Þegar stórt er spurt: Geta "vondir" einstaklingar skapað "góða" list?

Enn og aftur er Polanski í miðju deilu sem þó nær yfir mun stærra svið.

Geta "vondir" einstaklingar skapað "góða" list?

Nú er auðvitað umdeilanlegt hvað er góð list og allt það, og stundum má efast um sekt viðkomandi einstaklinga, en það er þó varla í tilfelli Polanski´s.

En hvers vegna hefur hið hámenningarlega og lýðræðislega Frakkland neitað að framselja hann?  Er það vegna þess að einhver önnur lögmál gilda um listamenn en aðra "dauðlega" einstaklinga? Er það ef til vill vegna þess að í Frakklandi þess tíma þótti "framferði" Polanskis nokkuð sjálfsagt mál?

Ekki veit ég svarið við því.

Er Bíó Paradís sem sýnir nýjust mynd Polanski´s að leggja blessun sýna yfir að "nauðgari" gangi laus?  Er bíóið að kynda undir einhverri "nauðgunarmenningu"?

Ekki veit ég svarið við því.

Er Reykjavíkurborg, sem styrkir Bíó Paradís, að leggja blessun sína yfir það að kvikmyndir "nauðgara" séu sýndar (og þá niðurgreiddar af Reykjavíkurborg) í Reykjavík?

Ekki veit ég svarið við því.

Eru leigusalar Bío Paradísar samábyrgir fyrir því að verið sé að sýna myndir "nauðgara" í húsakynnum í þeirra eigu? (Varð eiginlega að koma þessu að vegna fréttanna undanfarna daga).

Ekki veit ég svarið við því.

Er mögulegt að skilja á milli höfunda og verka þeirra eða ekki?

Um það hefur oft verið deilt undanfarin ár.

Það nægir að nefna nöfn eins og Woody Allen, Michael Jackson, Kevin Spacey, Bill Cosby og já Roman Polanski.

Þó er munurinn sá að af þessum einstaklingum hafa aðeins Bill Cosby og Roman Polanski verið sakfelldir, alla vegna eins langt og minni mitt nær.

En ég viðurkenni fúslega að hafa notið "listaverka" sem þessir einstaklingar hafa komið nálægt, jafnvel eftir að viðkomandi hafa verið sakfelldir.

En listamenn hafa einnig legið undir ámæli fyrir pólítískar skoðanir sínar eða "daður" í "óæskilegar" áttir.

Norðmenn hafa til dæmis átt í "erfiðu" sambandi við Hamsun, eftir "samgang" hans við nazista. 

Íslendingar þekkja einnig umræðuna um Gunnar Gunnarsson og Guðmund Kamban. 

Halldór Laxness "lofsaung" kommúnista og hylmdi yfir voðaverkum þeirra. Ættu Íslendingar að taka það með í reikninginn þegar þeir meta skáldverk hans?

Persónulega held ég að hver og einn verði að ákveða allt þetta fyrir sig.

Ég setti inn hér að ofan "ég veit ekki svarið við því", vegna þess að ég tel ekkert eitt svar rétt.

Hér gildir ákvörðun hvers og eins.

Ég hef aldrei átt erfitt með að skilja á milli pólítískra skoðana eða gjörða og "afurða" listamanna.

Ég hef notið mynda Woody Allen, þrátt fyrir ásakanir á hendur honum, ég hef horft á myndir Polanskis þó að ég viti af sekt hans.

Ég les bækur Hallgríms Helgasonar, þrátt fyrir að gefa minna en ekkert fyrir pólítískar skoðanir hans, það truflar mig ekkert við að lesa bækur Einars Kárasonar að hann hafi verið í framboði fyrir Samfylkinguna, og Einar Már Guðmundsson er minn uppáhalds rithöfundur þó að pólítískar skoðanir hans falli ekki að mínum.

Ef svo bæri undir gæti ég alveg hugsað mér að lesa skáldsögu eftir  morðingja.

Og ég veit að Halldór Laxness er í uppáhaldi hjá mörgum þó að þeir telji hann eiga skilið skömm í hattinn fyrir að hafa hylmt yfir voðaverkum kommúnista.

Kastar "pedófílískur" boðskapur leiðtoga vinstrisinnaðra hreyfinga í kringum 1970 og seinna græningja, skugga á þær hreyfingar, eða gerir það að verkum að leiða ætti hjá sér allan boðskap þeirra?

Auðvitað ekki, alla vegna ekki af þeim ástæðum.

En fer best á, eins og í mörgum tilfellum best á að hver ákveði fyrir sig. Sumir ákveða að sniðganga mynd Polanskis, aðrir ganga lengra og sniðganga Bíó Paradís fyrir að veita henni brautargengi.

Aðrir njóta hennar og annara listaverka, burtséð frá öðrum (mis)gjörðum listamannanna.

Ef til vill er best að enda þetta á "c´est la vie".

 


mbl.is Reiði vegna 12 tilnefninga J'accuse
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að drífa í hlutunum - Hafa líkurnar á því að Bretland yfirgefi "Sambandið" án samnings hafa minnkað?

Það hafa ýmsir viðrað þá skoðun að það sé ekki klókt af Boris Johnson og ríkisstjórn hans að binda það að aðeins verði gefnir 11. mánuðir til þess að ljúka samningi á milli Bretlands og "Sambandsins" eftir að Breland gengur úr "Sambandinu" þann 31. janúar næstkomandi.

En ég er þeirrar skoðunar að það sé afar klókt af honum.

Hann sendir einföld en skýr skilaboð til "Sambandsins": Við spilum ekki eftir ykkar reglum og taktík lengur.

Annað hvort einhenda menn sér í verkið eða Bretland gengur út án samnings.

Bretland ætlar ekki að taka við löggjöf frá öðrum ríkjum.  Ekki láta dómstól annarra ríkja vera "efsta lagavald", og ekki fara eftir duttlungum "Sambandsins" við samningaborðið.

"Sambandið" og Breskir "aðstoðarmenn" þess hafa haldið Breskum stjórnmálum í gíslingu um all nokkra hríð.

Boris segir ekki lengur.  Breskir kjósendur hjuggu á hnútinn og nú er samhent þing og rikisstjórn við völd í London.

Bretland vill út, og fer út, með eða án samnings.

Ég fagna þessari afstöðu Bretlands.  Það verður án efa erfitt að skilja við "Sambandið" og ýmis vandamál eiga eftir að koma fram, og það verður ekki gert lítið úr þeim.  En til lengri tíma opnar þetta möguleika sem verða til hagsbóta fyrir Breta.

En það er ekki sopið kálið, eins og stundum er sagt. Ég held hins vegar að með Boris Johnson og nýtt þing hafi Bretar hitt á nokkuð rétta blöndu. 

Það er áríðandi að við stjórnvölinn séu einstaklingar sem hafi trú á Bretlandi og getu þess til að standa utan "Sambandsins".

Það vantaði þangað til Boris kom til sögunnar.

En það þarf að vinna rösklega og ljúka málinu. 

Þæfingurinn og "málþófið" undanfarin ár hefur nú þegar kostað Bresku þjóðina risavaxnar fjárhæðir, því hvort sem að menn eru með eða móti Brexit, sorglegt að þurfa að segja að það hafi verið vísvitandi. Flestum sé ljóst að óvissan og þæfingurinn er það versta.

Það þarf niðurstöðu.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig spilast úr stöðunni, hve fljótt fyrstu fríverslunarsamningarnir koma og hvernig viðræðurnar við  "Sambandið" munu ganga.

En það er rétt hjá Boris að fullveldið er auðlind, en rétt eins og aðrar auðlindir þarf að halda á notkunni af skynsemi.  Það kemur í ljós á næstu árum hvernig Bretum gengur.

En það er líka vert að hugsa um hvernig samningsaðilar eru að taka sér stöðu.  Er rökrétt að fisveiðiréttur sé upp á borðum í viðskiptasamningum? Myndi Íslendingum einhverntíma hugnast að skipta á fiskveiðiréttindum og betri viðskiptakjörum? 

Er rökrétt að samstarf í öryggismálum tengt viðskiptasamningum?  Er rökrétt að ríki taki upp mikið af löggjöf frá öðru ríki til að fá betri viðskiptakjör?

Myndu Íslendingar geta hugsað sér í framtíðinni að taka við einhverri framtíðarlöggjöf frá Bandaríkjunum, í staðinn fyrir betri viðskiptakjör? (Ekki mín tillaga :-)

Með útgöngu Breta úr "Sambandinu" hefst að ýmsu leyti nýr kafli, með tækifærum og hættum, það er mikilvægt að halda vel á spöðunum - fyrir alla aðila.

Dagurinn í dag er tímamótadagur í mörgum skilningi.

P.S. Ég sá að RUV hafði fjallað um Brexit í Kastljósinu, svo að ég ákvað að horfa á það. RUV hefur líklega ekki símanúmer hjá neinum sem lítur jákvætt á útgöngu Breta, enda var talað við Baldur Þórhallsson og Gylfa "Kúbu norðursins" Magnússon.

Hallinn í fjölmiðlum fellst oftar en ekki hvernig er staðið að vali á viðmælendum.

 


mbl.is Fullveldið mikilvægara en tollalaus viðskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband