að að Framsóknarmaður skuli vera ritaður með stórum staf.  Það er merkilegt ef framsóknarmenn vilja ekki Guðna sem næsta formann, honum virðist ekki vanta fylgið.

Bjarni Harðarson kemur líka sterkur inn, en það er skrýtið finnst mér hjá framsóknarmönnum, að ef einn prófkjörsþátttakandi fellur úr skaftinu, að það þýði að einhver sem ekki tók þátt í prófkjöri eigi mestar líkur á því að hljóta það sæti.  Það hlýtur að teljast eðlilegt og í lýðræðisanda að þeir sem taka þátt, eigi mestan möguleika á því að færast upp.  Að mínu mati mega menn ekki láta "hreppapólítíkina" villa sér sýn.

Frjálslyndi flokkurinn virðist gerast stöðugt frjálslyndari, alla vegna hvað varðar það að þingmenn skipti um flokka, fær liðstyrk, þingmann sem var kosinn (eða ekki kosinn) fyrir Samfylkinguna.

Það hangir svo líklega eins og ský yfir landsfundi flokksins að eiga ekki eigið nafn, og þurfa þá hugsanlega að fara í kosningabaráttu undir nýju nafni.  Má ég stinga upp á Frjálslegi flokkurinn?

Ofan í þetta allt saman er svo ný skoðanakönnun sem hampar Vinstri grænum og Frjálslyndum, en Samfylking og Framsókn njóta ekki velgengni.  Sjálfstæðisflokkurinn siglir nokkuð lygnan sjó.

Það blasir auðvitað við að ríkisstjórnin er fallin, en það blasir líka við að það eru ekki nema tveir vænlegir möguleikar til stjórnarmyndunar.  Það er Sjálfstæðisflokkur og annað hvort Samfylking eða Vinstri græn.

Það er því ekki að undra að framsóknarmenn láti margir hverjir illa og finnist ekki tilhlýðilegt hvernig þessir tveir flokkar senda skilaboð til Sjálfstæðisflokksins.  Framsóknarmenn sjá fram á langa hvíld, hvíld sem þeir eru ekki fegnir.  Þeir reyna því allt sem aftekur að reyna að gera samstarf þessara tveggja flokka við Sjálfstæðisflokk sem tortryggilegast.  Þeir vilja margir meina að fylgistap Samfylkingar megi rekja til þessa möguleika. 

Vandi Samfylkingar er vissulega mikill, staðan í skoðanakönnunum er skelfileg.  Samfylkingin finnur það vel að það er ekki alltaf best eða auðveldast að vera í eða á miðjunni.  Þar er  mikil hreyfing á fylginu.  Ef sýndur er hægri vanginn, færir hluti kjósenda sig yfir til VG og ef sýndur er vinstri vanginn færir hluti fylgisins sig yfir til Sjálfstæðisflokks.  Í slíkri stöðu er þörf á sterkum og góðum foringja, til að halda fylginu og þann foringja hefur Samfylkingin ekki.

En það veit ekki á gott þegar flokkur er búinn að vera í stjórnarandstöðu allt frá stofnun (og í raun dulítið lengur) og nær ekki að sækja fylgi.  Komist slíkur flokkur ekki í ríkisstjórn eina ferðina enn, hljóta margir, bæði kjósendur og meðlimir að hugsa með sér að það þurfi að að stokka spilin, jafnvel skipta alveg um stokk.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband