Vertu blessaður Ronald McDonald

Það er dulítið skondið að sjá hve sterkar tilfinningar það vekur hjá mörgum Íslendingum að núverandi sérleyfishafar McDonalds á Íslandi ætla ekki að framlengja samning sinn við Bandaríska fyrirtækið.

Sumir virðast líta á það sem einhverskonar sigur að ekki verði hægt að fá McDo hamborgara á Íslandi, á meðan aðrir virðast vera þeirrar skoðunar að Ísland setji niður við þessa breytingu.

Samt er breytingin sáralítil.  McDonalds er ekki að fara á hausinn, það á ekki að loka neinum stað, það á ekki að gera neinar veigamiklar breytingar á matseðlinum.

Nei, það á eingöngu að breyta um nafn.  McDonalds breytist í Metro.

Ákvörðunin er líklega viðskiptlegs eðlis.  Ávinningurinn af samstarfinu við McDonalds, réttlætir ekki það gjald sem McDonalds vill fá fyrir sérleyfið.

Að öllum líkindum er það ekkert flóknara en það. 

Sjálfur er ég ekki McDonalds maður, en hef nákvæmlega engar áhyggjur af því sem aðrir borða.  Því meira úrval, því betra.   Rétt eins og ég læt mér það í léttu rúmi liggja að Kanadamenn drekki upp til hópa eitthvert versta kaffi sem til er, þ.e.a.s. Tim Hortons.  Helst helli ég upp á Þýskt kaffi hér heima við, en skaplegt (fyrir minn smekk) kaffi má fá á ýmsum stöðum.  Því meira úrval, því betra.

Ísland er hvorki verra né betra, hvort sem þar fæst McDonalds eður ei.  En svo vísað sé til færslunnar hér á undan, þá spilar vissulega gengið líklega inn í þessa ákvörðun eins og svo margar aðrar. Við þessa ákvörðun eflist innlend framleiðsla, innflutningur dregst saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verð nú bara að segja að ég er algjörlega sammála þessum pistli. Óþolandi þetta "gamla Ísland" tal sem bloggarar eins og Silfur Egill er búinn að halda uppi.

 Því meiri fjölbreytni, því betra.

Haraldur (IP-tala skráð) 27.10.2009 kl. 14:41

2 Smámynd: Einhver Ágúst

Heyr heyr og skál jafnvel.....

Einhver Ágúst, 27.10.2009 kl. 17:23

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Hafandi drukkið tugi lítra af kaffi hjá Tim Hortons verð ég að andmæla harðlega þeirri fullyrðingu að það sé hið versta kaffi. Versta kaffi í heimi fékkst til langs tíma í Norræna húsinu í Reykjavík. Sopinn hjá Tim var góður. Með heimsins bestu gulrótarmúffum. Þessi kostur er eitt af því sem ég sakna frá Kanada. Eins og þeir segja: God is in the details ...

Ekki mun ég heldur sakna McDonalds, en auðvitað er skiljanlegt hversu mikið mál þetta er. Allir sem eitthvað fylgjast með og horfast í augu við veruleikann hljóta að gera sér grein fyrir að McDonalds hefur mikla táknræna merkingu og víðtæka, pólitíska og menningarlega skírskotun.

Þannig séð eru þetta auðvitað merkileg tíðindi. Að halda því fram að þetta sé "bara bisness" er annaðhvort til marks um einfeldni eða yfirlæti.

Kristján G. Arngrímsson, 28.10.2009 kl. 13:39

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég læt mér það nokk í léttu rúmi liggja þó að þó hafir "lélégan" kaffismekk Kristján minn.  Hver hefur sinn djöful að draga.  En enn og aftur sannar fjölbreytnin kosti sína.

Ég held að pólítískt og menningarlegt gildi McDonalds hafi verið blásið út langt fram yfir það sem raunverulegt er.  Oft í annarlegum tilgangi.

McDo hefur orðið svona "rallying point", aðallega andstæðinga "Amerískrar menningar", þeir sem kunna að meta fæðið fara hins vegar gjarna hljóðlega um og greiða atkvæði með buddunni.

Það er ekkert einsdæmi að skyndibitakeðjur dragi sig út úr einhverju landi.  Það gerði til dæmis Burger King í Frakklandi 1997 eða 8.  McDonalds lenti líka í verulegum vandræðum í Japan, staðirnir hreinlega gengu ekki, en mig minnir að þeir hafi bjargað sér með því að aðlaga staðina betur að Japönskum smekk.

Það er líka vert að hafa í huga að það er fjöldinn allur af erlendum keðjum til staðar á Íslandi.  Subway, Pizza (the) Hut, KFC, TGF, Ruby Tues og sjálfsagt einhverjar fleiri sem ég man ekki eftir.

Það bendir eindregið til þess að það sé viðskiptamódel McDonalds sem gengur ekki upp, frekar en að Íslendingar séu að taka "menningarlega" eða "pólítíska" ákvörðun um að beina viðskiptum sínum annað.

G. Tómas Gunnarsson, 28.10.2009 kl. 14:04

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er nú bara blessaða krónan og lága gengið á henni sem fór með McDo á Íslandi, segir sérleyfishafinn, Lyst. Þeir þurfa nefnilega að flytja allt inn, en það sem kemur í staðinn, Metro, verður gert úr innlendu hráefni.

Þannig að brotthvarf McDo hér hefur ekkert með menningu eða íslenskt andóf að gera. Enda átti ég ekki við neitt neikvætt með því að segja að McDonalds væri táknrænt menningarfyrirbæri. Það er bara staðreynd, hvorki neikvæð né jákvæð.

Mér er alls ekki illa við Ronald og hef ítrekað greitt honum atkvæði með buddunni. Mér fannst Burger King reyndar betri, og sakna hans. Núna fer ég helst á Ruby Tuesday.

Við þetta get ég svo bætt, að ég drekk helst af öllu Starbucks kaffi. Það er því miður líka orðið mjög dýrt hérna vegna krónunnar, en ég læt mig hafa það. (Starbucks fæst altso í pökkum - til heimabrúks - í Hagkaup).

Kristján G. Arngrímsson, 28.10.2009 kl. 18:48

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Akkúrat, það er viðskiptamódel McDo sem gengur ekki upp.  Það er vissulega til hagsbóta fyrir Íslenskt efnahagslíf að þeir staðir sem áður seldu innflutt hráefni selji nú Íslenskt. 

Krónan styður og stendur með sínum.

Þetta var einmitt ein af meinsemdunum í Íslensku efnahagslífi, að það var orðið æ erfiðara fyrir innlenda frameiðslu að keppa við innflutta, vegna þess hve sterk krónan var (sem var svo ekki mikil innistæða fyrir).

G. Tómas Gunnarsson, 28.10.2009 kl. 19:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband