Færsluflokkur: Tónlist

Hoppað á hljómsveitarpallinn

Ef til vill er ég bara nöldurseggur, en einhverra hluta vegna fer svona "bandwagon jumping" örlítið í taugarnar á mér.

Nú efast ég ekki um að tónleikarnir voru vel heppnaðir, ég efast ekki heldur um að Miklatún er ágætlega fallið til tónleikahalds.  Ef ég hef réttar upplýsingar þá styrkti borgin umrætt tónleikahald nokkuð myndarlega, það er í sjálfu sér í fínu lagi mín vegna.

En þó að einkaaðili (í þessu tilfelli hljómsveitin Sigur Rós) hafi staðið að vel lukkaðri samkomu þá finnst mér engin ástæða til þess að "borgarvæða" fyrirbærið.  Það er engan vegin nauðsynlegt að koma þessu fyrir hjá opinberum aðilum.

Auðvitað á borgin að taka vel á móti þeim sem koma fram með svipaðar hugmyndir, eða vilja halda tónleika á túninu, en slíkur undirbúningur er betur komin hjá einkaaðilum.


mbl.is Vilja gera tónleika á Miklatúni að föstum lið í bæjarlífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði viljað vera þar.....

Þetta eru tónleikar sem ég hefði gjarna viljað sækja.  Þó að ég geti varla talist með stærstu aðdáendum Sigur Rósar, þá kann ég ákaflega vel að meta tónlist þeirra við sumar aðstæður. 

Persónulega get ég varla ímyndað mér betri stað til að njóta tónlistar þeirra en nákvæmlega staðinn sem um er rætt.  Bæjarstæðið að Hálsi og næsta bæ, Hrauni er svo magnað að ég er ekki hissa þó að stemningin hafi verið góð og tónlistin notið sín vel.

Eftir á hefði svo verið tilvalið að rölta upp að Þverbrekkuvatni, kasta fyrir silung, veiða nokkra titti og grilla þá í sumarnóttinni á bakkanum

Ég sé þetta allt fyrir mér og heyri örlítin óm af tónlistinni.


mbl.is Góð stemning á tónleikum Sigur Rósar í Öxnadal í gærkvöldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinyllinn í laserspilara

Margir hafa ábyggilega heyrt einhvern tjá sig um hvað gömlu vinyl plöturnar hafa fram yfir geisladiskana.  Vinur minn vakti athygli mína á því að nú er hægt að sameina þetta tvennt, fá geislaspilara fyrir gömlu vinylplöturnar mínar.  Hljómgæðin eiga víst að vera ótrúleg.

Það sem helst mun líklega koma í veg fyrir að ég fjárfesti í þessum gæðagrip á næstunni, mun víst vera verðið, en það byrjar víst í kringum milljón íslenskar krónur, og færist svo upp. 

En þeir sem vilja sjá gripinn á netinu geta það hér.  Svo er spurning hvort að ég nái einhvern tíma að heyra í slíkum undragrip.


Úr einu í annað - Bölvun? - númer satans? -

Stundum hefur verið talað um að bölvun hvíli á Kennedy ættinni.  Það var ekki laust við að mér flygi það í hug þegar ég sá þessa frétt í morgun.  Spurning hvort þetta vekur upp einhverja drauga um fyrri bílaóhöpp fjölskyldunnar.  En ég velti því líka fyrir hvað hefði gerst ef svipaður atburður hefði hent í Bretlandi.  Þannig eru fjölmiðlar mismunandi í mismunandi ríkjum.  En hvaða áhrif ætli þetta eigi eftir að hafa fyrir  Patrick Kennedy?

En hér eru fréttir úr NYT og Washington Post , þegar eru komnar fram raddir sem tala um "silkihanskameðferð".  Nú eru ekki svo margir mánuðir til kosninga í Bandaríkjunum, þær verða 7. nóvember ef ég man rétt.  Yfirleitt eru Kennydyar ekki taldir standa höllum fæti í Massachusetts eða Rhode Island, en það er vissulega spurning hvort þetta gæti breytt einhverju þar um?

Sá líka í fréttum að Bubbi Morthens mun halda upp á 50 ára afmælið sitt með tónleikum nefndum 06.06.06, sem mun víst vera afmælisdagurinn hans.  Ég er nú ekki einn af stærri aðdáendum Bubba, en hef samt verið á nokkuð mörgum tónleikum hans, og oftast haft gaman af.  Það hefur auðvitað verið vonlaust að búa á Íslandi án þess að heyra í Bubba og ég hef trú á því að flestir hafi í það minnsta gaman af einu laga hans, ef ekki fleiri.

En það að einn allra ástsælasti rokkari landsins  skuli eiga afmæli þann 06.06.06, finnst mér skemmtileg tilviljun.  Þarf frekari vitnanna við, að það er djöfullinn sem spilar í þessari tónlist?

En að öllu gamni slepptu, þá er þetta skemmtileg dagsetning, og ég leyfi mér að óska afmælisbarninu til hamingju, svona fyrirfram.


mbl.is Tónleikar í sumar í tilefni af fimmtugsafmæli Bubba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband