Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2016
20.8.2016 | 19:04
Hver eru rökin fyrir fyrir því að banna "búrkíni"?
"Búrkíní" hylur vissulega meira af líkama þeirra kvenna sem það kjósa að nota en við vesturlandabúar erum vanir, alla vegna á síðustu árum, en er það ekki einkamál hvers og eins?
Það er ekki hægt að halda því fram að "búrkíni" hylji meira af andliti eða höfði einstaklinga en flestar sundhettur gera, hvað þá t.d. lambhúshetturnar frá 66°N sem börnin mín voru svo hrifin af að nota á veturna.
Og víða í sundlaugum er skylda að nota sundhettur, fyrir bæði konur og karla.
Ég get ekki fundið neina skynsamlega ástæðu fyrir því að banna notkun "búrkína" og það er ef til vill rétt að leiða hugann að því að fyrir ekki svo mörgum áratugum voru bíkíní bönnuð hér og þar, vegna þess að þau þóttu sýna of mikið.
Allt annað er að mínu mati að vilja banna notkun hinna eiginlegu "búrka" og "niqab".
Þar eru andlit notenda algerlega hulin og í raun erfitt að gera sér grein fyrir því er þar er á ferð. Slíkt getur valdið margvíslegum vandræðum í nútíma Vestrænum samfélögum og getur hindrað þátttöku einstaklinga í þjóðfélaginu á ýmsan hátt.
En að banna "búrkíni" er of langt gengið í hina áttina, ef svo má að orði komast.
En því miður er hætta á slíkum "yfirboðum" frá stjórnmálamönnum sem vilja láta líta svo út fyrir að þeir séu að "tækla vandamálin", og slíkt virkar í allar áttir.
Frönsk stjórnvöld verja búrkíníbannið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.8.2016 | 14:33
Er Malta að selja réttinn til að búa og starfa á Íslandi?
Það er mikið rætt um innflytjendamál víða um lönd þessi misserin. Sitt sýnist hverjum eins og í mörgum öðrum málum og jafnvel kemur til handalögmála. Ekki bara á Austurvelli og oft sínu alvarlegri en þar.
Flestum ætti að vera kunnugt að ein af meginstoðum Evrópusambandsins (og þar með Evrópska efnahagssvæðisins EEA/EES) er frjáls för ríkisborgara landa "Sambandsins" þeirra á milli.
En í ýmsum löndum hefur verið uppi kröfur um að það þurfi að takmarka þennan rétt (sem hefur verið gert tímabundið þegar ný ríki hafa gengið í "Sambandið") og er þá skemmst að minnast rökræðna tengdum "Brexit", en margir vilja meina að hin frjálsa för hafi ráðið miklu um hvernig stór hópur kjósenda varði atkvæði sínu, í báðum fylkingum.
En margir hafa bent á að hin frjálsa för veiti ekki aðeins "Sambandinu" völd í innflytjendastefnu hvers ríkis (nú síðast t.d. þegar "Sambandið" vildi fara að "kvótasetja" flóttamenn), heldur einnig í raun hverju einstöku landi innan "Sambandsins".
Þannig geti eitt ríki, í raun haft mikil áhrif á hve margir og hvaða einstaklingar geti ákveðið að búa, eða starfa í öðrum ríkjum, því engin heildstæð stefna eða lög virðast gilda innan "Sambandsins" í þessum efnum.
Nú síðast hefur nokkuð verið fjallað um að Malta sé að selja vellauðugum einstaklingum ríkisborgararétt, og þar með réttinn til að búa og starfa í öllum Evrópusambandsríkjunum (og auðvitað Noregi, Sviss, Liechtenstein og Íslandi). (sjá t.d. umfjöllun hér ).
Það að eitt ríki auðgist á því að selja "aðgang að svæðinu", vekur upp margar spurningar. Reyndar hefur mér skilist að Austurríki sé með ekki ósvipað prógram í gangi.
Í raun gerist sami hlutur þegar einstök ríki "opna" landamæri sín og hleypa miklum fjölda inn í land sitt tiltölulega eftirlitslaust.
Ekki eingöngu geta þeir nú þegar ferðast að miklu leyti eftirlitslaust innan "Sambandsins", heldur má reikna með því að eftir 3 til 8 ár öðlist þeir ríkisborgararétt og geti flutt til hvaða "Sambandslands" sem er (og auðvitað Sviss, Noregs, Lichtenstein og Íslands).
Þannig getur hvert aðildarríkjanna um sig haft umtalsverð áhrif á straum innflytjenda til annara ríkja, sé litið til nokkurra ára, enda ljóst að sum ríki "Sambandsins" hafa mun meira aðdráttarafl en önnur.
Ég hygg að þessar staðreyndir hafi haft meiri áhrif en margur hyggur á það hvernig bretar greiddu atkvæði um brottför landsins úr Evrópusambandinu.
Eitt af slagorðum útgöngumanna var enda "Take Control", eða "Tökum stjórnina", enda margir sem hafa vilja færa "völdin heim" og vilja ekki framselja stjórnina til "Brussel" eða annara ríkja "Sambandsins", jafnvel eins og í þessu tilfelli án nokkurra skýrra laga eða reglugerða.
En það er full ástæða fyrir íslendinga, sem aðrar þjóðir á EEA/EES svæðinu að velta þessu fyrir sér og ræða málin.
Sérstaklega þegar einstaka þjóðir hafa byrjað að selja, eða veita frjálslega búseturéttinn á svæðinu öllu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.8.2016 kl. 05:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.8.2016 | 06:33
Hvað horfir Donald Trump á frá Olympíuleikunum?
Hér eru tveir brandarar sem mér voru sagðir af syni mínum sem rakst á þá á internetinu. Einfaldir en góðir og ollu góðum samræðum okkar á milli, eftir að við hlógum dátt.
Hver er eina greinin sem Donald Trump hefur áhuga fyrir á Olympíuleikunum?
Stangarstökk. Hann vill sjá hvað mexíkönsku keppendurnar stökkva hátt.
Hvað gerir Usain Bolt ef hann missir af strætó?
Hann bíður eftir honum á næstu stoppistöð.
Grín og glens | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)