Engin þjóð hefur skattlagt sig úr hófi til velsældar

Þetta er athyglisverð frétt og ákaflega sönn.  Það er rétt að þegar talað er um að stórauka skatta, bitnar það alltaf á millistéttinni.

Ekki aðeins vegna þess að þar er "stóri skattstofninn", heldur líka hitt að hún hefur alla jafna minni möguleika á því að "hagræða", "flytja" og "flýja" skattlagninguna heldur en þeir sem hafa verulega háar tekjur.

En áhrifin, eins og segir í fréttinni:  "Hætt­an við slík­ar aðgerðir felst ávallt í hækk­un jaðarskatt­heimtu sem síðan dreg­ur úr vinnu­vilja þegar fólk átt­ar sig á því að auk­in vinna skil­ar nær eng­um auka­tekj­um."

Raunar er hætta á því þegar þrepaskipt skattkerfi er við lýði að hærri laun þýði minni ráðstöfunartekjur

Hve margir eru það sem vilja leggja eitthvað á sig þegar ríkið ætlar að taka meirihlutann af laununum?

Það kanna að hljóma vel að skattleggja "ofurlaun", en hvað er verið að ræða um? Hafa sjómenn ofurlaun?  Hafa læknar ofurlaun?

Þegar rætt er um slíkt er vert að hafa í huga að sjómenn vinna 12 tíma á dag, hvern dag út a sjó, og eru í burtu frá fjölskyldum og þægindum sem við flest lítum á sem sjálfsögð.

Ríflega hálf þjóðin (eða svo) var svo með böggum hildar, vegna yfirvofandi læknaskorts fyrir fáum árum. Læknar vildu víst allir fara til starfa erlendis.

Telja Íslendingar virkilega að rétta leiðin til þess að hald þeim á Íslandi sé að hækka á þá skattana?

Það er sömuleiðis vinsælt að tala um að hækka fjármagnstekjuskatta.

Hvað það varðar er vert að hafa í huga að fjármagn er oft eitthvað sem einhver lagði til hliðar, sparaði, stundum tekið að láni, en tekjurnar koma oft með því að taka áhættu, jafnvel að tapa öllu fjármagninu.

Er rétt að letja einstaklinga til þess með of mikilli skattheimtu?

Og þar ættum við einnig að taka tillit til misjafnar stöðu einstaklinga.

Er ekki eðlilegt að 66 ára einstaklingur eigi meiri sparnað en sá sem er 28 ára? Er rétt að refsa þeim eldri, bara vegna þess að hann hefur verið duglegur að leggja fyrir?

Allt þetta er rétt að hafa í huga þegar greidd eru atkvæði á morgun.  Ég skora á Íslendinga að hafna þeim flokkum sem hafa aðeins aukna skattpíningu í huga.

Hafna þeim sem vilja hegna þem sem hyggja að sinni eigin framtíð og vilja búa í haginn fyrir sig og sína.

 

 

 

 


mbl.is Skattleggja á millistéttina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkuð sem vert er að hafa í huga

Það eru ótal fletir sem vert er að hafa í huga þegar rætt er um hvort Ísland ætti að verða aðili að "Sambandinu".

Einn af þeim er sá sem hér er rætt um, tollar og önnur gjöld sem leggjast á innfluttar vörur. Þeim vöruflokkum sem bera tolla myndi fjölga gríðarlega ef til þess kæmi að Ísland gengi í Evrópusambandið.

Sumir hafa talað um "Sambandið" eins og það væri fríverslunarbandalag. En í raun er ekki síður rökrétt að tala um það sem tollabandalag.

Fríverslun er vissulega innan "Sambandsins" en þegar kemur að viðskiptum við lönd sem standa utan þess, er allt annað upp á teningnum.

Eins og fram kemur í fréttinni, er líklegt að aðeins fjölgun tollvarða myndi kosta Íslendinga stórar fjárhæðir á ári.

En það er ekki ólíklegt að margir hugsi til þess að ef Íslendingar gengu í "Sambandið" myndi vera hægt að flytja inn ýmsar landbúnaðarvörur á mun lægra verði en þekkist á Íslandi í dag.

Það er í sjálfu sér rétt.

En ef Ísland stendur utan "Sambandsins" og vilji er til þess að aflétta innflutningsbanni á margar landbúnaðarvörur, þá geta Íslendingar hæglega gert það á eigin spýtur, og það er langt í frá að besta verð á landbúnaðarvörum fáist í löndum Evrópusambandsins.

Þannig gætu Íslendingar hæglega átt viðskipti með landbúnaðarvörur við ótal ríki, jafnt utan sem innan "Sambandsins", ef það er vilji þjóðarinnar.

Staðreyndin er sú að vægi Evrópusambandsþjóðanna í heimsviðskiptum fer minnkandi og gerir það líklega enn frekar á komandi árum.

Fyrir Íslendinga mun það mikilvægi enn frekar minnka, þegar Bretland, ein mikilvægasta viðskiptaþjóð landsins gengur úr "Sambandinu".

Sjálfsforræði og fullveldi landsins er auðlind sem hefur gefið vel af sér á undanförnum árum og mun halda áfram að gera það, ef rétt er á málum haldið.

Ég skora á kjósendur að hafa  það í huga sér á morgun og gefa ekki þeim flokkum atkvæði sitt sem stöðugt daðra við "Sambandsaðild", þó að þeir kjósi að gefa aðlögunarviðræðum þekkilegri nöfn, eins og aðildarviðræður, könnunarviðræður, eða annað í þeim dúr.

 


mbl.is Hærri tollar og stærra bákn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband