Er Kafka bara við höfnina eða er hann um allt land?

Grein sem birtist á vef Vísis og ber titilinn "Kafka við Sæbrautina - eða endurminning um Hörpu", hefur vakið mikla athygli.

Í greininni rekur fyrrverandi forstjóri Hörpu (þó að hann titli sig reyndar sem húsvörð í greininni), raunir sínar og lýsir baráttu við kerfið, eða eigendur hússins, Reykjavíkurborg og ríkið.

"Rangt staðsett" skilti kemur all nokkuð við sögu og svo ákvarðanir varðandi fasteignagjöld.

Lýsingarnar á baráttunni við "Kerfið" (með stórum staf) eru oft á tíðum grátbroslegar.

Ég skora á alla að lesa greinina.

En heldur einhver að Harpa sé eina fyrirtækið sem hafi svipaða sögu að segja?

Að ekkert annað fyrirtæki hafi "gengið frá Pontíusi til Pílatusar" og "lent í" kerfinu.

Að af engu öðru húsnæði þurfi greiði gríðarlega há fasteignagjöld?

Var ekki einmitt í fréttunum fyrir fáum dögum að helmingur leigutekna af húsnæðinu þar sem Bíó Paradís er til húsa fari í að greiða fasteignaskatt til Reykjavíkurborgar?

Fasteignaskattar fara ekki eftir tekjum, heldur fasteignamati.

Er ekki Harpa á einhverri dýrustu lóð sem hægt er að finna á Íslandi?  Er ekki Harpa eitt dýrasta (ef ekki dýrasta) hús (á fermetra) sem hefur verið byggt á Íslandi?

Er þá ekki eðlilegt að fasteignaskattarnir séu gríðarlega háir?

Á ríkisfyrirtæki að fá einhvern afslátt af því að tekjurnar af starfseminni eru ekki í takt við verðmæti fasteignarinnar?

Myndi eitthvert einkafyrirtæki fá það?

P.S. Svo má auðvitað með hliðsjón af þessu velta fyrir sér hvers vegna ríkisfyrirtæki eins og Landsbankinn vill endilega byggja risahús þarna við hliðina.

 

 

 

 


Er alltaf best að skriffinnar ráði ferðinni í tækniframþróun?

Árátta Evrópusambandsins að "staðla" allt til "hagsbóta" fyrir neytendur er velþekkt.  Persónunlega er ég þó þeirrar skoðunar að athygli þeirra hafi oft á tíðum farið á ranga staði og "staðlarnir" hafi náð yfirhöndinni þar sem það er ekki nauðsynlegt, en ef til vil síður þar sem þörf væri á, það er ef til vill önnur saga.

En deilur á milli Apple og "Sambandsins" hafa verið nokkuð til umfjöllunar upp á síðkastið.

Það verður ekki á móti því mælt að það er ákveðin hagræðing sem fellst í í því að aðeins megi nota eitt tengi til þess að hlaða farsíma og ákveðin tæki.

Eins og "Marteinn Mosdal" hefði komist að orði:  Eitt ríkistengi, fyrir alla, ekkert markaðskjaftæði.

Og það mun sjálfsagt spara neytendum örlítið fé, samkeppni í sölu á snúrum mun aukast og svo kallaðir "3ju aðilar" eiga greiðari leið að markaðnum. Þeir sem lítið þekkja til tækninnar munu síður eiga á hættu að kaupa ranga snúru.

En hvað ef svo er fundin upp mikið betri tenging?

Þá þarf auðvitað að bíða eftir því að "Marteinar" Evrópusambandsins samþykki þá tengingu og geri hana að "hinni einu réttu tengingu".

En ef svo er fundin upp enn betri tenging?  Hvað gere "Mosdalir" Evrópusambandsins þá?

Þannig er auðvelt að sjá að rök Apple um að slíkar samþykktir hefti framþróun eigi við rök að styðjast.

Ætli það sé algengt að kaupendur Apple síma og "padda" geri sér ekki grein fyrir því að "tengin" á þeim eru öðruvísi?

Það er ef til vill ekki tilviljun að flest öll stærri tæknifyrirtæki samtímans eru ekki staðsett í "Sambandinu".

 


Bloggfærslur 4. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband