Færsluflokkur: Matur og drykkur

Svipmynd úr súpermarkaði

Það er svolítið sérstakt að ganga inn í súpermarkað þar sem allir eru með grímur og öllum er skipað að halda sig í skikkanlegri fjarlægð frá hver öðrum.

En svo kemur sumarið til skjalanna og hópur fólks stendur í miðjum súpermarkaðnum og handfjatlar vatnsmelónur af miklum ákafa, í leit að þeirri bestu og stærstu, því þær kosta það sama óháð stærð eða þyngd.

Allir eru ábúðarmiklir með grímu fyrir andlitinu og strjúka melónum og banka í þær.

 


Frakka netverslunin

Það er ekki nauðsynlegt að vera Franskur til að opna netverslun með áfengi fyrir Íslendinga, en líklega þarf að vera hæfilega frakkur.

En "Franskri" netverslun með hluta af starfsemi sinni, eða samstarfsaðila á Íslandi eru flestir vegir færir.  Þannig er lagaumhverfið sem Íslendingum og Íslenskum fyrirtækjum er boðið upp á.

Eiginlega til skammar.

Hvað eru margar vikur síðan ríkisstjórn og Alþingi heyktist á að breyta fyrirkomulaginu til eðlilegra horfs?

Aðeins var þó um örlítið skref að ræða.

Að leyfa innlendum vefverslunum að starfa á jafnréttisgrundvelli gegn erlendum.

En á meðan margir stjórnmálamenn (og áhangendur þeirra) eru þeirrar skoðunar að sjaldan eða aldrei "sé rétti tíminn" til að ræða svona mál, "Erum við ekki í miðjum faraldri", þá heldur lífið utan stjórnmálanna áfram.

Sjálfsagt munu einhverjir stjórnmálamenn, sem og hluti almennings vilja "skerpa á reglum", "herða lögin", "bara banna þetta". 

Það verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum yfirvalda.

ÁTVR telur líklega að "hætta sé á að grundvöllur fyrirtækisins bresti".  Verði svo er það sérstakt fagnaðarefni.

Ríkið mun eftir sem áður taka til sín stærstan hluta áfengisverðs, skattar sjá til þess.

En það er jákvætt ef áfengisala á Íslandi er á leið inn í 21. öldina.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Bjórinn er 25% ódýrari í nýrri netverslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott og tímabært skref

Það er löngu tímabært að liðka til í reglum um heimaslátrun.  Það á svo eftir að koma í ljós hvernig þetta á eftir að nýtast bændum og neytendum.

Persónulega er ég bjartsýnn hvað það varðar og hef trú á því að bændur verði fundvísir á leiðir til að byggja betra samband við neytendur og finna styrkja jafnframt grundvöllinn fyrir búum sínum.

Ég held að þetta sé því býsna merkilegt skref og vonandi verður árangurinn slíkur að þetta verði útvíkkað og fært yfir til fleiri búgreina.

En nú færist "boltinn" yfir til bændanna og ég býð spenntur eftir að sjá hvernig þeir nýta þetta tækifæri.

Kristján var svo í viðtali um þetta efni í Bítinu í morgun, þar segir hann að þetta hafi ekki gengið átakalaust og þurft hafi að berjast við "kerfið" og hagsmunaaðila.

Er það ekki í takt við umræðuna í dag?

En ef til vill þurfti stjórnmálamann sem er að hætta til að taka af skarið?


mbl.is Kristján Þór heimilar slátrun beint frá býli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er gott fyrir vín að eldast í geimnum?

Vín batnar með aldrinum, því eldri sem ég verð því betra finnst mér það. En að öllu gamni slepptu þá hefur lengi verið leitað að leið til að "elda" vín við ýmsar aðstæður.

Það er áríðandi að vínið eldist við bestu aðstæður og auðvitað æskilegt að það sé drukkið sem næst toppi gæða þess (þar geta verið skiptar skoðanir).

En nú á víst að fara að bjóða upp eina af vínflöskunum frá Petrus, sem voru sendar út í geiminn, til Alþjóðlega Geimstöðvarinnar og geymdar þar í þyngdarleysi í kringum ár.

Margir sérfræðingar segja að það sé enginn vafi á því að gæðin hafi aukist umtalsvert við geimdvölina og búist er við að flaskan seljist fyrir metfé, jafnvel allt að milljón dollurum.

Með í kaupunum fylgir samskonar flaska (Petrus 2000 árgangur)sem aldrei hefur ferið í geimferð, alveg ókeypis, þannig að væntanlegur kaupandi mun geta borið gæði vínsins fyrir og eftir geimferð, fari svo að flöskurnar verði opnaðar.  Reyndar mun "jarðbundna" flaskan kosta allt að 10.000, dollara, þannig að ef "lífsreynda" flaskan selst á milljón, má líta á það sem 1% afslátt.

Hér er svo grein frá Decanter, sem segir frá smökkun á annarri "geimferðarflösku" og þar er talað um að hún sé 2 til þremur árum á undan "á þróunarbrautinni".

Það er reyndar ekkert minnst á kolefnissporið, sem kom mér nokkuð á óvart.

En svo fór ég að velta því fyrir mér hvernig þetta hljómar á Íslenskunni.  Myndi ég segja að verið sé að bjóða upp "geimelt" vín?

 

 

 


Vatnsdeigsbollur í fyrsta sinn

Hjá mér hefur það fylgt því að búa erlendis, að þegar löngun í "Íslenskan" mat vaknar þá hef ég þurft að lára að gera eitt og annað sjálfur.

Þannig lærði ég að búa til graflax, ég sýslaði við skyrgerð fyrir mörgum árum, sem betur fer þarf ég þess ekki lengur, enda margar tegundir af skyri í flestum verslunum núorðið.

Ég hef sömuleiðis soðið bæði rauðrófur og -kál fyrir flest jól, soðið baunasúpu og svo að sjálfsögðu bakað bollur.

VatnsdeigsbollurÞað er eiginlega með eindæmum að bakarar víða um heim hafi ekki uppgötvað hvað mikill fengur væri að bolludeginum fyrir þá.

Venjuleg hef ég bakað venjulegar gerbollur og fyllt þær rjóma og húða með súkkulaði.

En nú rakst ég á góða uppskrift á Vísi og tók bollubaksturinn á næsta stig og bjó til vatnsdeigsbollur.

Það tókst svona ljómandi vel, uppskriftin virðist algerlega "ídíótaheld" þó að ef til vill megi deila um hvað vel tókst til með lögunina.

Það gleymist þó þegar rjómi, sulta og súkkulaði er bætt við.

P.S. Svo ég nöldri nú yfir einhverju, þá verð ég eiginlega að benda á að það jaðrar við "upplýsingafölsun" að kalla þetta vatnsdeigsbollur, eiginlega ættu þær að heita smjörbollur.

En það hljómar vissulega heilsumsamlegar að segjast hafa fengið sér 3. vatnsdeigsbollur en að hafa sporðrennt þremur smjörbollum.

 

 

 


Með "skömmtunarmiða" frá Framsókn í bjórkaupum?

Þó að ég fagni því að meira að segja í Framsóknarflokknum skuli vera komin hreyfing í frelsisátt á sölu á áfengi, þá get ég ekki finnst mér skrýtið að vilja setja svona gríðarleg takmörk á þann fjölda sem megi kaupa af bjór hjá framleiðendum.

Það er svona eins og að vera með skömmtunarmiða um hvað megi kaupa mikið áfengi.

Er eitthvað hættulegra að kaupa bjór hjá framleiðenda en hjá ÁTVR, eða er fyrst og fremst verið að hugsa um að tryggja hagsmuni ríkisfyrirtækisins ÁTVR?

Þó er t.d. alveg hugsanlegt að ölgerð sé í bæ þar sem engin verslun ÁTVR, er.

Er rétt að takmarka kaup til dæmis Akureyrings sem staddur er a Höfn í Hornafirði, við 6. bjóra?  Hvers vegna ætti hann ekki að geta tekið með sér nokkra kassa ef honum líkar ölið?

Hið opinbera tapar engu, enda verða eftir sem áður allir skattar og álögur hins opinbera innheimtar.

Þó að vissulega sé þörf á stærri skrefum í frjálsræðisátt, er ástæða til að fagna þessu littla skrefi sem dómsmálaráðherra leggur fram, og engin ástæða til þess að setja þau magn takmörk sem Framsóknarfólk vill.

Hitt er svo að það er ástæða til þess að taka upp tillögu Framsóknarfólks um að smásöluheimild nái einnig til þeirra sem framleiða léttvín sem og sterk.

Þannig mætti gera betra frumvarp með því að taka það besta úr báðum.

En ég held að það sé varasamt að taka upp tillögu Framsóknarfólksins um að mismunandi áfengisskattur sé eftir þvi hvað mikið magn framleiðandi framleiðir.

Þó að ég skilji hugsunina að baki, þá er varasamt að skattur sem áfengisskattur sé mismunandi eftir framleiðslu, það eiginlega stríðir gegn tilgangi hans.

Það er að mínu mati skrýtin skattastefna að verðlauna óhagkvæmari framleiðslu.

Það má hins vegar velta því fyrir sér hvenær í söluferlinu áfengisskattur eigi að greiðast.

Það er eftirsjá af tillögu um innlenda netverslun með áfengi úr frumvarpi dónsmálaráðherra.

En ef engin stemmning er fyrir slíku á Alþngi, verður svo að vera.

Það væri þó gaman að sjá slíka breytingartillögu lagða fram, og í framhaldi af því atkvæðagreiðslu til að sjá hug þingheims.

En það er vert að hafa í huga að það verða 32. ár, þann 1. mars næstkomandi frá því að löglegt var að selja bjór á Íslandi.

Það er ekki lengra síðan að afturhaldið og forsjárhyggjan varð að láta undan hvað það varðar.

En það er gott að áfram er málum otað í frjálsræðisátt, jafnvel þó að hægt fari.


mbl.is Ölsala handverksbruggara leyfð en ekki vefverslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar atvinnugreinar losna úr helgreipum einokunar og hins opinbera

Það er líklegt að margir muni ekki hvernig var umhorfs á Íslenskum áfengismarkaði hvað varðar innlenda framleiðslu, fyrir t.d. 35. árum síðan.

Framleiðslan helgaðist af Brennivíni, Hvannarótarbrennivíni, Kláravíni og nokkrum tegundum til víðbótar sem ÁTVR þóknaðist að framleiða.  Eitthvað var rembst við að flytja út og meira að segja hannaðr miðar á flöskurnar sem voru mun meira aðlaðandi en þeir sem brúkaðir voru á heimamarkaði.

Heima fyrir þótti það goðgá að hafa eitthvað heillandi við framleiðsluna.

Síðan fluttust málin hægt og sígandi í annan farveg.  Mig minnir að "Icy" hafi verið framleiddur í Borgarnesi um miðjan 9unda áratug síðustu aldar.  Framleiðsla ÁTVR var svo seld snemma á þeim 10unda að ég tel.

Stóra stökkið var svo þegar bjórinn var loks leyfður 1. mars 1989.  Þá fóru framleiðendur eins og Ölgerðin og Viking brugg á fulla ferð.

En vegna sölufyrirkomulags var engin leið að smærri framleiðendur hæfu starfsemi.

Þetta hefur sem betur fer breyst.

Nú er svo komið að brugghús á Íslandi teljast í tugum og veita erlendum aðilum harða samkeppni.  Brugghús á landsbyggðinni hafa ekki síst vakið athygli og náð vinsældum.

"Brennd" vín eru sömuleiðis framleidd hjá fjölda fyrirtækja og framleiðsla á vínanda úr mysu er hafin.

Framþróun hefur verið gríðarleg.

Viðtökur innanlandsmarkaðar hafa verið góðar og nú má kaupa Íslenskan bjór og einnig sterk vín í ótal löndum og þau hafa unnið til fjölda verðlauna.

Eftir hæga byrjun hefur þessi iðnaður sprungið út á undanförnum áratug.

En fyrst þurfti hann auðvitað að losna úr helgreipum einokunar og "drakónískra" laga hins opinbera.

Sem betur hafðist það í gegn.

Nú þegar Steingrímur Sigfússon er að hverfa af Alþingi, hverfur líklega síðasti þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn því að leyfa sterkan bjór á Íslandi. 

En hann átti býsna mörg skoðanasystkyn og framan af voru þau í meirihluta.

Líklega má finna fleiri atvinnugreinar, þar sem ekki veitir af frelsisvindum.

 


mbl.is Nýr ævintýralegur bjór frá Ölverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir mega baka piparkökur - nú eða sörur?

Eftir umræður hér á blogginu mínu um lögverndun starfsgreina var mér bent á að Íslendingar ræddu mikið sín á milli og eitthvað í fréttum um "svartar sörur".

En vaxandi eftirspurn mun vera eftir slíku lostæti meðal Íslendinga.  Mér var sagt að þeir umsvifamestu bökuðu og seldu þúsundir sara fyrir jólin.

En þetta er auðvitað ólöglegt. 

Slíkur bakstur ætti að fara fram hjá fagmanni, í viðurkenndu rými, þar sem heilbrigðiseftirlit hefur gefið sinn stimpil, og svo þarf að sjálfsögðu að gjalda ríkinu það ríkisins er.

Þó að ég sjái ekkert því til fyrirstöðu að "ófaglærður bakari" geti sett á stofn lítið fyrirtæki og bakað sörur, get ég ekki séð hvernig hægt er að verja um slíkt gildi ekki sömu lög og sömu kröfur séu gerðar og til annara fyrirtækja í sama geira.

Eðli máls samkvæmt eiga allir að vera jafnir fyrir lögum og reglugerðum.

En hvað varðar lögverndun starfsgreina er hægt að bera samtn t.d. mismunandi matvælaframleiðslu.

Íslendingar hafa gengið í gegnum það sem kalla má "ísbyltingu". Alls staðar eru ísbúðir. 

Þó eru til þess að gera fá ár síðan að segja má að svo gott sem allur ís hafi verið framleiddur í tveimur fyrirtækjum.

En það er ekki boðið upp á nám í ísgerð (að ég best veit), og ísgerðarmaður er ekki lögverndað starfheiti. 

Væru allur þessi fjölbreytileiki í ísgerð á Íslandi ef svo væri.

Um slíkt er ekki hægt að fullyrða, en ég tel það ólíklegt.

En skortur á skóla fyrir ísgerð hefur ekki komið í veg fyrir metnað eða að ísgerðarmenn afli sér þekkingar.

 

 


Hvað er pítsaostur?

Ekki ætla ég að dæma um hvort að tollsvik hafi verið framin við innflutning á osti til Íslands, eða hvort ostur hafi verið fluttur inn sem "ostlíki".

En sú spurning sem vaknar hjá mér er: Hvað er Pítsaostur?

Er það mjólkurafurð eða eitthvað annað?  Hvað má blanda mikilli jurtaolíu í "ost" svo að hann sé enn "ostur" og þar af leiðandi mjólkurafurð?

Eiginlega hlýtur það að vera mergurinn málsins.

Þar þarf að hafa í huga umræðu um hvort að hægt sé að kalla eitthvað nöfnum eins og mjólk, ost o.s.frv, ef varan inniheldur lítið eða ekkert af mjólkurafurðum.

Þetta er ein af þeim ástæðum að ég kýs næstum alltaf að búa til mínar eigin pítsur.  Það er lélegt hráefni í fjöldaframleiddum pítsum.

Það er svo mikið betra að hafa stjórn á því hvað og í hvaða gæðaflokki hráefnið sem fer á pítsuna er.

 

 


mbl.is Ekkert misferli í pítsuosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa Íslendingar verið að sniðganga erlendar vörur?

Fáar þjóðir eru jafn háðar millilandaviðskiptum og Íslendingar.  Þjóð sem framleiðir langt umfram eigin þörf af fiski og rafmagni.

Það er ekki síst vegna þess sem sú kreppa sem fylgir viðbrögðum þjóða heims við Kórónuveirunni eiga eftir að verða Íslendingum erfið.

En þessi viðbrögð eru ef svo má að orði komast alþjóðleg.  Það er að verða "þjóðleg".

Allar þjóðir heims eru meira og minna að hvetja eigin þegna til að neyta meira af innlendum afurðum.

Íslendingar ekki undanskildir.

Við höfum heyrt að Frakkar hvetja sitt fólk til borða meiri ost, Belgar og Kanadamenn hvetja sitt fólk til að borða meira af frönskum kartöflum.

Ítalir vilja að sitt fólk drekki meira af "local" vínum.  Og svo framvegis.

Sjálfur vildi ég glaður leggja mitt af mörkum, hugsa að ég gæti drukkið meira af Ítölskum vínum og notið með þeim franskra osta.  Ég get alveg hugsað mér að snæða meira "belgískum" kartöflum, sérstaklega ef að steik væri með.

Þegar ástandið er erfitt þjappa þjóðir og hópar sér saman. 

Það eru eðlileg viðbrögð þó að þau geti verið varasöm ef of langt er gengið.

En það er líklegt að víða um heim muni fyrirtæki endurskoða það nú er kallað "aðfangakeðjur" sínar.  (þarf bara að bæta "dags" inní og það hljómar eins og jólaskraut).

Hugsanlega til styttingar og jafnvel auka fjölbreytni, þannig að síður sé hætta á skorti.

En þegar hvatt er til þess að keypt sé Íslenskt er gott að leiða hugann að því að sambærilegar hvatningar heyrast í öllum löndum.

Eins og alltaf er best að miða kaup útfrá samspili verðs og gæða. 

 

 

 

 


mbl.is Frakkar sagðir sniðganga íslenskar sjávarafurðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband