Allt í hund og kött á kaffihúsum Íslendinga?

Ég las það á vef Vísis að nú hafi Umhverfisráðherra Íslendinga ákveðið að leyfa veitingahúsaeigendum náðarsamlegast að ákveða það sjálfir hvort að gæludýr séu leyfð á stöðum þeirra eður ei.

Þó að ég verði að viðurkenna að mér þykir það orka tvímælis að ráðherra í starfsstjórn og án að segja má nokkurrar umræðu (og engin umræða á þingi?) ákveði slíkar breytingar, þá fagna ég þeim.

Ekki það að ég eigi hund eða kött, heldur hitt að sú staðreynd að ákvörðunin skuli færð til eigenda veitingahúsanna hugnast mér afar vel.

Sjálfur fer ég af og til með börnunum mínum á kaffihús þar sem u.þ.b. tugur katta leikur lausum hala.  Þau kunna vel nálegðinni við kisurnar og mér sýnist allir fara ánægðir þaðan á brott.

En það er spurning hvort að ekki sé rétt að leyfa eigendum veitingahúsa að ákveða fleira sem varðar rekstur þeirra og hvað sé leyft og hvað ekki í húsakynnum þeirra.

Er til dæmis ekki rétt að leyfa veitingahúsaeigendum að ákveða hvort að sé reykt í húsakynnum þeirra, nú eða veipað?

Sjálfur reyki ég ekki og hef ekki gert í u.þ.b. 15 ár, en ég get vel unnt reykingamönnum að hafa einhver kaffihús eða veitingastaði þar sem slíkt væri leyft.

Reykingamenn og "veiparar" eru vissulega ekki jafn krúttlegir og hundar og kettir, en ef við lítum fram hjá því, er ekki rétt að ákvörðunin sé þeirra sem standa í rekstrinum, þ.e. veitingamannana?

P.S. Vill einhver reyna að ímynda sér fjaðrafokið sem hefði orðið ef einhver ráðherra hefði nú talið sig geta leyft veitingahúsaeigendum að ákveða hvort gestir þeirra mættu reykja eða ekki, svona "þrjár mínútur" í kosningar?

 

 


Bloggfærslur 26. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband