14.1.2007 | 21:43
Sjálfstæðisflokkur og Samfylking - Endurtekur sagan sig?
Menn eru mikið farnir að spá fyrir um hvernig stjórn verði mynduð að loknum kosningunum í vor. Kaffibandalagið er með meirihluta í könnunum, en æ fleiri hafa trú á því að sá "bolli" verði ekki drukkinn í botn.
Þá er líklegast að Sjálfstæðisflokkurinn geti valið hvorum hann starfi með, Samfylkingu eða Vinstri grænum. Hvor um sig er nokkuð líklegur til að vilja legga nokkuð á sig til að verða fyrir valinu. "Eyðimerkurgangan" er búin að vera það löng. Margir leggja ennfremur á það áherslu að Samfylkingin væri líklega tilbúin að leggja mikið í sölurnar, formaðurinn megi ekki við því að koma flokknum ekki í ríkisstjórn, að öðrum kosti verði henni ekki lengi til setunnar boðið. Sumir hafa jafnvel tekið það sterkt til orða í mín eyru að segja að ef Samfylkingin komist ekki í ríkisstjórn sé stór hætta á að flokkurinn klofni niður.
Mér er sagt að í viðtali í Morgunblaðinu í dag, viðurkenni Ingibjörg Sólrún að viðræður hafi verið á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Það eykur vissulega líkurnar á því að einhverjum öðrum svelgist á kaffinu. En Samfylking og VG keppast um það þessa dagana að láta hvorir aðra vita, að kaffi fáist á fleiri stöðum.
Hitt er svo vissulega möguleiki að Framsókn fái "herbergi" í parhúsinu sem VG og Samfylking búa í þessa dagana. Það væri þá endurtekning á því sem gerðist 1978, þegar A-flokkarnir unnu glæstan sigur, gátu ekki komið sér saman um hvor þeirra ætti að fá forsætisráðherraembættið (hljómar kunnuglega ekki satt?) og sem málamiðlun varð úr að Framsókn fékk embættið. En þessi ríkisstjórn fékk snautlegan endi, þannig að það er ekki ólíklegt að sporin hræði. En þetta er auðvitað dæmi um það að það hefur engan vegin verið órjúfanleg hefð að stærsti flokkurinn í samstarfi fái forsætisráðuneytið.
Í þessum vangaveltum hef ég látið Frjálslynda flokkinn liggja "utangarðs". Ég tel hann enda ekki "stjórnarmateríal", ekki nú um stundir. Enn það er vissulega enn langt til kosninga.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Saga | Breytt 15.1.2007 kl. 02:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.