Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2017
4.1.2017 | 18:11
Dapurlegir aðgerðarsinnar
Ég fyllist alltaf depurð þegar ég horfi á skemmdarverk eins og voru unnin á kirkjum norður á Akureyri nú.
Þó vita líklega flestir sem hafa átt leið um þetta blogg að ég er ekki "kirkjunnar maður". Þvert á móti hef ég oft skrifað hér um þörfina á því að skilja á milli ríkis og kirkju og að þeir sem ekki eru "kirkjunnar menn" séu leystir undan þeirri ánauð að standa undir rekstri hennar.
En skemmdarverk eru ekki réttu verkfærin í þeirri baráttu, rétt eins og gildir um þær flestar.
Jafn sjálfsagt og það er að berjast á móti forréttindum þjóðkirkunnar, eða ef svo ber undir trúarbrögðunum sjálfum, eru skemmdarverk af þessu tagi ekki rétta leiðin.
Það er alltaf jafn dapurlegt að einhverjir skuli grípa til slíkra aðgerða.
En aðgerðarsinnar hafa vissulega notið vaxandi samúðar víða um íslenskt samfélag undanfarin ár, jafnvel innan þjóðkirkjunar.
En það er þetta með að lög skuli gilda, og jafnvel að gjalda skuli keisaranum það sem keisarans er.
Skemmdarverk unnin á kirkjum á Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.1.2017 | 16:46
Skaup í meðallagi
Gaf mér loks tíma til þess að horfa á hið íslenska Áramótaskaup nú í dag. Hafði af því þokkalega skemmtun.
Brosti annað veifið en get ekki sagt að ég hafi hlegið svo eftirtektarvert hafi verið.
En fjölskyldan segir reyndar að það sé erfitt að fá mig til að hlægja upphátt.
En skaupið var í meðallagi gott, ekkert til að kvarta yfir, en ekki ástæða til sérstakst hróss heldur.
Á því eins og stundum áður nokkur pólítísk slagsíða.
Ef til vill ekki við öðru að búast þegar fyrrverandi stjórnmálamaður er leikstjóri.
Enda ef marka má skaupið gerðist ekkert sem grín gerandi er að í Reykjavíkurborg á liðnu ári.
En það er auðvitað ekki hægt að gefa stjórnendum Reykjavíkur neitt pláss í Skaupinu. Þeir myndu þá líklega fylla það á komandi árum.
4.1.2017 | 16:40
Gleðilegt nýtt ár - þakka það sem liðið er
Ég tók mér hlé frá bloggskrifum yfir jól og áramót. Naut lífsins og letinnar.
En ég vil nota þessa fyrstu færslu á nýju ári til þess að óska öllum nær og fjær gleðilegs nýs árs og vona að gæfan verði þeim samferða á nýja árinu.
Þakka jafnframt allt það sem liðið er og öllum þeim sem sett hafa kurteislega orðaðar athugasemdir hér við bloggið.