Færsluflokkur: Vísur og ljóð

Í umferðinni

Það var á fimmtudaginn var, það var hellirigning hérna og eins og oft vill verða í svoleiðis tíð þá fór umferðin í köku. Bílar sátu kjurrir, hreyfingin var lítil og ég hafði nægan tíma til að hugsa á meðan ég reyndi að drepa tímann og hlakkaði til að komast heim.

En það þarf reyndar ekki rigningu til, á hverjum morgni og hverjum eftirmiðdegi þá er umferðin hér og þar eins og lítill snigill sem er snúið lafhægt. Ég fór að velta því fyrir mér hvernig á þessu stæði? Hvers vegna er borgarbúum boðið upp á þetta? Er ekki ein af frumskyldum borgaryfirvalda að sjá til þess að borgarbúar komist þokkalega leiðar sinnar? Er ekki sú framkvæmd að gera umferðina betri hagkvæm?

Lítum á hvað tapast í umferðarhnút. Því sem næst kyrrstæðir bílar sóa orku, bensíneyðslan rýkur upp og kostnaður bæði einstaklinganna og þjóðarinnar eykst. Bíll í hægagangi mengar, jafnvel meira heldur en bíll á fullri ferð. Bættar samgöngur ættu því að þýða minni mengun. En umferðarhnútar þýða líka tapaðan tíma. Tíma sem mætti nota til annars.

Auðvitað gætu menn unnið lengur, skilað meiri vinnu, en það sem er þó mikilvægara að mínu mati, er að umferðarhnútar taka mikilvægan tíma sem menn og konur gætu ella eytt með fjölskyldu sinni.

Mótrökin eru svo þau að auðvitað ætti fólk að nota almenningssamgöngur, þær eru ódýrari, þær menga minna enda margt af þeim rafmagnsknúið (jafnvel þó að rafmagnið sé framleitt með kolum, eins og partur af því er hér), og eru þjóðhagslega mun hagkvæmari á ýmsan máta.

En þeim vantar einn mikilvægan þátt. Þær eru ekki tímasparandi. Hér í Toronto er býsna þægilegt og hagkvæmt að ferðast með neðanjarðarlestinni, en afar takmarkað, enda aðeins um 2 línur að ræða (ef til vill 2 og hálfa, eftir hvernig litið er á málið). Síðan taka við mis skemmtilegar strætóferðir eða sporvagnar, kerfið er því ekki mjög liðugt, ef svo má að orði komast, og er langt frá því að standa undir sér.

Síðan eru lestir til borga og bæja hér í kring, sem bjóða svo upp á strætóferðir frá lestarstöðvunum. En þessar lausnir geta ekki að öllu jöfnu, keppt við einkabílinn, hvorki hvað varðar þægindi né tíma, jafnvel þó að umferðartafir komi til.

En hvað er til ráða? Í Toronto búa um það bil 2 og hálf til 3 milljónir manna, "stór Toronto svæðið" telur svo á milli 5 og 6 milljónir. Þetta er ríflega íbúafjöldi Danmerkur ef ég man rétt. Þessir íbúar dreifast yfir ótrúlega stórt svæði, að því leiti minnir Toronto mig oft á Reykjavík, bara mikið stærri. Íbúar beggja borganna virðast líka eiga það sameiginlegt að vilja gjarna búa í sérbýli, með dulítinn garðblett ef það er nokkur möguleiki.

Þó má sjá örlitla breytingu þar á,  bæði í miðbænum og svo líka meðfram neðanjarðarlestinni spretta upp skýjakljúfar. Staðsetning sem gerir almenningssamgöngur fýsilegri og þéttir byggðina umtalsvert.

Er það eina ráðið? Að þétta byggðina, byggja skýjakljúfa? Eða er "evrópska" leiðin betri, þar sem oft má sjá 6 til 7 hæða hús, byggð samfelld, ekkert bil, engin garður umhverfis, kannski smá port í miðjunni?

Eða er rökréttara að reyna að uppfylla óskir íbúanna?  Eigum við fyrst og fremst að snúa okkur að því að gera raunveruleikann betri, sætta okkur við hvernig hlutirnir eru og reyna að bæta það sem við höfum? 

Þetta leiddi líka hugsun mína að því hvort við kjósum okkur pólítíska fulltrúa í þeirri von að þeir uppfylli þarfir okkar í framtíðinni, eða hvort við kjósum þá til að móta þá sömu framtíð?

Þá hlupu hugrenningar mínar til Reykjavíkur, þar sem ég bjó áður.  Þar virðist sem menn og konur hafi meiri áhyggjur af því hvað það gæti hugsanlega tekið langan tíma að fara út á flugvöll, frekar en að velta því fyrir sér hvað tekur fólk langan tíma að fara í vinnuna á morgnana.

En vissulega hefur verið rætt um að þétta byggðina í Reykjavík.  Það hefur þó alltaf verið frekar óljóst hvernig rétt væri að standa að því.  Flugvöllinn vilja jú flestir að ég held burt, þar er nokkuð ónýtt byggingarland.  En hvar annars staðar á að þétta byggðina?  Vissulega væri rökréttast frá hagkvæmnissjónarmiði að gera það í póstnúmerum 101 og 107, og líklega hluta af 105.  Kaupa upp lágreist húsin þar og byggja samfelld 6 til 8 hæða hús.  Verslanir, þjónusta, veitingastaðir og skrifstofur á hæðum 1 til 2 eða 3 og svo íbúðir upp.  Þannig myndi koma öflug og þétt byggð í kringum miðbæinn.  Þegar póstnúmeri 102 (flugvellinum) væri svo bætt við lokaðist hringurinn og góður kjarni væri kominn.

Það er nefnilega til lítils að ætla að fara að þétta byggðina í úthverfum, það eykur bara þann fjölda fólks sem þarf að flytja á milli staða.  Nema auðvitað ætlunin sé að byggja sjálfbær hverfi, hverfi sem menn bæði búi og starfi í.  En það er hægara sagt en gert, sérstaklega ef haft er í huga að hreyfanleiki á vinnumarkaði er æskilegur.

 En það talar enginn um að þétta byggðina í miðborginni, ja nema auðvitað með því að byggja á einum og einum auðum bletti.  Ef hugsa á þéttingu til framtíðar, þarf að skipuleggja svæðið, auðvelda uppkaup og þar fram eftir götunum.  En er það sem Reykvíkingar vilja?  Nú veit ég ekki?

Eða vilja þeir halda áfram í þeim veruleika sem ríkir í dag og viðurkenna að einkabílinn er það farartæki sem þeir hafa kosið sér?  Því sé áríðandi að greiða eins og hægt sé úr umferð, byggja umferðarmannvirki sem geta mætt þeirri umferð sem er á götum borgarinnar og sparað þannig eldsneyti, minnkað mengun og sparað borgarbúum gríðarlegan tíma.

Eða er tími til kominn að gefa frítt í strætó, stórauka skattlagningu á einkabílanotkun (gjald inn í miðborgina, hækka bílastæðagjöld og gera öll bílastæði gjaldskyld o.s.frv) og koma þannig með nauðung í veg fyrir stóraukna notkun einkabílsins sem er fyrirsjáanleg í Reykjavík á komandi árum, með sívaxandi fólksfjölgun?

Ég held að ég kjósi frekari uppbyggingu gatnakerfisins, bæði hér í Toronto og í Reykavík, en þar eru líklega ekki allir sammála mér.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband